Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 48/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 23/1956   Lög nr. 75/1981 — 7. gr. B-liður — 31. gr. 1. tl. — 32. gr. — 116. gr.   Reglugerð nr. 245/1963 — 17. gr. B-liður 3. tl.  

Niðurskurður sauðfjár — Sauðfjárveikivarnir — Bætur vegna niðurskurðar sauðfjár — Búrekstur — Landbúnaður — Skattmat ríkisskattstjóra — Matsreglur ríkisskattstjóra — Bústofnsskerðing — Bústofnsaukning — Rekstrarkostnaður — Kaupverð — Kaupverð búfjár — Skattmat búfjár — Fyrning — Fyrnanleg eign — Ófyrnanleg eign — Lausafé — Ófyrnanlegt lausafé — Landbúnaðarskýrsla

Málavextir eru þeir, að auk gjaldfærðrar bústofnsskerðingar 2.207.530 kr. í landbúnaðarskýrslu fyrir árið 1988 gjaldfærði kærandi „lífverð lamba, kynbótagildi“ 274.965 kr. Með bréfi, dags. 1. júní 1989, fór skattstjóri fram á rökstuðning fyrir gjaldfærslu þessari, er virtist vera mismunur á matsverði búfjár í árslok og kaupverðs þess. Af hálfu umboðsmanns kæranda var bréfi, skattstjóra svarað með bréfi, dags. 19. júní 1989. Kom fram, að allt sauðfé kæranda hefði verið skorið niður samkvæmt stjórnvaldsfyrirmælum 1988 og bætur greiddar fyrir áætlað tjón. Þær bætur hefðu verið færðar til tekna. Endurnýjun fjárstofnsins hefði hafist haustið 1988 með gimbrakaupum, er mynduðu kjarnann í nýjum bústofni. Með þeim stofni yrði ræktaður upp nýr fjárstofn og því hefði borið að vanda val hans, er gert hefði verið með því að kaupa aðeins úrvals gimbrar með hátt kynbótagildi og því verðmeiri en almennt gerðist. Kaupverð hefði verið hærra en skattmat og væri sá munur bein útgjöld vegna niðurskurðar fjárins, er hefði verið fyrirskipaður. Bætur væru tekjufærðar og því yrði ekki annað séð en gjaldfæra bæri útlagðan kostnað vegna endurnýjunar fjárstofnsins. Með bréfi, dags. 28. júní 1989, tilkynnti skattstjóri kæranda, að gjaldfært lífverð lamba 274.965 kr. hefði verið fellt niður sem frádráttarbær gjöld á landbúnaðarframtali, sbr. verklagsreglur ríkisskattstjóra.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var þessi breyting skattstjóra kærð til hans með kæru, dags. 22. ágúst 1989. Kæran er svohljóðandi:

„Með vísan til 31. gr. laga 75/1981, um tekju- og eignarskatt með síðari breytingum er hér með mótmælt þeirri ákvörðun að fella niður útlagðan kostnað við endurnýjun á bústofni.

Í bréfi dagsett 28. júní 1989 er tilkynnt að 274.965 kr. séu felldar niður sem frádráttarbær gjöld. Með vísan til 31. gr. laga nr. 75/1981 með síðari breytingum „Frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða eru tengdar slíkum rekstri má draga:

1. Rekstrarkostnað, það er þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við.“

Kaup á lífgimbrum sem að kaupverði er mun hærra en skattmat vegna þess að verið er að koma upp nýjum fjárstofni hlýtur að teljast rekstrarkostnaður í skilningi laganna.

Ekki er heimilt að fyrna kaup á bústofni og því verður að færa þessi gjöld til frádráttar á því ári sem kaup eiga sér stað.

Heildar kaupverð á lífgimbrum var 691.500 kr.

Skattmat 416.535 kr.

Mismunur 274.965 kr.

Rétt er að árétta að lífgimbrar eru valdar sérstaklega þar sem þær mynda kynbótalega séð grunn að nýjum fjárstofni á A. Útlagður kostnaður er óumdeilanlegur. Seljendur greiða skatta af þeim tekjum sem þeir afla með þessari sölu. Mismunur á skattmati og kaupverði er því óumdeilanlegur kostnaður við búreksturinn og ber að meðhöndla sem slíkan.“

Með kæruúrskurði, dags. 19. september 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda með svofelldum röksemdum:

„Samkvæmt leiðbeiningum ríkisskattstjóra ber að færa bústofn sem keyptur hefur verið á árinu til bústofnsauka til viðbótar bústofnseign í ársbyrjun á sama mati og bústofnseign í árslok. Ekkert kemur fram um það í leiðbeiningum ríkisskattstjóra að mismun á kaupverði og matsverði skuli færa til tekna eða gjalda.“

Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 17. október 1989. Gerir hann grein fyrir því, að sauðfé kæranda hafi verið skorið niður vegna hringskyrfis og Sauðfjárveikivarnir bætt skaðann og allar bætur færðar til tekna. Sauðfjárrækt hefði verið leyfð að nýju haustið 1988 og keyptar lífgimbrar og einn hrútur og myndaði stofn þessi framtíðarfjárstofn búsins. Gerir umboðsmaðurinn frekari grein fyrir gimbrakaupunum og verðmæti vegna kynbótagildis. Líta mætti á mismun matsverðs og kaupverðs sem ígildi kynbótagildis. Verði sá mismunur ekki talinn annað en kostnaður til öflunar tekna. Eðlilegra hefði verið að dreifa þessum kostnaði á nokkur ár en það væri ekki heimilt. Rétt væri að árétta, að seljendur tekjufærðu söluverð seldra gripa og greiddu skatta samkvæmt því. Vísaði umboðsmaðurinn til 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og ítrekaði að öðru leyti áður fram komin sjónarmið og skýringar.

Með bréfi, dags. 7. nóvember 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Hin umdeilda gjaldfærsla er eigi í samræmi við ákvæði 3. tl. B-liðs 17. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. einkum 2. mgr. þessa töluliðs, og lagaheimild þykir ella ekki vera fyrir henni. Þykir því bera að staðfesta hina kærðu breytingu skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja