Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 56/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 91. gr. 1. mgr. — 93. gr. — 95. gr. 2. mgr. — 96. gr. — 99. gr. 1. mgr. 2. ml. — 118. gr. Bréf ríkisskattstjóra, dags. 13. mars 1989, varðandi framlengingu framtalsfresta framtalsárið 1989
Síðbúin framtalsskil — Tímanleg framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Skattframtal tekið sem kæra — Framtalsfrestur — Viðbótarframtalsfrestur — Heimild fjármálaráðherra til að breyta tímaákvörðunum og frestum — Álagningarmeðferð skattstjóra — Kærumeðferð skattstjóra — Málsmeðferð áfátt — Rekstrarkostnaður — Starfsmannakostnaður — Bifreiðakostnaður — Rekstraryfirlit fólksbifreiðar — Fylgigögn skattframtals — Lífeyrissjóðsiðgjald — Mótframlag atvinnurekanda v/lífeyrissjóðsiðgjalds — Orkukostnaður — Skattframtal, vefenging — Skattframtal, tortryggilegt — Breytingarheimild skattstjóra — Fyrirspurnarskylda skattstjóra — Einkanot — Einkanot bifreiðar — Akstur milli heimilis og vinnustaðar — Akstur í eigin þágu — Bensínkostnaður
Málavextir eru þeir, að kærendur töldu fram til skatts og skiluðu skattstjóra þann 18. maí 1989 undirrituðu og staðfestu skattframtali árið 1989, dags. 13. maí 1989. Með bréfi, dags. 10. júlí 1989, fór skattstjóri fram á við kærendur, að þeir létu í té gögn og skýringar varðandi nokkra tilgreinda liði í skattframtali sínu. Svarfrestur var ákveðinn sjö dagar frá dagsetningu bréfsins. Tók skattstjóri fram, að skattframtal kærenda, sem borist hefði tíu dögum eftir lok framtalsfrests, yrði afgreitt, þegar svör hefðu borist við fyrirspurnarbréfinu. Með bréfi, dags. 12. júlí 1989, svaraði umboðsmaður kærenda tveimur liðum af sex í bréfi skattstjóra, en öðrum liðum yrði svarað síðar vegna fjarveru kærenda. Við álagningu opinberra gjalda 1989 voru kærendum áætlaðir skattstofnar. Með bréfi, dags. 3. ágúst 1989, svaraði umboðsmaður kærenda ofangreindu bréfi skattstjóra. Með úrskurði, dags. 1. september 1989, tók skattstjóri til afgreiðslu skattframtal kærenda árið 1989 og tók tillit til ofangreindra bréfaskipta. Féllst hann á að leggja framtalið til grundvallar nýrri álagningu gjalda en gerði áður á því fjórar tilgreindar breytingar, þ.e. starfsmannakostnaður 36.223 kr. felldur niður, lífeyrismótframlög lækkuð um 82.811 kr., bifreiðakostnaður lækkaður um 140.000 kr. og orkukostnaður lækkaður um 78.169 kr. Í kæru til ríkisskattanefndar er þess krafist að þessar breytingar skattstjóra verði felldar úr gildi.
Með bréfi, dags. 24. október 1990, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Um lið 1: Að kröfu kæranda verði hafnað. Ekki er fallist á að umræddur kostnaður sé frádráttarbær í skilningi 31. gr. laga nr. 75/1981.
Um lið 2: Skattstjóri lækkaði mótframlag til lífeyrissjóðs niður í 214.275 kr. skv. innsendum skilagreinum. Nú hefur borist skilagrein fyrir desember 1988 og er fallist á hækkun skv. því um kr. 16.383, samtals 230.658 kr.
Um lið 3: Framkomin greinargerð um rekstrarkostnað bifreiðar kæranda RSK 4.03, er, auk þess að vera ófullnægjandi útfyllt og óundirrituð, afar ótrúverðug og er ekki fallist á að hún fái hnekkt mati skattstjóra á frádráttarbærum rekstrarkostnaði bifreiðarinnar. Má nefna að skv. yfirlitinu hefur verið keypt bensín fyrir 145.481 kr. á tímabilinu maí – desember 1988 og ekið samtals 15.000 km. Meðalverð á super bensíni á árinu 1988 var kr. 36,50 og samkvæmt þessu hefur bifreiðin eytt u.þ.b. 26 lítrum á hverja 100 km, sem fær ekki staðist. Þá er ekki heimilt að telja til rekstrarkostnaðar útvarp eins og gert er. Að auki má nefna að ekki er gerð grein fyrir akstri í eigin þágu, þ.m. til og frá vinnu.
Um lið 4: Krafist er staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans, enda hafa engin gögn verið lögð fram er hnekkt gætu ákvörðun hans.“
Á því þykir verða að byggja í máli þessu, að skattstjóri hafi veitt kærendum viðbótarfrest til framtalsskila gjaldárið 1989 og hafi lokadagur þess frests verið 22. maí 1989, sbr. í þeim efnum bréf ríkisskattstjóra, dags. 13. mars 1989, um „frávik frá framtalsfrestun á árinu 1989 fyrir þá sem hafa atvinnu af framtalsgerð...“. Bar skattstjóra því að gæta ákvæða 1. mgr. 95. gr. og 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að því er varðar álagningarmeðferð og breytingar á skattframtali kærenda. Þessa gætti skattstjóri eigi og verður þegar af þeim ástæðum að fallast á kröfu kærenda í máli þessu.