Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 64/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 68. gr. A-liður  

Hjón — Sköttun hjóna — Persónuafsláttur — Millifærður persónuafsláttur frá maka — Persónuafsláttur, millifærður frá maka — Óráðstafaður persónuafsláttur maka — Kæra, tilefnislaus — Tilefnislaus kæra — Frávísun — Frávísun vegna tilefnislausrar kæru — Leiðbeining ríkisskattanefndar

Millifærður persónuafsláttur frá maka nam 114.648 kr. við frumálagningu og óráðstafaður persónuafsláttur, er féll niður hjá maka nam 28.662 kr. Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 1. nóvember 1989, krefst kærandi þess, að fjárhæð millifærðs persónuafsláttar maka til hans verði ákveðin 137.301 kr.

Kærandi gerir svofellda grein fyrir kæruefni og kröfum sínum:

„Skattafsláttur konu minnar nýttist henni þannig, að hún greiðir útsvar kr. 6657 og eignarskatt kr. 8346, samtals kr. 15003. Eftir standa þá kr. 171.626 af hennar afslætti. Af því ættu að nýtast mér kr. 171.626x0.8 eða kr. 137.301, en ekki kr. 114.648 eins og stendur á Gjaldheimtu og álagningarseðli. Er þarna munur er nemur kr. 22.653, sem mér nýtist ekki. Það sem fellur niður óráðstafað af afslætti konu minnar er þá kr. 171.626x0.2 eða kr. 34.325 en ekki kr. 28.662 eins og stendur á skattseðli konu minnar.“

Með bréfi, dags. 5. nóvember 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Tekjuskattsstofn eiginkonu kæranda gjaldárið 1989 nam 99.355 kr. Af þessum stofni reiknaðist tekjuskattur 28.316 kr. og dróst hluti persónuafsláttar frá þessari fjárhæð. Sýnt er, að kærandi hefur ekki tekið þetta með í reikninginn. Að þessu virtu þykir bera að vísa kærunni frá sem tilefnislausri.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja