Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Uppgjör skattskyldrar veltu
  • Tímaviðmiðun innskattsfrádráttar

Úrskurður nr. 567/1997

Virðisaukaskattur 1995

Lög nr. 50/1988, 13. gr., 15. gr. 4. mgr., 16. gr. 1. mgr.  

Hafnað var kröfu kæranda um innskattsfrádrátt á uppgjörstímabilinu júlí–ágúst 1995 vegna virðisaukaskatts samkvæmt nokkrum sölureikningum sem voru útgefnir í mars, apríl, maí eða júní 1995.

I.

Með kæru, dags. 10. nóvember 1995, hefur umboðsmaður kæranda kært ákvörðun skattstjóra á virðisaukaskatti kæranda uppgjörstímabilið júlí–ágúst 1995, sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 19. október 1995, og kæruúrskurð, dags. 7. nóvember 1995. Samkvæmt kæruúrskurðinum hækkaði skattstjóri áður ákvarðaðan virðisaukaskatt kæranda vegna lækkunar innskatts um 64.573 kr. á framangreindu uppgjörstímabili. Endurákvörðun þessi var gerð í kjölfar athugunar skattstjóra á bókhaldsgögnum kæranda. Að hluta stafaði lækkun innskatts af því að hluti þeirra reikninga, sem lágu til grundvallar innskattsfrádrætti, tilheyrðu ekki uppgjörstímabilinu júlí–ágúst 1995. Að öðru leyti lækkaði skattstjóri innskatt á þeirri forsendu að fullnægjandi bókhaldsskjöl í skilningi 20. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, lægju ekki til grundvallar tilfærðum innskatti á virðisaukaskattsskýrslu kæranda.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 10. nóvember 1995, kemur fram af hálfu kæranda að hann hafi tekið sér innskatt af reikningum eins og hann greiddi þá, en ekki samkvæmt dagsetningu þeirra. Í bréfi til skattstjóra, dags. 23. október 1995, hafi hann áskilið sér rétt til að leiðrétta fyrri virðisaukaskattsskil sín og bæta þá við innskatt þeirra tímabila, sem dagsetningar viðkomandi reikninga segðu til um, en skattstjóri hefði ekki tekið afstöðu til þeirrar beiðni og gæfi kæranda engan kost á slíkri leiðréttingu, né heldur að krefja viðkomandi verktaka um fullkomlega löglegan reikning. Er kröfugerð kæranda svohljóðandi:

„Ég vil því vinsamlegast fara þess á leit við hæstvirta yfirskattanefnd, að hún endurskoði umræddan úrskurð, þannig að umbj. minn fái leiðréttingu mála sinna og að umræddur innskattur sé látinn óbreyttur standa eða umbj. mínum gefinn kostur á leiðréttingum eftir því sem við á."

Með bréfi, dags. 5. janúar 1996, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans. Tekið skal fram að kærandi hefur heimild til að innskatta þá reikninga, sem fullnægja formkröfum virðisaukaskatts og skattstjóri hafnaði, á þeim tímabilum sem þeir tilheyra enda leggi kærandi fram leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts (eyðublað RSK 10.26)."

II.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, kemur fram að til skattskyldrar veltu á hverju uppgjörstímabili, sbr. 24. gr. laganna, beri að telja heildarskattverð allra vara sem afhentar hafa verið á tímabilinu. Með ákvæðinu er sú meginregla orðuð að tímamark skattskyldu beri að telja þegar afhending vöru á sér stað. Í 2. mgr. 13. gr. sömu laga kemur fram að sé reikningur vegna afhendingar gefinn út, teljist afhendingin hafa átt sér stað á útgáfudegi reikningsins, enda sé reikningurinn gefinn út fyrir eða samtímis afhendingu. Samkvæmt 4. mgr. 15. gr. laga nr. 50/1988 er innskattur á hverju uppgjörstímabili sá virðisaukaskattur sem á tímabilinu kemur fram á sölureikningum þeirra sem selt hafa hinum skattskylda aðila á tímabilinu. Af þessu ákvæði, sbr. einnig 3. mgr. sömu lagagreinar og 1. mgr. 16. gr. laganna, verður sú ályktun dregin að eingöngu kaup skattaðila á viðkomandi uppgjörstímabili hafi í för með sér heimild til að telja virðisaukaskatt af aðföngunum til innskatts tímabilsins. Gilda þannig sambærilegar reglur um uppgjör innskatts og uppgjör skattskyldrar veltu, sbr. 13. gr. laganna.

Skattstjóri féllst ekki á innskattsfrádrátt vegna samtals 11 sölureikninga á þeirri forsendu að þeir tilheyrðu ekki uppgjörstímabilinu júlí–ágúst 1995. Reikningar þessir eru ýmist útgefnir í mars, apríl, maí eða júní 1995. Samkvæmt því og með vísan til 4. mgr. 15. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, verður ekki fallist á kröfu kæranda um innskattsfrádrátt á uppgjörstímabilinu júlí–ágúst 1995 vegna þessara kaupa.

Af hálfu kæranda hefur þess verið krafist til vara fyrir yfirskattanefnd, að honum verði gefinn kostur á „leiðréttingum eftir því sem við á", sbr. hér að framan um efni kæru. Af skráningu í tölvukerfi virðisaukaskatts verður ráðið að skattstjóri hafi þann 31. október 1996 framkvæmt þá breytingu á virðisaukaskatti kæranda, að viðurkenna innskattsfrádrátt að fjárhæð 64.573 kr., þó þannig að frádrátturinn er færður á uppgjörstímabilið nóvember–desember 1995. Þar sem annað liggur ekki fyrir verður að ætla að umrædd breyting sé gerð í samráði við kæranda eða umboðsmann hans. Er því í raun ekki ágreiningi fyrir að fara í málinu lengur að því er leiðréttingu varðar. Samkvæmt því þykir varakrafa kæranda um leiðréttingu tilefnislaus og ber að svo vöxnu að vísa henni frá yfirskattanefnd. Hins vegar þykir mega fella niður álag að fjárhæð 6.457 kr. á uppgjörstímabilinu júlí–ágúst 1995.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja