Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 66/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 91. gr. 1. mgr. — 92. gr. 1. mgr. — 95. gr. 1. mgr. 1. ml. — 121. gr. 3. mgr.   Lög nr. 45/1987 — 1. gr. — 5. gr. 1. tl. — 9. gr. 2. mgr.  

Skattskyldar tekjur — Vantaldar tekjur — Framtalsskylda — Bifreiðahlunnindi — Upplýsingaskylda — Upplýsingaskylda launagreiðanda — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Bráðabirgðagreiðsla tekjuskatts og útsvars — Laun í staðgreiðslu — Álagning — Álagning að liðnu tekjuári — Álagning, almenn

Málavextir eru þeir, að skattstjóri hækkaði framtaldar tekjur kæranda frá A hf. úr 441.260 kr. í 483.386 kr. eða um 42.126 kr., sem voru tilfærð bifreiðahlunnindi samkvæmt launauppgjöf fyrirtækisins. Af hálfu umboðsmanns kæranda var þessi tekjuhækkun kærð hinn 18. ágúst 1989 á þeim forsendum, að greiddur hefði verið skattur af tekjum þessum í staðgreiðslu. Með kæruúrskurði, dags. 30. október 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum, að um skattskyldar tekjur væri að ræða samkvæmt 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og því framtalsskyldar.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 15. nóvember 1989, og ítrekuð krafan um niðurfellingu með sömu rökum og áður.

Með bréfi, dags. 7. nóvember 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Í tilefni af kröfugerð kæranda skal tekið fram, að bráðabirgðagreiðsla samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda leysir kæranda ekki undan framtalsskyldu svo sem hann virðist álíta, en ágreiningslaust sýnist, að umrædd tekjuviðbót vegna bifreiðahlunninda sé skattskyld. Með þessum athugasemdum er úrskurður skattstjóra staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja