Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 80/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl.
Rekstrarkostnaður — Slysatrygging — Slysatryggingariðgjald — Slysatrygging atvinnurekandans sjálfs — Kostnaður vegna atvinnurekandans sjálfs — Persónulegur kostnaður — Frádráttarheimild — Iðnaður — Löggilt iðngrein — Málaraiðn — Eigin atvinnurekstur
Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1989. Skattstjóri felldi niður gjaldfærða slysatryggingu 28.301 kr. á rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1988 vegna sjálfstæðrar málaraiðnar. Taldi skattstjóri slysatryggingu kæranda sjálfs ekki rekstrarkostnað í skilningi 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. kæruúrskurð hans, dags. 18. október 1989.
Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 6. nóvember 1989. Í kærunni segir svo:
„Ofanritaður er málari að iðn og vinnur oft á tíðum við erfiðar og hættulegar aðstæður og þar af leiðandi taldi hann ekki hjá því komist að taka slysatryggingu. Þannig er þessi trygging tekin vegna þess starfs sem hann stundar. Með þetta í huga tel ég að þessi slysatrygging falli undir gjöld skv. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt. Hér með legg ég þetta ágreiningsefni fyrir ykkur til úrskurðar.“
Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi, dags. 31. október 1990, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Krafa kæranda í máli þessu er tekin til greina.