Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 95/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. B-liður og C-liður 2. tl. 1. mgr. og 5. tl. — 30. gr. 1. mgr. B-liður 3. tl. og 2. mgr. — 31. gr. 1. tl. — 32. gr. 2. tl. — 38. gr. 5. tl. — 95. gr. 2. mgr. — 96. gr. 1. og 3. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 2. ml. — 106. gr. 1. mgr.   Auglýsing um skattmat ríkisskattstjóra tekjuárið 1988, liðir 2.1.0. og 2.1.2.  

Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Skattframtal tekið sem kæra — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Vítaleysisástæður — Skattskyldar tekjur — Heimanotaðar búsafurðir — Heimanot — Teknamat af landbúnaði — Landbúnaður — Búrekstur — Bústofn — Búfjárafurðir — Skattmat ríkisskattstjóra — Matsreglur ríkisskattstjóra — Frjósemisstuðull — Húsaleigutekjur — Útleiga — Útleiga íbúðarhúsnæðis — Íbúðarhúsnæði — Beinn kostnaður — Fasteignagjöld — Samvinnufélag — Stofnsjóður — Stofnsjóðsinneign í samvinnufélagi — Arður — Arður af stofnsjóðsinneign í samvinnufélagi — Frádráttarheimild — Arðsfrádráttur — Arðsfrádráttur af stofnsjóðsinneign í samvinnufélagi — Fyrning — Fyrnanleg eign — Fyrnanleg fasteign — Rekstrarkostnaður — Ferðakostnaður — Vörubifreiðaakstur — Vörubifreiðarekstur — Kostnaður vegna atvinnurekandans sjálfs — Persónulegur kostnaður — Fæðiskostnaður — Fæði atvinnurekandans sjálfs — Fyrirspurnarskylda skattstjóra — Breytingarheimild skattstjóra — Rökstuðningur — Rökstuðningur ákvarðana skattstjóra — Rökstuðningi áfátt — Rannsóknarregla

I.

Málavextir eru þeir, að af hálfu kærenda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1989. Sættu kærendur því áætlun skattstofna við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 að viðbættu 25% álagi samkvæmt heimildarákvæðum 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Skattframtal kærenda árið 1989, sem dagsett er 7. júní 1989, hafði borist skattstjóra hinn 15. júní 1989 skv. móttökustimplun hans. Tók skattstjóri framtalið sem kæru, sbr. 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og kvað upp kæruúrskurð hinn 6. október 1989, þar sem hann féllst á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda kærenda gjaldárið 1989 með nokkrum breytingum og að viðbættu 15% álagi á skattstofna vegna síðbúinna framtalsskila, sbr. heimildarákvæði 2. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ágreiningsefni í máli þessu eru sem hér segir:

1. Húsaleigutekjur.

Skattstjóri færði til tekna í reit 72 í skattframtalinu húsaleigutekjur 90.000 kr. skv. innsendum greiðslumiða. Af hálfu kærenda er þessari tekjufærslu ómótmælt en farið fram á það í kæru til ríkisskattanefndar að til frádráttar komi fasteignagjöld 5.566 kr. fyrir sama tímabil og tekjurnar taka til, þ.e. 4 1/2 mánuð.

2. Arður af stofnsjóðseign.

Skattstjóri hækkaði arð frá X úr 174 kr. í 2.174 kr. í reit 76. Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 3. nóvember 1989, kemur fram, að samkvæmt útskrift á viðskiptareikningi kæranda, A, hjá X hafi 1.000 kr. verið tekjufærðar 6. maí 1989 og samkvæmt upplýsingum skrifstofustjóra X hafi slíkt verið gert hjá öllum félagsmönnum í samræmi við aðalfundarsamþykkt. Ekki sé ljóst hvaðan skattstjóri fái 2.000 kr. til tekjufærslu í þessum efnum.

3. Heimanot.

Skattstjóri áætlaði heimanot 100.000 kr. vegna sauðfjárafurða og færði til tekna á landbúnaðarskýrslu kærenda með því að „engin grein er gerð fyrir þeim, en gjaldfærður sláturkostnaður og afurðainnlegg ekki í samræmi við bústofn og eðlilega frjósemi.“. Af hálfu kærenda er fjárhæð áætlaðra heimanota mótmælt. Kemur fram af hálfu kærenda að 5 dilkar hafi verið teknir til heimanota, sem láðst hafi að tekjufæra. Því muni vanta 19.150 kr. til tekjufærslu á landbúnaðarskýrslu. Þá er því mótmælt, að gjaldfærður sláturkostnaður sé of hár, þ.e. 3.138 kr. Ennfremur sé ekki ljóst hvað skattstjóri eigi við með „eðlilegri frjósemi.“.

4. Fyrningar.

Skattstjóri leiðrétti fyrningar fasteigna í hinum kærða úrskurði. Í kæru til ríkisskattanefndar telja kærendur ekki ljóst hvernig þessar leiðréttingar séu reiknaðar en von sé til, að það skýrist síðar meir.

5. Ferðakostnaður.

Skattstjóri felldi niður gjaldfærðan ferðakostnað 61.414 kr. af rekstrarreikningi vegna reksturs vörubifreiðar á þeim forsendum, að um hafi verið að ræða „eigið uppihald“, er ekki sé frádráttarbær kostnaður. Af hálfu kærenda, B, er þessari niðurfellingu mótmælt. Ekki sé ljóst, hvernig skattstjóri geti fullyrt, að um eigið uppihald hafi verið að ræða. Sé slíkri fullyrðingu mótmælt þar til kæranda sé gert að sundurliða þennan gjaldalið.

6. Álag v/síðbúinna framtalsskila.

Farið er fram á niðurfellingu þess 15% álags, sem skattstjóri bætti við skattstofna vegna síðbúinna framtalsskila, þar sem veikindi kæranda, A, hafi valdið þeim drætti, er varð á skilum framtalsins, sbr. læknisvottorð, er liggi hjá skattstjóra.

Þá er mótmælt fjárhæð yfirfæranlegs taps, er skattstjóri ákvarðaði á grundvelli hinna umdeildu breytinga. Ennfremur er því haldið fram, að skattstjóra hafi borið að gefa kærendum kost á að skýra mál sitt, áður en hann ákvarðaði hinar umdeildu breytingar.

II.

Með bréfi, dags. 24. október 1990, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

III.

Áður en einstök kæruefni verða tekin til efnislegrar úrlausnar ber að fjalla um þá málsástæðu kærenda, að skattstjóri hafi ekki gætt réttra aðferða, þegar hann ákvað hinar kærðu breytingar. Í því sambandi ber að líta til þess, að skattframtal kærenda árið 1989 barst ekki fyrr en að framtalsfresti liðnum en áður en álagningu var lokið. Af þeim sökum var skattstjóri ekki bundinn af fyrirspurnar- og tilkynningarákvæðum X. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er kröfum byggðum á þessari málsástæðu því synjað. Víkur þá að einstökum kæruatriðum:

Um 1. tl. Ekki þykja efni til annars en að fallast á kröfu kærenda um þetta kæruatriði.

Um 2. tl. Enginn ágreiningur er um það að skattleggja beri umræddan arð. Hins vegar mótmæla kærendur hinni tekjufærðu fjárhæð. Ekki getur skattstjóri um á hverju hann byggir fjárhæð arðsins og ekki liggja fyrir upplýsingar um það í málsgögnum. Að því virtu og með hliðsjón af eindregnum staðhæfingum kærenda og skýringum þykir bera að fallast á þetta kæruatriði.

Um 3. tl. Kærendur tekjufærðu hrossakjöt til heimanota en ekki sauðfjárafurðir. Viðurkenna kærendur vanfærslu í þeim efnum og upplýsa um heimanot 5 dilka, er nema 19.150 kr. skv. skattmati ríkisskattstjóra framtalsárið 1989, útgefnu 4. janúar 1989, sbr. auglýsingu nr. 4/1989, er birtist í Lögbirtingablaði. Skattstjóri hefur m.a. byggt ákvörðun sína á því, að hjörð kærenda væri afbrigðilega afurðarýr, sem reyndar má til sanns vegar færa miðað við framtalsgögn. Þrátt fyrir það þykir þessi tekjuáætlun skattstjóra eiga byggjast á nægilega traustum grunni. Eftir öllum atvikum þykir rétt að miða við fram komnar upplýsingar kærenda um heimanot sauðfjárafurða, þ.e. 19.150 kr. skv. skattmatsverði.

Um 4. tl. Þetta kæruatriði er alveg vanreifað af hendi kærenda og þykir því verða að vísa því frá.

Um 5. tl. Það ber undir kæranda að sýna fram á réttmæti tilfærðs frádráttar. Hins vegar varð sú ályktun engan veginn dregin af rekstrarreikningi kæranda einum sér, að um væri að ræða „eigið uppihald.“. Þessi breyting skattstjóra þykir því svo ómarkviss og órökstudd að ómerkja ber hana.

Um 6. tl. Eftir öllum atvikum og með hliðsjón af fram komnum skýringum þykir mega taka kröfu kærenda um niðurfellingu álags til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja