Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 178/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 96. gr. 1. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml. — 100. gr. 1. mgr. og 5. mgr. Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða I
Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Vaxtafrádráttur — Vaxtaafsláttur — Kæranleiki — Kæranleg skattákvörðun — Kæruúrskurður — Fyrirspurn skattstjóra — Framsending — Framsending ríkisskattanefndar til skattstjóra — Framsending skattstjóra til ríkisskattanefndar — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Svarbréf ranglega tekið sem kæra — Frávísun — Frávísun, engin kæranleg skattákvörðun — Kærumeðferð skattstjóra
Með kæruúrskurði, dags. 13. október 1989, féllst skattstjóri á að vaxtagjöld til ákvörðunar vaxtaafsláttar næmu 451.388 kr. en með bréfi, dags. 14. júlí 1989, hafði hann lækkað vaxtagjöld um 371.043 kr. í 80.345 kr. Sama dag eða 13. október 1989 krafði skattstjóri kæranda upplýsinga um þrjú tilgreind lán og vaxtagjöld af þeim og gaf svarfrest til 2. nóvember 1989. Þessu bréfi svaraði kærandi með bréfi, dags. 1. nóvember 1989, og lagði fram gögn. Bréf þetta hefur skattstjóri framsent ríkisskattanefnd með bréfi, dags. 17. nóvember 1989, sem kæru til nefndarinnar.
Út af erindi þessu hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur með bréfi, dags. 22. janúar 1991:
„Með úrskurði skattstjóra skv. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekju- og eignarskatt, með síðari breytingum, dags. 13. október 1989, hefur skattstjóri fallist á kröfur kæranda. Verður því eigi annað séð en að kæra þessi til ríkisskattanefndar sé tilefnislaus. Með vísan til þessa gerir ríkisskattstjóri þá kröfu f.h. gjaldkrefjenda að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd.“
Skattstjóri hefur í fljótræði tekið bréf kæranda, dags. 1. nóvember 1989, til hans sem kæru til ríkisskattanefndar vegna fyrrnefnds kæruúrskurðar. Sama ranghugmynd kemur fram í kröfugerð ríkisskattstjóra. Ekki varð um það villst, að bréf kæranda varðar fyrirspurnarbréf skattstjóra, dags. 13. október 1989. Enginn kæranlegur úrskurður liggur því fyrir í máli þessu og er kærunni því vísað frá ríkisskattanefnd og framsent skattstjóra til meðferðar og afgreiðslu að lögum án tafar.