Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 179/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tl.   Auglýsing um skattmat ríkisskattstjóra tekjuárið 1988, liður 3.1.0.  

Skattskyldar tekjur — Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Frádráttarheimild — Ökutækjaskýrsla — Akstursdagbók — Kílómetragjald — Matsreglur ríkisskattstjóra — Skattmat ríkisskattstjóra — Ökutækjakostnaður, hámarksfjárhæð pr. ekinn kílómetra

Málavextir eru þeir, að kærandi fékk greiddan ökutækjastyrk frá vinnuveitanda sínum að fjárhæð 73.187 kr., sem hann færði sér til tekna í reit 22 í skattframtali sínu árið 1989. Sömu fjárhæð færði kærandi til frádráttar í reit 32 sem kostnað á móti styrk þessum. Skattframtali kæranda árið 1989 fylgdi greinargerð um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur á árinu 1988 RSK 3.04. Kom þar fram m.a., að akstur í þágu vinnuveitanda nam 3.433 km.

Með bréfi, dags. 26. júlí 1989, tilkynnti skattstjóri kæranda, að frádráttur vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk hefði verið lækkaður úr 73.187 kr. í 56.232 kr. eða til samræmis við þá fjárhæð, er lægst væri samkvæmt skýrslu kæranda um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur, er taldist fjárhæð samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra, þ.e. 16.38 kr. pr. ekinn kílómetra.

Af hálfu kæranda var þessari breytingu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 1. ágúst 1989, og krafðist hann þess, að tilfærð fjárhæð til frádráttar skyldi óbreytt standa. Með kæruúrskurði, dags. 9. nóvember 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda með vísan til þess, að hin umdeilda frádráttarfjárhæð byggðist á upplýsingum kæranda sjálfs og væri í samræmi við 1. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og matsreglur ríkisskattstjóra.

Með kæru, dags. 14. nóvember 1989, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og ítrekar kröfu sína um fjárhæð kostnaðar á móti ökutækjastyrk. Vísar hann til þess, að hann aki í þágu vinnuveitanda samkvæmt kílómetrafjölda, sbr. akstursdagbók og kílómetragjald.

Með bréfi, dags. 7. nóvember 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Samkvæmt 1. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eru útgjöld að hámarki móttekin fjárhæð ökutækjastyrkja frádráttarbær frá tekjum, enda séu þau í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra. Samkvæmt matsreglum þessum nam hámarksfjárhæð pr. ekinn kílómetra gjaldárið 1989 16.38 kr. Óumdeilt er, að akstur í þágu vinnuveitanda hafi numið 3.433 km. Binst frádráttarfjárhæð kæranda því við þá fjárhæð, sem reiknast samkvæmt matsreglu þessari. Með þessum athugasemdum þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja