Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 190/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tl. — 96. gr. 1. og 3. mgr. — 116. gr. Auglýsing um skattmat ríkisskattstjóra tekjuárið 1988, liður 3.1.0.
Skattskyldar tekjur — Vantaldar tekjur — Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Frádráttarheimild — Ökutækjaskýrsla — Akstursdagbók — Akstur milli heimilis og vinnustaðar — Akstur í eigin þágu — Matsreglur ríkisskattstjóra — Skattmat ríkisskattstjóra — Andmælareglan — Málsmeðferð áfátt — Endurgreiðsla útlagðs kostnaðar — Sönnun
Í kæru til skattstjóra, dags. 23. ágúst 1989, fór kærandi fram á, að til frádráttar ökutækjastyrk 18.636 kr. frá X hf. kæmi kostnaður að sömu fjárhæð í reit 32. Styrkur þessi hefði verið greiddur samkvæmt nótum vegna útlagðs kostnaðar við ferðir milli Hríseyjar og Akureyrar ásamt snúningum fyrir útgerðina, sem kærandi starfaði hjá.
Með kæruúrskurðum, dags. 13. og 25. október 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda, enda yrði ekki annað ráðið en að ökutækjastyrkur þessi hefði verið greiddur vegna aksturs milli heimilis og vinnustaðar. Þá hefði greinargerð RSK 3.04 ekki verið skilað.
Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 24. nóvember 1989, ítrekar kærandi kröfu sína um frádrátt á móti ökutækjastyrknum með sömu rökum og skýringum og áður. Kærunni fylgdu ljósrit úr akstursdagbók.
Með bréfi, dags. 5. nóvember 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Af gögnum málsins verður ráðið, að skattstjóri hafi fært kæranda til tekna ökutækjastyrk 18.636 kr. fyrir frumálagningu án þess að kæranda væri gert viðvart um breytingu þessa eða gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna, áður en breytingin var ákveðin. Að þessu virtu og skýringum kæranda um efnishlið málsins þykir umræddur ökutækjastyrkur ekki eiga að valda skattlagningu hjá honum.