Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 191/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 60. gr. 2. mgr. — 92. gr. 1. mgr. — 96. gr. 1. og 4. mgr. — 100. gr. 5. mgr.   Lög nr. 45/1987 — 24. gr.  

Skattskyldar tekjur — Vantaldar tekjur — Launatekjur — Dagpeningar — Tekjutímabil — Launauppgjöf — Upplýsingaskylda — Upplýsingaskylda launagreiðanda — Greiðslutími launa — Greiðsluár — Endurákvörðunarheimild skattstjóra — Löggiltur endurskoðandi — Sönnun — Launaleiðrétting — Ársreikningur — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Staðgreiðsluskrá — Kröfugerð ríkisskattstjóra

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 20. febrúar 1990, tilkynnti skattstjóri um endurákvörðun opinberra gjalda á kæranda gjaldárið 1989 og vísaði til bréfs síns, dags. 19. janúar 1990. Færði skattstjóri til tekna í skattframtali kæranda 1989 183.363 kr. sem væri mismunur launa og dagpeninga skv. launauppgjöf frá X hf. og framtalinna launa frá sama aðila. Taldi skattstjóri, að ekki lægi ljóst fyrir, að þessi vantöldu laun væru framtalin á skattframtali kæranda 1988 vegna tekna 1987.

Endurákvörðun skattstjóra var kærð til hans með bréfi, dags. 28. febrúar 1989. Í bréfinu sagði m.a.: „Þessi greiðsla, kr. 183.363, var leiðrétting á launum ársins 1987 frá X hf., og var greidd til undirritaðs í byrjun janúar 1988, og er þetta staðfest af endurskoðanda X hf., eins og áður hefur komið fram.“ Var óskað eftir að skattstjóri endurmæti þessa ákvörðun sína um endurálagningu á kæranda.

Skattstjóri kvað upp kæruúrskurð í máli þessu þann 9. apríl 1990 og synjaði kröfu kæranda með svofelldum rökum:

„Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra fékk kærandi á árinu 1988 skattskyld laun að fjárhæð kr. 1.977.798,- frá X hf. og var kr. 508.939,- skilað í staðgreiðsluskatt af þeirri fjárhæð. Ekki hefur verið sýnt fram á að hluti þeirrar fjárhæðar sé leiðrétting á tekjum ársins 1987 og eigi að færast á skattframtal 1988 eða í hverju sú leiðrétting var fólgin.“

Úrskurði skattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 29. apríl 1990, og mótmælir endurákvörðun skattstjóra. Vísað er til þeirra upplýsinga er fram komu í kærunni til hans, en síðan segir m.a. í kærunni til ríkisskattanefndar: „Einnig vil ég benda á, að í ársreikningum X hf. fyrir árið 1988 er getið um þessa leiðréttingu, þ.e. leiðréttingu á launum starfsmanna X hf. vegna ársins 1987.“ Kærunni fylgdi staðfesting löggilts endurskoðanda á þessu atriði.

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 9. janúar 1991, gert svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Í ljósi fram kominna skýringa og málsatvika að öðru leyti er fallist á kröfu kæranda.“

Með vísun til kröfugerðar ríkisskattstjóra og framlagðra gagna er fallist á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja