Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tvísköttunarsamningur
  • Persónuafsláttur
  • Leiðbeiningarskylda

Úrskurður nr. 33/1997

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 1. gr.   Auglýsing nr. 19/1989, um Norðurlandasamning til að komast hjá tvísköttun að því er varðar skatta á tekjur og eignir, 18. gr., 25. gr. 4. tölul.  

Kærandi, sem bar ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi, naut eftirlauna frá Danmörku og voru þau skattlögð þar. Í málinu var fjallað um álagningu opinberra gjalda kæranda með tilliti til ákvörðunar persónuafsláttar. Yfirskattanefnd taldi að álagningin hefði verið í samræmi við íslenska löggjöf og framkvæmd að gættum ákvæðum Norðurlandasamnings til að komast hjá tvísköttun á tekjur og eignir. Tekið var fram að skattstjóra hefði borið að gera kæranda grein fyrir tölulegum forsendum álagningarinnar þótt ekki hefði verið um kæru að ræða.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi stóð skil á skattframtali árið 1996 í framtalsfresti það ár. Samkvæmt skattframtalinu nam tekjuskattsstofn 634.063 kr. eða sem svaraði til samtölu greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins. Í samræmi við efni Leiðbeininga ríkisskattstjóra fyrir framtalsárið 1996 á blaðsíðu 26 var í athugasemdadálki á fyrstu síðu skattframtalsins gerð grein fyrir mótteknum eftirlaunum (social pension) frá Danmörku sem námu á árinu 1995 90.748 dkr. og af þeim hafði verið tekinn A-skattur 26.296 dkr. samkvæmt meðfylgjandi ljósriti af yfirliti.

Álagning á kæranda fór þannig fram að tekjuskattsstofn ákvarðaðist sem tekjur hér á landi 634.063 kr. að viðbættum tekjum frá Danmörku 1.047.231 kr., þ.e. umreiknaðar miðað við meðalkaupgengi danskrar krónu á árinu 1995 11,54 ísl. kr., eða alls 1.681.294 kr. Varð reiknaður tekjuskattur að frádregnum persónuafslætti 263.421 kr. og reiknað útsvar 141.229 kr. Álagður tekjuskattur og útsvar ákvarðaðist síðan í sama hlutfalli af reiknuðum tekjuskatti og útsvari og nam hlutfalli tekna hér á landi af tekjuskattsstofni eða 37,71%. Þannig nam niðurfelldur skattur í álagningu alls 252.057 kr. eða sem svaraði til hlutfallsins 62,29% vegna tekna frá Danmörku.

Með kæru til skattstjóra, dags. 22. ágúst 1996, fór umboðsmaður kæranda fram á að álagningin yrði yfirfarin og leiðrétt og tók fram í því sambandi að svo virtist sem um tvísköttun tekna frá Danmörku væri að ræða, en þær hefðu verið skattlagðar þar. Einnig óskuðust forsendur álagningar skýrðar og í því efni vísað til þess að á álagningar- og innheimtuseðli 1996 kæmi ekki fram stofn til útreiknings tekjuskatts og væru forsendur skattlagningar því ekki ljósar.

Í kæruúrskurði, dags. 15. október 1996, vísaði skattstjóri til þess að kærandi bæri hér á landi ótakmarkaða skattskyldu af öllum tekjum sínum hvar sem þeirra væri aflað og sama ætti við um eignir samkvæmt 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og samkvæmt 1. mgr. 90. gr. sömu laga skyldi hann skattlagður þar sem hann hefði átt lögheimili 1. desember á tekjuári. Þá hefði í hinni kærðu álagningu verið tekið tillit til ákvæða samnings milli Norðurlanda til að komast hjá tvísköttun á tekjur og eignir, birtur sem fylgiskjal með auglýsingu nr. 19 í C-deild Stjórnartíðinda, dags. 30. nóvember 1989, um gildistöku hans þann 31. desember 1989. Vék skattstjóri í því sambandi að ákvæðum 18. gr. samningsins, um eftirlaun o.fl., og c-liðar 4. tölul. 25. gr. hans, um aðferð til að komast hjá tvísköttun. Það leiddi af tilvitnuðum samningsákvæðum að Íslandi væri heimilt við ákvörðun tekjuskatts og útsvars að taka mið af erlendum tekjum. Þá vísaði skattstjóri til þess að ríkisskattstjóri hefði sett skattstjórum verklagsreglur um útreikning opinberra gjalda manna vegna tekna er féllu undir ákvæði tvísköttunarsamninga er Ísland væri aðili að. Þar segði að reikna bæri skatt af heildartekjum þess aðila er um ræddi en skattur væri innheimtur í sama hlutfalli og innlendar tekjur væru af heildartekjum. Til einföldunar mætti segja að persónuafsláttur skertist um hlutfall erlendra tekna af heildartekjum, enda væri það ekki tilgangur tvísköttunarsamninga að veita aðilum aukin réttindi á við aðra skattgreiðendur. Hefði skattstjóri við hina kærðu álagningu farið að lögum og eftir verklagsreglum ríkisskattstjóra. Væri kæran því tilefnislaus og henni vísað frá.

II.

Með kæru, dags. 14. nóvember 1996, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar og ítrekar fyrri kröfu sína um að forsendur skattlagningar verði útskýrðar. Kveður umboðsmaður skattstjóra hafa vísað til þess að álagningin væri í samræmi við verklagsreglur ríkisskattstjóra en úrskurðinum hefði ekki fylgt útreikningur á álagningunni eins og farið hefði verið fram á.

Með bréfi, dags. 20. desember 1996, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Ríkisskattstjóri telur að vísa beri kærunni frá yfirskattanefnd, þar sem ekki kemur fram rökstudd vefenging á úrskurð skattstjóra, heldur aðeins ósk um skýringu á tölulegri niðurstöðu skattstjóra.

Fallist yfirskattanefnd á að fjalla um kæruna, telur ríkisskattstjóri að staðfesta beri úrskurð skattstjóra."

III.

Í lýsingu málavaxta hér að framan hefur verið gerð grein fyrir tölulegum forsendum umþrættrar álagningar. Í kæruúrskurði skattstjóra hefur verið gerð grein fyrir efnisforsendum hinnar kærðu álagningar sem máli skipta í máli þessu en hins vegar vantaði eins og fram er komið að greina frá tölulegum forsendum hennar. Telst hin kærða álagning vera í samræmi við íslenska löggjöf og framkvæmd að gættum ákvæðum tilvitnaðs tvísköttunarsamnings. Tekið skal fram í þessu sambandi að skattstjóra er ávallt skylt sé eftir því leitað að veita þær upplýsingar og skýringar sem um ræðir í máli þessu án undangenginnar kæru. Að öðru leyti og með vísan til þess sem greinir í kröfugerð ríkisskattstjóra er úrskurður skattstjóra staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja