Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 225/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 2. tl. — 30. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 2. ml.  

Skattskyldar tekjur — Styrkur — Rannsóknarstyrkur — Markaðsathugun — Beinn kostnaður — Ferðakostnaður — Sönnun — Síðbúin framtalsskil — Skattframtal í stað áætlunar — Skattframtal tekið sem kæra

Skattstjóri tók síðbúið skattframtal kæranda árið 1989 sem kæru eftir ákvæðum 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með úrskurði, dags. 23. október 1989, féllst skattstjóri á að leggja framtalið til grundvallar nýrri álagningu gjalda með þeirri breytingu, að hann færði kæranda til tekna „framlag“ að fjárhæð 400.000 kr. frá X. Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 21. nóvember 1989, gerir umboðsmaður kæranda ekki athugasemd við tekjufærslu þessa, en krefst þess að viðurkenndur verði til frádráttar kostnaður á móti en hann hafi numið mun hærri fjárhæð en framlagið. Gerir hann grein fyrir því að framlagið hafi verið veitt kæranda til markaðsathugana og könnunar á möguleikum til fiskveiða við strendur Bandaríkjanna og hafi hann haft verulegan kostnað af. Þannig hafi flugfargjöld numið alls 582.898 kr. í sjö ferðum.

Með bréfi, dags. 7. nóvember 1990, gerir ríkisskattstjóri þá kröfu fyrir hönd gjaldkrefjenda, að „úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki verið lögð fram nein gögn sem staðfest gætu kostnað þann sem upp er talinn í kærunni“.

Engin efni eru til að vefengja þá fullyrðingu kæranda að hann hafi haft kostnað a.m.k. jafnháan þeirri fjárhæð er nam umræddu framlagi. Ber því að fallast á kröfu hans, sbr. lokamálsgrein 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja