Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 241/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 63. gr. 3. mgr. — 64. gr. 1. mgr. — 100. gr. 3. mgr.
Sambýlisfólk — Óvígð sambúð — Sköttun sambýlisfólks — Lögheimili — Sameiginlegt lögheimili — Lögheimili, sameiginlegt — Sambúðartími — Sambúðarskráning — Sambúðarvottorð — Hagstofa Íslands, þjóðskrá — Þjóðskrá — Þungun — Þungunarvottorð — Framtalsháttur — Skattframtal í ósamræmi við kröfugerð — Vanreifun — Frávísun — Frávísun vegna vanreifunar — Kröfugerð kæranda — Rökstuðningur — Rökstuðningur kæru — Rökstuðningi kæru áfátt
Kærendur fóru fram á skattlagningu eftir þeim reglum, sem gilda um hjón fyrir hluta tekjuársins 1988 vegna sambúðar.
Skattstjóri synjaði kröfu kærenda um samsköttun, sbr. úrskurð hans, dags. 7. nóvember 1989. Þar segir svo:
„Framtal yðar, sem mótt. var hér 3. mars 1989 var lagt til grundvallar við frumálagningu. Ekkert kom þar fram um sambúð, né samsköttun.
Tvö framtöl yðar, sem mótt. eru hér 24. okt. 1989, eru nú afgreidd sem kæra, og unnin út frá fyrirliggjandi gögnun. Í þeim teljið þér yður eiga rétt á samsköttun hluta úr ári með A. Lögheimili A er í Reykjavík.
Ekki er unnt að fallast á það sjónarmið yðar, þar sem ekkert liggur fyrir um að þér uppfyllið skilyrði til samsköttunar. Þér hafið ekki átt sameiginlegt lögheimili sl. tvö ár, og enn er ekki sameiginlegt lögheimili. Sama aðsetur hefur aðeins verið frá 18/7. – 20/10. 1988, samkv. þjóðskrá. Lögheimili yðar var á X og A í Reykjavík. Ekkert barn er á framfæri yðar sem þið eruð foreldrar að, og ekkert kemur fram um að um þungun sé að ræða hjá A.
Um samsköttun gilda mjög ákveðnar reglur svo sem að framan greinir. Lögheimili verður alltaf að vera það sama og hafa verið sl. tvö ár, barn sem báðir einstaklingar eiga saman, eða konan er þunguð og þá verður að liggja fyrir vottorð læknis eða ljósmóður um að svo sé.
Þar sem ekkert framangreindra skilyrða virðist vera fyrir hendi hjá yður verður ekki fallist á samsköttun.
Opinber gjöld hjá yður skulu óbreytt standa.“
Af hálfu kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 20. nóvember 1989. Er krafist samsköttunar hluta tekjuársins 1988. Með kæru fylgdi sambúðarvottorð Hagstofu Íslands, dags. 20. nóvember 1989, þar sem fram kemur, að kærendur hafi verið skráð í sambúð tímabilið 18. júlí 1988 til 20. október 1988. Þá fylgdi staðfest myndrit vottorðs tveggja manna um sambúð kærenda undanfarin 4 ár, árin 1984–1986 að B og að D, Reykjavík, árið 1987.
Með bréfi, dags. 7. nóvember 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Svo er helst að skilja kröfugerð kærenda fyrir ríkisskattanefnd að þau óski skattlagningar eftir þeim reglum, sem um hjón gilda tímabilið 18. júlí 1988 – 20. október 1988, en ella sem einstaklingar. Í fyrirliggjandi framtölum kemur hins vegar fram, að miðað er við tímabilið 20. júlí 1988 til loka þess árs og verður að ætla, að teknaskipting á framtöl miðist við það tímabil. Að þessu virtu og málsatvikum og málsgögnum að öðru leyti þykja kærendur ekki hafa lagt mál sitt svo fyrir, að krafa þeirra um samsköttun hluta tekjuársins 1988 sé tæk til efnislegrar meðferðar. Verður því ekki hjá því komist að vísa henni frá vegna vanreifunar.