Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 243/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 63. gr. — 64. gr. 1. mgr. — 68. gr. A-liður — 100. gr. 3. mgr. — 121. gr. 3. mgr.   Lög nr. 45/1987 — 9. gr. 2. og 3. mgr. — 13. gr.   Reglugerð nr. 79/1988 — I. kafli  

Hjón — Sköttun hjóna — Skilnaður — Sköttun hjóna á skilnaðarári — Sköttun einstaklings — Hjúskaparslit — Skilnaður að borði og sæng — Hjónaskilnaður — Persónuafsláttur — Persónuafsláttur í staðgreiðslu — Millifærður persónuafsláttur frá maka — Persónuafsláttur, millifærður frá maka — Óráðstafaður persónuafsláttur maka — Framtalsháttur — Skattframtal í ósamræmi við kröfugerð — Kröfugerð kæranda — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Skattkort — Skattkort maka — Frávísun — Vanreifun — Frávísun vegna vanreifunar — Rökstuðningi kæru áfátt — Álagning — Álagning, almenn — Álagning að liðnu tekjuári

Málavextir eru þeir, að kærandi skildi að borði og sæng við eiginkonu sína, X, sbr. leyfisbréf til skilnaðar að borði og sæng, dags. 13. júní 1988. Hann taldi fram sem einstaklingur fyrir allt tekjuárið 1988, sbr. niðurlagsákvæði 1. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kærandi hafði nýtt sér hluta persónuafsláttar eiginkonu í staðgreiðslu árið 1988, þ.e. fyrstu 5 mánuði ársins alls 28.115 kr. Féll sá afsláttur niður við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989.

Í kæru til skattstjóra, dags. 8. ágúst 1989, krafðist kærandi þess, að hann nyti þessa persónuafsláttar maka. Með kæruúrskurði, dags. 7. nóvember 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum, að ekki væri uppfyllt það lagaskilyrði fyrir nýtingu persónuafsláttar maka, að talið væri fram sameiginlega fram að skilnaðardegi.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 4. desember 1989, og haldið fram kröfunni um nýtingu fyrrgreinds hluta persónuafsláttar fyrrverandi eiginkonu. Kærunni fylgdi m.a. ljósrit leyfisbréfs til skilnaðar að borði og sæng, dags. 13. júní 1988. Í kærunni er svofelldur rökstuðningur:

„1. Synjun á kæru byggir skattstjóri á því að sé ófrávíkjanlegt skilyrði að telja fram sameiginlega fram að skilnaðardegi. Ekki er boðið upp á að skila nýju skattframtali. Á framtalinu var þó sérstaklega getið um skilnaðinn, ásamt skiptingu eigna.

2. Ekki er ljóst af svari skattstjóra í hvaða lagagrein skattalaga er getið um áðurnefnt skilyrði.

3. Í svari skattstjóra er beinlínis tekið fram, að til þess að njóta persónuafsláttar maka hefði ég þurft að skila tveimur skattaframtölum. Sú spurning vaknar í mínum huga hversu margir framteljendur hafi skilað fleiri en einu framtali á þessu fyrsta gjaldaári staðgreiðslu.

4. Að lokum vil ég geta þess, að mér er um það kunnugt að ónýttur persónuafsláttur fyrrverandi eiginkonu hafi verið felldur niður við álagningu.“

Með bréfi, dags. 14. nóvember 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Samkvæmt 1. og 2. ml. 1. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skulu þeir skattaðilar, sem uppfylla skilyrði 63. gr. laganna um skattmeðferð sem hjón aðeins hluta úr ári, t.d. vegna hjúskaparslita, telja fram og skattleggjast sem hjón þann tíma en sem einstaklingar annan tíma ársins. Í lokamálslið 1. mgr. 64. gr. laganna er þeim hjónum, sem slíta hjúskap á árinu, heimilað að telja fram allar tekjur sínar á því ári hvoru í sínu lagi. Framtalsskilum kæranda gjaldárið 1989 er hagað í samræmi við þessa síðastnefndu heimild. Að svo vöxnu er eigi grundvöllur fyrir því að verða við kröfu kæranda. Rétt þykir að vísa kærunni frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja