Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 248/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 3. tl. — 31. gr. 1. tl.  

Sameignarfélag — Sjálfstæður skattaðili — Lögaðili — Lok skattskyldu — Lok skattskyldu sameignarfélags — Félagsslit — Rekstrarkostnaður — Kostnaður vegna félagsslita — Félagsslitakostnaður — Lögfræðikostnaður — Bókhaldskostnaður — Lögmannsaðstoð — Firmaskrá — Firmatilkynning — Tilkynning til firmaskrár — Skráningarkostnaður

Málavextir eru þeir, að kæranda, sem var sameignarfélag og sjálfstæður skattaðili, var slitið í mars 1988. Meðal gjalda á rekstrarreikningi fyrir tímabilið 1. janúar 1988 til 20. mars 1988 var kostnaður vegna félagsslita 27.638 kr. Gjaldalið þennan felldi skattstjóri niður með því að ekki væri um rekstrarkostnað að ræða samkvæmt 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. kæruúrskurð skattstjóra, dags. 10. nóvember 1989.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 29. nóvember 1989, og er þess krafist, að fyrrgreindur gjaldaliður verði að fullu tekinn til greina með svofelldum skýringum og röksemdum:

„Burtséð frá því hvort slíkur kostnaðarliður er frádráttarbær eða ekki er ljóst að þarna hefði betur farið að tilgreina þennan lið sem kostnað v/eigendaskipta. Félagið var sjálfstæður skattaðili þar til í mars 1988, en þá gekk annar eignaraðilinn út úr rekstrinum. Hinn aðilinn hélt síðan áfram rekstri firmans undir sama nafni.

Tilgreindur kostnaður samanstóð annarsvegar af lögfræðikostnaði kr. 7.638,00 sem var vegna tilkynningar um eigendaskipti í firmaskrá og formlegs samkomulags milli fyrri eigenda og hinsvegar var um bókhaldskostnað að ræða kr. 20.000,00 sem raunar varð að framkvæma hvort sem var, en var flýtt til að sjá stöðu eigenda við félagið.

Hvernig sem á málið er litið fáum við ekki betur séð en að þarna hafi verið um eðlilegan rekstrarkostnað að ræða og er þess krafist að niðurfelling skattstjóra á honum til frádráttar verði úrskurðuð ómerk.“

Með bréfi, dags. 14. nóvember 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Að virtum skýringum kæranda þykja eigi efni til annars en taka kröfu hans til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja