Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 274/1991
Gjaldár 1988
Lög nr. 75/1981 — 10. gr. — 15. gr. — 19. gr. — 100. gr. 5. mgr.
Bifreiðaviðskipti — Söluhagnaður — Lausafé — Söluhagnaður lausafjár — Söluhagnaður ófyrnanlegs lausafjár — Skattfrelsi — Skattfrelsi söluhagnaðar — Skattfrelsi söluhagnaðar lausafjár — Söluhagnaður, skattfrjáls — Bifreiðainnflutningur — Gróðaskyn — Sönnun — Sönnunarbyrði — Stofnverð — Söluverð — Sölulaun — Sölukostnaður — Beinn kostnaður við sölu eigna — Bílasala — Söluhagnaður, útreikningur — Útreikningur söluhagnaðar — Kröfugerð ríkisskattstjóra
Málavextir eru þeir, að skattframtali kæranda árið 1988 fylgdi yfirlit yfir kaup og sölu bifreiða og annarra ökutækja. Samkvæmt því yfirliti keypti kærandi sex ökutæki, þar á meðal jeppabifreið af gerðinni GMC Jimmy árg. 1986, er hann flutti inn. Kærandi seldi fjögur ökutæki samkvæmt yfirliti þessu. Ekki færði kærandi sér til tekna neinn skattskyldan söluhagnað vegna bifreiðaviðskipta þessara.
Með bréfi, dags. 12. desember 1989, boðaði skattstjóri kæranda tekjufærslu söluhagnaðar 113.604 kr. vegna bifreiðaviðskiptanna. Þessari ráðagerð mótmælti kærandi í bréfi, dags. 18. desember 1989, og hélt því fram, að bifreiðaviðskiptin hefðu hvorki verið gerð í atvinnu- né hagnaðarskyni. Gerði hann grein fyrir bifreiðaviðskiptunum. Kom fram í þessum skýringum hans, að hann hefði skipt um starf og farið að vinna hjá bifreiðaumboði og viljað aka bifreiðum þeirrar tegundar, er umboðið verslaði með. Því hefði hann keypt jeppabifreið af gerðinni Chevrolet Blazer árg. 1985 og selt tvær bifreiðar, er verið hefðu í eigu hans. Hann hefði ekki verið ánægður með bifreið þessa og því selt hana og keypt í staðinn fyrrnefnda innflutta bifreið af gerðinni GMC Jimmy árg. 1986. Þá kvaðst kærandi hafa orðið fyrir umtalsverðum kostnaði, þ.e. vegna sölulauna, vegna eigendaskipta, endurbóta á bifreiðunum svo og vegna skuldabréfa og víxla. Fyrir lægju kvittanir fyrir kostnaði að fjárhæð 39.406 kr.
Með bréfi, dags. 29. desember 1989, tilkynnti skattstjóri kæranda um endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárið 1988 vegna tekjufærslu nefnds söluhagnaðar 113.604 kr. Af hálfu kæranda var breytingu þessari mótmælt í kæru, dags. 28. janúar 1990, með vísan til skýringa og rökstuðnings í bréfi, dags. 18. desember 1989. Með kæruúrskurði, dags. 26. febrúar 1990, synjaði skattstjóri kærunni. Taldi skattstjóri söluhagnaðinn skattskyldan samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Tók skattstjóri fram, að kærandi hefði ekki gert líklegt, að söluhagnaðurinn félli undir undanþáguákvæði 2. mgr. nefndrar lagagreinar. Segir svo um þetta í úrskurðinum: „Með hliðsjón af starfi kæranda sem bílasali, umfangi viðskipta hans og innflutning á bifreið til sölu fellst skattstjóri ekki á að hagnaður af bifreiðaviðskiptum kæranda geti fallið undir framangreint undanþáguákvæði.“
Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 24. mars 1990, og þess krafist aðallega, að skattlagning söluhagnaðarins verði felld niður en til vara að fjárhæð hans lækki um 39.406 kr. vegna kostnaðar. Ítrekar kærandi áður framkomnar skýringar sínar á bifreiðaviðskiptunum. Mótmælir hann forsendum skattstjóra og að viðskiptin hafi verið stunduð í hagnaðarskyni. Þá gerir hann grein fyrir kostnaði, er hann telur sig hafa orðið fyrir.
Með bréfi, dags. 7. nóvember 1990, hefur ríkisskattstjóri fallist á kröfu kæranda með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum.
Samkvæmt framtalsgögnum kæranda árið 1987 seldi hann sex bifreiðar árið 1986 og keypti fjórar. Þá liggur fyrir í málsgögnum, að kærandi seldi fjórar bifreiðar árið 1988 og keypti jafnmargar. Að þessu virtu og málavöxtum að öðru leyti verður eigi talið, að kæranda hafi tekist að gera líklegt, að umrædd bifreiðaviðskipti tekjuárið 1987 hafi eigi verið gerð í hagnaðarskyni. Er aðalkröfu kæranda því synjað. Hins vegar þykir mega taka varakröfu hans til greina með 29.000 kr. skv. kvittunum um greidd sölulaun. Lækkar fjárhæð hagnaðarins því í 84.604 kr.