Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 279/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 1. gr. — 7. gr. C-liður 2. tl. 1. mgr. — 64. gr. 2. mgr. — 74. gr. 1. tl. — 96. gr. 1. og 3. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 4. ml.  

Skattskyldar tekjur — Skattskylda — Skattskylda einstaklings — Sköttun einstaklings — Hjón — Sköttun hjóna — Ótakmörkuð skattskylda — Framfærslufé — Framfærslufé frá maka — Framfærslueyrir — Áætlun — Áætlun skattstofna — Áætlun framfærslufjár — Sköttun hjóna, þegar annað ber ótakmarkaða skattskyldu en hitt ekki — Skattframtal, vefenging — Skattframtal, höfnun — Skattframtal, ófullnægjandi — Eignir, vantaldar — Vantaldar eignir — Fasteign — Vantaldar tekjur — Útleiga — Húsaleigutekjur — Útleiga íbúðarhúsnæðis — Skattskyld eign — Eign, skattskyld — Íbúðarhúsnæði — Sumarbústaður — Andmælareglan — Rökstuðningur — Rökstuðningur ákvarðana skattstjóra — Rökstuðningi áfátt — Málsmeðferð áfátt

Kæruefni máls þessa er sú ákvörðun skattstjóra að áætla kæranda framfærslufé 550.000 kr. samkvæmt 2. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Högum kæranda er svo háttað, að hún ber ótakmarkaða skattskyldu hér á landi, en eiginmaður hennar ekki. Hann er starfsmaður X og starfaði á Y 1. janúar til 15. ágúst 1988, er hann ásamt kæranda fluttist úr landi.

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 28. nóvember 1989, krefst umboðsmaður kæranda þess aðallega, að skattlagning framfærslufjárins verði felld niður með öllu, en til vara að fjárhæð þess verði lækkuð í 141.819 kr. Í kærunni segir svo:

„Umbjóðandi okkar er íslenskur ríkisborgari og gift bandaríkjamanni sem vinnur hjá X sem Ísland er aðili að. Þar með á hún að njóta allra skattalegra réttinda. Hjón hafa gagnkvæma framfærsluskyldu og það sem hún „nýtur“ af sameiginlegri framfærslu er ekki unnt að fella undir tekjuöflun í skattalegum skilningi.

Með tilk. skattstjóra dags. 6. júlí sl. áætlaði skattstjóri umbjóðanda okkar tekjur að fjárhæð kr. 800.000 vegna ófullkomins og tortryggilegs framtals. Að fengnu nýju skattframtali úrskurðar skattstjóri þ. 30. okt. sl. og þar kemur fyrst fram áætlun á „framfærslufé frá maka“ skv. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981 kr. 550.000. Ekki kemur fram hvernig það mat er hugsað. Í framtalinu kom fram að umbjóðandi okkar var hér á landinu 7 1/2 mánuð þannig að framfærslueyrir (fyrir utan húsaleigutekjur) er að mati skattstjóra kr. 73.333 á mánuði sem mörgum þætti dágóð mánaðarlaun.

Með öðrum orðum:

- Umbjóðanda okkar gafst ekki kostur á að tjá sig um þetta atriði við skattstjóra.

- Úrskurður skattstjóra varðandi þetta atriði er ekki rökstuddur.

- Áætlun/mat skattstjóra á framfærslufé er langt umfram það sem eðlilegt getur talist og af þeirri ástæðu einni ber að ógilda úrskurð skattstjóra.

- Draga verður í efa að maki umbjóðanda okkar sem er erlendur ríkisborgari falli undir 2. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981 og ef hann gerir það ekki er ekki heimilt að áætla umbjóðanda okkar framfærslufé.

Ef ríkisskattanefnd fellst ekki á að ógilda úrskurð skattstjóra af framangreindum ástæðum sem er aðalkrafa, er krafist eins og áður greinir að áætlað framfærslufé verði lækkað í kr. 141.819. Er þá miðað við þann framfærslueyri sem einstæðri konu í eigin húsnæði ætti að vera fullnægjandi þ.e. 7 1/2 /12 af ellilaunum með tekjutryggingu og síðan eru leigutekjur dregnar frá þeirri fjárhæð til að finna út hversu mikið af sameiginlegri framfærslu þeirra hjóna tilheyrði henni, því skv. áður nefndri 64. gr. er þó aðeins heimilt að áætla sanngjarnt og hæfilegt framfærslufé.“

Með bréfi, dags. 7. nóvember 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið, sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Af hálfu kæranda var skilað skattframtali árið 1989 innan framtalsfrests það ár. Með bréfi, dags. 21. apríl 1989, krafði skattstjóri kæranda um upplýsingar um framfærslufé frá maka með tilliti til skattlagningar skv. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kærandi svaraði með bréfi, dags. 6. júní 1989, og gerði grein fyrir högum sínum, framfærslu og framfærslufé. Í framhaldi af bréfaskiptum þessum hafnaði skattstjóri skattframtali kæranda árið 1989 og áætlaði skattstofna. Ódagsett afrit bréfs skattstjóra um höfnun þessa liggur fyrir í málinu. Byggði skattstjóri höfnun sína á því, að kærandi hefði ekki gert rökstudda grein fyrir framfærslu sinni á árinu 1988 og framfærslufé frá maka jafnframt því, að ekki hefði verið gerð grein fyrir leigutekjum af íbúð og sumarbústaður væri ekki fram talinn. Að framkominni kæru og nýju framtali árið 1989 féllst skattstjóri á að byggja skattlagningu á framtalinu að viðbættu fyrrnefndu framfærslufé 550.000 kr., sbr. kæruúrskurð, dags. 30. október 1989. Kærandi gerði grein fyrir umspurðum atriðum í bréfi sínu, dags. 6. júní 1989, og kom af hennar hálfu ekkert það fram síðar, er meginmáli skipti í þessum efnum. Skattstjóri hafnaði framtalinu m.a. vegna atriða, er ekkert var vikið að í bréfi hans, dags. 21. apríl 1989. Þegar hann síðan féllst á að leggja nýtt og endurgert framtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1989, sbr. kæruúrskurð, dags. 30. október 1989, fengu framkomnar skýringar kæranda á framfærslufé og fjárhæð þess enga úrlausn af hans hendi. Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, þykir málsmeðferð skattstjóra hafa verið þeim annmörkum haldin að rétt þykir að byggja skattlagningu á skattframtali kæranda, innsendu í kærufresti, án nokkurrar áætlunar margnefnds framfærslufjár. Samkvæmt þessu nær aðalkrafa kæranda fram að ganga.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja