Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Fæðiskostnaður
  • Álag

Úrskurður nr. 607/1997

Gjaldár 1993 og 1994

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr., 97. gr. 2. mgr., 106. gr. 2. mgr.  

Deilt um gjaldfærslu fæðiskostnaðar sjálfstætt starfandi manns vegna þriggja utanlandsferða, sem farnar voru í því skyni að afla efnis vegna bókaskrifa og gerðar sjónvarpsmyndar. Yfirskattanefnd tók fram að almennt yrði að telja eigin fæðiskostnað vera persónulegan kostnað hvers manns. Ekki væri þó alveg sjálfgefið að eigin fæðiskostnaður sjálfstætt starfandi manna gæti aldrei fallið undir það að teljast frádráttarbær rekstrarkostnaður. Að því er varðaði eigin fæðiskostnað í ferðalögum vegna eigin atvinnurekstrar leiddu samræmis- og jafnræðisrök til þess að slíkur kostnaður heimilaðist aðeins vegna tiltölulegra stuttra og tilfallandi ferða. Uppihaldskostnaður vegna samfelldrar dvalar þætti því ekki geta komið til greina sem frádráttarbær rekstrarkostnaður. Fallist var á að uppihaldskostnaður kæranda vegna tveggja ferða félli undir frádráttarbæran ferðakostnað, en gjaldfærslu kostnaðar vegna þeirrar þriðju var synjað.

I.

Með kæru, dags. 14. september 1995, hefur umboðsmaður kæranda kært endurákvörðun skattstjóra á opinberum gjöldum kæranda gjaldárin 1993 og 1994, sbr. tilkynningu um endurákvörðun, dags. 27. júní 1995, og kæruúrskurð, dags. 15. ágúst 1995. Breytingar skattstjóra voru þær að hann féllst ekki á frádráttarbærni kostnaðar samkvæmt rekstrarreikningum kæranda að fjárhæð 170.150 kr. fyrra gjaldárið og 40.000 kr. seinna gjaldárið, á þeim forsendum að um væri að ræða fæðiskostnað kæranda sjálfs og slíkur kostnaður væri ekki frádráttarbær rekstrarkostnaður. Jafnframt hækkaði skattstjóri rekstrartekjur kæranda um 70.000 kr. gjaldárið 1993, og er ekki ágreiningur um þá breytingu. Skattstjóri bætti 25% álagi við þá hækkun gjaldstofna sem leiddi af breytingum hans.

Í kæru til yfirskattanefndar, sbr. nánari rökstuðning í bréfi, dags. 27. nóvember 1995, er því mótmælt að form rekstrar geti ráðið því hvort tiltekin útgjöld teljist frádráttarbær kostnaður eða ekki. Jafnframt kemur fram að sé það ekki tíðkað að telja almennum launþegum eða eigendum hlutafélaga til tekna þann hluta dagpeninga, vegna ferða á vegum vinnuveitenda, sem gangi til fæðiskaupa, þá sé það brot á almennri jafnræðisreglu að telja sjálfstætt starfandi manni þá greiðslu til tekna. Svo sé einnig ef einkafyrirtæki sé ekki heimilaður sami frádráttur kostnaðar og öðrum fyrirtækjum. Það liggi fyrir í málinu að heildarútgjöld kæranda vegna ferðakostnaðar séu lægri en verið hefði ef ferðirnar hefðu verið farnar á vegum lögaðila og greiðslur ákvarðaðar eftir reglum um dagpeninga. Þess sé því krafist að ferðakostnaður kæranda verði látinn standa óbreyttur. …

Með bréfi, dags. 15. mars 1996, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda gert þá kröfu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans. …

II.

1. …

2. Óumdeilt er í máli þessu að þau útgjöld sem skattstjóri féllst ekki á að teldust til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, voru vegna fæðiskostnaðar kæranda. Er um að ræða útgjöld í tengslum við ferð til A vorið 1992 og til B haustið það sama ár, og til C á árinu 1993. Fram hefur komið að kærandi dvaldist í 30 daga í A vorið 1992 í efnisöflun vegna bókaskrifa, en síðar á því ári hafi verið hætt við það verkefni og í B í 97 daga haustið 1992 í sama tilgangi. Sú bók hafi komið út á árinu 1993. Á árinu 1993 er um að ræða 49 daga ferð til C vegna gerðar sjónvarpsmyndar. Heildarútgjöld vegna heimildaöflunar námu samkvæmt ársreikningum kæranda 1.490.318 kr. á árunum 1992 og 1993, en þar af voru færð til frádráttar á rekstrarreikningi 581.955 kr. fyrra árið og 528.363 kr. seinna árið auk þess sem 380.000 kr. voru færðar til gjalda á árinu 1994. Skattstjóri hefur ekki gert athugasemdir við framtalsmáta kæranda og útgjöld þessi að öðru leyti en vegna fæðiskostnaðar kæranda, og er þannig ekki ágreiningur um að lagt hafi verið í útgjöldin vegna atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi. Ekki er heldur ágreiningur um fjárhæðir í þessu sambandi, en gögn þau sem skattstjóri byggði ákvörðun sína á liggja ekki fyrir í málinu.

Um rekstrarkostnað til frádráttar tekjum í atvinnurekstri fer eftir ákvæðum 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Þar kemur fram hin almenna regla um hvað teljist til rekstrarkostnaðar, þ.e. útgjöld sem ganga til öflunar á rekstrartekjum, tryggingu þeirra og viðhaldi. Af þessu ákvæði leiðir að persónuleg útgjöld heimilast ekki til frádráttar. Almennt verður að telja eigin fæðiskostnað vera persónulegan kostnað hvers manns. Getur sá kostnaður því ekki fallið undir frádráttarheimildina í 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Um þetta má vísa til skattframkvæmdar sem nokkuð hefur verið reifuð í máli þessu. Að því er varðar gjaldfærslu greiddra dagpeninga til launþega, sem m.a. fela í sér fæðiskostnað, verður að hafa í huga, við samanburð við gjaldfærslu eigin fæðiskostnaðar atvinnurekenda, að almennt leiða dagpeningagreiðslur af kjarasamningum. Þrátt fyrir framanritað er ekki alveg sjálfgefið að eigin fæðiskostnaður sjálfstætt starfandi manna geti aldrei fallið undir það að teljast frádráttarbær rekstrarkostnaður. Hefur verið litið svo á í skattframkvæmd að slíkur kostnaður geti í vissum tilvikum og innan ákveðina marka verið frádráttarbær eftir nefndu lagaákvæði, m.a. þegar hann fellur til sem hluti af frádráttarbærum risnukostnaði og ferðakostnaði, enda teljist vera um nauðsynlegan kostnaðarlið að ræða og umfram það sem almennt verður að teljast og venjulegt. Að því er varðar eigin fæðiskostnað í ferðalögum vegna eigin atvinnurekstrar leiða samræmis- og jafnræðisrök til þess að slíkur kostnaður heimilist aðeins vegna tiltölulegra stuttra og tilfallandi ferða. Uppihaldskostnaður vegna samfelldrar dvalar þykir því ekki geta komið til greina sem frádráttarbær rekstrarkostnaður.

Í því tilviki sem hér er til úrlausnar hefur kærandi eins og fram hefur komið fært til frádráttar dvalarkostnað vegna ferða til heimildaöflunar. Ekki hefur komið skýrt fram hvernig dvöl kæranda í A og á C var háttað, en ráðið verður af skýringum kæranda að um hafi verið að ræða lengri eða styttri ferðalög í þessum löndum, en ekki samfellda dvöl á sama stað allt tímabilið. Að þessu virtu og atvikum að öðru leyti, m.a. með tilliti til fjárhæða sem hér er um að tefla, þykir mega fallast á að uppihaldskostnaður kæranda vegna ferða í A árið 1992 og á C árið 1993 falli undir frádráttarbæran ferðakostnað og er fallist á kröfu kæranda að þessu leyti. Að því er varðar fæðiskostnað kæranda vegna dvalar í B þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á að um frádráttarbæran ferðakostnað sé að ræða og er hér m.a. litið til þess að ekki verður annað ráðið en að um samfellda dvöl í sömu borg sé að ræða. Því er kröfu kæranda hafnað að því er það kæruatriði varðar.

3. Eftir atvikum þykir mega falla frá beitingu álags á hækkun skattstofna vegna lækkunar rekstrarkostnaðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja