Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 281/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl. — 69. gr. C-liður Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða I. og II.
Húsnæðisbætur — Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Íbúðareign — Fyrsta íbúðarhúsnæði — Vaxtagjöld — Vaxtafrádráttur — Vaxtaafsláttur — Hagstæðasta skattmeðferð — Skattmeðferð, hagstæðasta — Kæruheimild — Kæranleg skattákvörðun — Sjónarmið, sem stjórnvaldsákvörðun er byggð á — Afturköllun — Afturköllun skattaðila — Rökstuðningur — Rökstuðningur ákvarðana skattstjóra — Rökstuðningi áfátt — Málsmeðferð áfátt — Forsendur ákvörðunar skattstjóra — Rangar forsendur skattstjóra
Málavextir eru þeir, að kærendum voru ákvarðaðar húsnæðisbætur frá og með gjaldárinu 1988 samkvæmt umsóknum þar um, dags. 30. mars 1988, sbr. bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 49/1987 eins og því ákvæði var breytt með 14. gr. laga nr. 92/1987. Úrskurðir skattstjóra um húsnæðisbætur til handa kærendum eru dagsettir 24. janúar 1989. Í málinu liggur fyrir ljósrit af bréfi kæranda, A, dags. 31. mars 1988, til skattstjóra, þar sem hann dregur umsókn sína um húsnæðisbætur til baka og fer fram á að njóta vaxtaafsláttar í staðinn. Ekki verður séð, að bréf þetta hafi fengið úrlausn af hendi skattstjóra.
Skattframtal kærenda árið 1989 barst í kærufresti til skattstjóra, sbr. kæru, dags. 29. ágúst 1989. Í framhaldi af kærunni sendi umboðsmaður kærenda skattstjóra bréf, dags. 10. október 1989, þar sem þess var m.a. farið á leit, að húsnæðisbætur yrðu felldar niður og vaxtaafsláttur ákveðinn í staðinn, eins og kærendur ættu rétt á. Þessari málaleitan synjaði skattstjóri í kæruúrskurði, dags. 30. október 1989, með svofelldum rökum:
„Með lögum nr. 49/1987, sbr. lög nr. 92/1987 sem breyttu lögum um tekju- og eignarskatt nr. 75/1981, var vaxtafrádráttur felldur niður og teknar upp greiðslur húsnæðisbóta. Með bráðabirgðaákvæði sömu laga var gert ráð fyrir greiðslu vaxtaafsláttar um takmarkaðan tíma. Telja verður það meginreglu fyrrnefndra laga að þeir aðilar, sem eiga rétt á húsnæðisbótum og um þær sækja, skuli fá þær, en að vaxtaafsláttur greiðist í öðrum tilfellum.
Kærandi sótti um húsnæðisbætur með umsókn, sem dagsett er 30.03.1988. Telja verður umsókn þessa bindandi fyrir hann og hafa honum verið ákvarðaðar húsnæðisbætur frá og með árinu 1988.“
Af hálfu kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 27. nóvember 1989. Krefjast kærendur vaxtaafsláttar í stað húsnæðisbóta. Segir svo í kærunni:
„Þegar umsókn um húsnæðisbætur var lögð fram, var það gert í þeirri fullvissu að með því myndum við ekki afsala okkur rétti á að velja vaxtaafslátt ef það reyndist okkur hagstæðara í framtíðinni. Þessa fullvissu byggðum við á upplýsingum frá aðilum sem unnu að undirbúningi skattkerfisbreytinganna 1987. Til frekari staðfestu leituðum við til embættis ríkisskattstjóra og fengum staðfest þar að hægt yrði að velja þann kostinn sem okkur væri hagstæðari þegar það lægi fyrir.
Þar sem við fluttumst til landsins árið 1987 og byggðum okkar fyrsta húsnæði höfðum við ekki möguleika á að nýta D og E frádrátt. Þar sem við höfðum ekki möguleika á því að nýta þennan frádrátt vegna búsetu erlendis teljum við ekki fært að synja okkur á þeim forsendum að vaxtaafsláttur hafi ekki verið nýttur.“
Með bréfi, dags. 14. nóvember 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Vegna forsendna skattstjóra þykir rétt að taka fram, að með bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 49/1987, sbr. 14. gr. laga nr. 92/1987, var þeim er keyptu eða hófu byggingu íbúðarhúsnæðis í fyrsta sinn á árunum 1984–1987 og uppfylltu a.ö.l. skilyrði C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981 gefinn kostur á að ganga inn í húsnæðisbótakerfið í stað vaxtaafsláttar. Kærendur, sem sóttu um og fengu ákvarðaðar húsnæðisbætur á grundvelli þessara ákvæða, hafa óskað eftir því að hverfa frá umsóknum sínum og njóta vaxtaafsláttar í staðinn. Engin ákvæði laga girða fyrir að þessi ósk þeirra nái fram að ganga. Að því virtu og þar sem skattstjóri þykir eigi hafa fært fram nein viðhlítandi rök fyrir synjun sinni, þykja eigi efni til annars en taka kröfu kærenda til greina. Rétt þykir eins og málið liggur fyrir að ákvarða kærendum vaxtaafslátt, í stað húsnæðisbóta bæði árin, þ.e. 1988 og 1989.