Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 282/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 73/1980 — 35. gr. 2. mgr. Lög nr. 75/1981 — 5. gr. — 7. gr. B-liður — 63. gr. 1. mgr. 3. tl. — 91. gr. 1. mgr. — 95. gr. 1. mgr. 3. ml. — 100. gr. 3. mgr.
Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsstofn — Aðstöðugjaldsgreinargerð — Heildartekjur við ákvörðun aðstöðugjaldsstofns — Hjón — Sköttun hjóna — Sjálfstæður skattaðili — Atvinnurekstrartekjur — Atvinnurekstur — Sjálfstæð starfsemi — Rekstraraðili — Rekstrartap — Rekstrartap, frádráttarbærni — Rekstrartap, meðferð hjá hjónum — Rekstrarleyfi — Sérþekking á rekstri — Samrekstur — Samrekstur hjóna — Ársreikningur — Fylgigögn skattframtals — Breytingarheimild skattstjóra — Leiðrétting — Leiðrétting ríkisskattanefndar — Kröfugerð kæranda
I.
Málavextir eru þeir, að skattframtal 1989, sem er ódags, barst skattstjóra í framtalsfresti. Meðfylgjandi skattframtali voru reikningsskil 1988 á nafni eiginmanns, sem voru fólgin í tveimur ársreikningum. Annar ársreikningurinn var vegna starfsemi eiginmanns við dagskrárgerð o.fl. og var rekstrarniðurstaða hans hreinar tekjur 1.411.348 kr. Hinn ársreikningurinn var vegna verslunar og var rekstrarniðurstaða hans tap 2.394.172 kr. Á samræmingarblaði var samandregin rekstrarniðurstaða rekstrarársins 1988 gjöld umfram tekjur 982.824 kr. Í framtalsgerð 1988 var enginn rekstur talinn fram á vegum eiginmanns en ársreikningur verslunar var á nafni eiginkonu. Í framtalsgerð 1989 voru engar skýringar gefnar á breyttri rekstraraðild þeirra hjóna að rekstri verslunar.
Með bréfi, dags. 27. júlí 1989, tilkynnti skattstjóri með stoð í 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að hagnaður af rekstri vegna dagskrárgerðar 1.411.348 kr. hefði verið færður eiginmanni til tekna á grundvelli ákvæða 1. mgr. 3. tl. 63. gr. nefndra laga, þar sem kveðið væri á um, að hreinar tekjur af atvinnurekstri skuli telja til tekna hjá því hjóna, sem standi fyrir rekstrinum. Tók skattstjóri fram, að eiginkona væri rekstraraðili verslunar og væri „eiginmanni óheimilt að færa tap af atvinnurekstri eiginkonu á móti eigin rekstrartapi (sic),“ og vísaði í því sambandi til ákvæða 2. mgr. 3. tl. tilvitnaðrar lagagreinar, þar sem kveðið væri á um, að hreinar tekjur af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi skuli telja til tekna hjá því hjóna, sem sérþekkingu eða leyfi hafi, þegar reksturinn væri háður persónubundnum rekstrarleyfum. Í bréfinu greindi, að álagning 1989 yrði í samræmi við tilkynntar breytingar.
Það gerðist við álagningu aðstöðugjalds á eiginkonu vegna gerðrar breytingar, að lagt var á aðstöðugjaldsskyldan rekstrarkostnað sem stofn, sem var 7.724.174 kr. eða 2.293.760 kr. umfram heildartekjur 5.430.414 kr., sem er stofn sem aðstöðugjaldsálagningu bar að takmarka við, sbr. ákvæði 1. og 2. mgr. 35. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, með áorðnum breytingum. Fyrir lágu sérstakar aðstöðugjaldsgreinargerðir vegna hvors rekstrarþáttar og báðar á nafni eiginmanns, en í samræmi við gerða breytingu var aðstöðugjaldsgreinargerð verslunar skráð á eiginkonu. Samkvæmt aðstöðugjaldsgreinargerð vegna dagskrárgerðar námu heildartekjur 3.510.000 kr. og aðstöðugjaldsskyldur rekstrarkostnaður 784.057 kr. og samtals vegna beggja rekstrarþátta námu heildartekjur 8.940.414 kr. eða 432.183 kr. umfram aðstöðugjaldsskyldan rekstrarkostnað 8.508.231 kr.
II.
Með kæru, dags. 17. ágúst 1989, kærði umboðsmaður kæranda til skattstjóra gerða breytingu. Greindi svo frá í kæru, að ástæða þess, að tap á rekstri verslunar var fært til frádráttar öðrum tekjum, væri sú, að eiginmaður hafi alfarið séð um rekstur verslunarinnar á árinu 1988. Um það hafi verið að ræða, að eiginkona hans hafi átt við veikindi að stríða vegna barneignar o.fl. Eiginmaður hafi því borið allan þunga af rekstri verslunarinnar bæði fjárhagslega svo og rekstrarlega og því hafi verið álitið réttlætanlegt að telja fram eins og gert sé í skattframtali 1989.
Með kæruúrskurði, dags. 3. október 1989, synjaði skattstjóri kröfu um, að tap af rekstri verslunar dragist frá hagnaði af dagskrárgerð, og vísaði til fyrra bréfs síns, dags. 27. júlí 1989.
III.
Með kæru, dags. 2. nóvember 1989, hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar af hálfu kærenda. Í kæru er fyrri rökstuðningur ítrekaður og jafnframt lagt fram bréf kærenda, dags. 11. október 1989, til umboðsmanns í tilefni af kæruúrskurði skattstjóra, þar sem greinir svo frá:
„Ekki virðist sem nokkur skilningur sé á athugasemdnum mínum varðandi eigin starfsemi í fjölskyldufyrirtæki okkar „X“, í fjarveru eiginkonu á síðasta ári. Hér finnst mér að gæti ósanngirni í hæsta máta og vil ég að þú haldir málinu við fyrir mig og vísir áfram til ríkisskattanefndar.
Á það er bent að þar sem eiginkona sé skráður „rekstraraðili“ verslunar geti minn hlutur í þeim sama rekstri ekki talist gildur. Ég vil ítreka að í fjarveru eiginkonu, sem þá var barnshafandi og átti við veikindi að stríða kom rekstur verslunarinnar í minn hlut. Á vægast sagt erfiðum tímum tók ég reksturinn að mestu að mér og þykir mér mikil ósanngirni að ekki skuli tekið tillit til þess.
Hingað til hef ég greitt öll þau opinber gjöld sem mér hefur borið að greiða og alltaf staðið í skilum, en nú finnst mér að ranglæti sé við haft.“
IV.
Með bréfi, dags. 31. október 1990, gerir ríkisskattstjóri þá kröfu í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
V.
Úrskurður skattstjóra um hina kærðu breytingu er staðfestur með vísan til forsendna hans. Rétt þykir þó að leiðrétta augljós mistök skattstjóra við ákvörðun aðstöðugjaldsstofns verslunar til lækkunar vegna álagðs aðstöðugjalds á kæranda, eiginkonu.