Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 285/1991
Gjaldár 1987
Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 32. gr. — 38. gr. 4. tl. Auglýsing um skattmat ríkisskattstjóra tekjuárið 1986, liður 3.1.0.
Fyrning — Fyrnanleg eign — Lausafé — Fyrnanlegt lausafé — Ófyrnanlegt lausafé — Fyrning, almenn — Almenn fyrning — Bifreið — Einkabifreið — Einkanot — Einkanot bifreiðar — Rekstrarkostnaður — Bifreiðakostnaður — RIS 1981.298 — Fordæmisgildi stjórnvaldsákvörðunar — Föst afskrift — Afskrift, föst — Dýralæknir — Héraðsdýralæknir — Atvinnurekstur — Sjálfstæð starfsemi — Rekstrarform
Málavextir eru þeir, að kærandi, sem er starfandi héraðsdýralæknir, færði bifreið af gerðinni Toyota sem fyrnanlega eign í ársreikningi vegna starfsemi sinnar árið 1986 og fyrndi almennri fyrningu. Skattstjóri felldi bifreiðina niður úr ársreikningi og færði til eignar í persónuframtali við kaupverði. Jafnframt felldi hann niður gjaldfærða almenna fyrningu 99.438 kr. en heimilaði í staðinn fasta árlega afskrift skv. mati ríkisskattstjóra 50.003 kr. Taldi skattstjóri, að um væri að ræða einkabifreið, þótt hún væri að hluta til notuð við atvinnurekstur kæranda. Þá vísaði skattstjóri til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 298/1981 varðandi sambærilegt álitaefni.
Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra, dags. 31. október 1989, verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 29. nóvember 1989, og þess krafist, að breytingum skattstjóra varðandi skattalega meðferð bifreiðarinnar verði hrundið. Rökfærsla umboðsmannsins er svohljóðandi:
„Kærandi er starfandi héraðsdýralæknir og með sjálfstæðan atvinnurekstur. Er honum óhjákvæmilegt að hafa bifreið til umráða við slíkan rekstur. Hann telur að í tilvitnuðum úrskurði nr. 298/1981 sé fjallað um það ólíka atvinnustarfsemi að sá úrskurður hafi ekki fordæmisgildi í þessum máli, en í niðurlagi úrskurðarins segir m.a. „Þegar litið er til atvinnurekstrar kæranda og þarfar slíks rekstrar almennt fyrir slíka bifreið er hér um ræðir, verður að ætla að bifreiðin sé að verulegu leyti notuð til einkaþarfa kæranda“
Bifreið umbjóðanda okkar er fyrst og fremst notuð í þágu atvinnurekstrarins og eru einkaafnot óveruleg m.a. vegna viðveruskyldu dýralækna, en kærandi hefur metið einkaafnot sín í framtali 1987 kr. 60.800.- og hefur skattstjóri ekkert haft við það mat að athuga.
Á árinu 1986 hafði kærandi tekjur af umræddri bifreið sem námu samkvæmt rekstrarreikningi kr. 180.636,-. Umbjóðandi okkar heldur því fram að rekstur bifreiðarinnar sé að mörgu leyti ekkert óskyldur rekstri leigubifreiða þ.e. að hér sé um tekjuaflandi atvinnutæki að ræða og því sé heimilt, samkvæmt 1. tl. 31. gr. l. 75/1981, að færa til gjalda allan þann rekstrarkostnað, þar með taldar reiknaðar afskriftir, sem til fellur til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við. Þá telur umbjóðandi okkar einnig að lagaheimild skorti fyrir því að gera greinarmun á meðferð atvinnutækja eftir rekstrarformum atvinnurekstrarins hvað varðar heimild til fyrninga, heldur hljóti eðli máls að ráða þar um.“
Með bréfi, dags. 21. maí 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Úrskurð skattstjóra þykir bera að staðfesta með vísan til forsendna hans.