Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 286/1991

Gjaldár 1987

Lög nr. 51/1968   Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 3. tl. — 91. gr. 1. mgr. — 96. gr. 1. og 4. mgr. — 106. gr. 2. mgr.  

Sameignarfélag — Lögaðili — Sjálfstæður skattaðili — Félagsslit — Lok skattskyldu — Lok skattskyldu sameignarfélags — Skattskylda — Skattskylda sameignarfélags — Sjálfstæð skattskylda sameignarfélags — Einstaklingsfyrirtæki — Breyting rekstrarforms — Yfirfærsla skattaréttarlegra skyldna og réttinda — Bókhald — Sameining sameignarfélags og einstaklingsfyrirtækis — Skattframtal, vefenging — Skattframtal, höfnun — Skattframtal, tortryggilegt — Skattframtal, ófullnægjandi — Áætlun — Áætlun skattstofna — Álag — Álag á áætlaða skattstofna — Endurákvörðun — Endurákvörðun skattstjóra — Endurákvörðunarheimild skattstjóra — Ársreikningur — Fylgigögn skattframtals

I.

Eftir gögnum málsins eru málavextir þeir að kærandi taldi fram til skatts fyrir álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1987 og var skattframtal hans lagt óbreytt til grundvallar álagningunni. Með bréfi, dags. 8. desember 1987, fór skattstjóri fram á við kæranda, að hann léti í té skýringar og gögn varðandi nokkra liði í framtali hans. Svarbréf, dags. 16. janúar 1988, barst frá umboðsmanni kæranda og var þar farið fram á við skattstjóra, að hann beindi því til kæranda, hvaða fylgiskjöl óskað væri eftir, að fram yrðu lögð. Jafnframt sendi umboðsmaður kæranda sem svar við fyrirspurn skattstjóra „lista yfir safnhreyfingar“. Með bréfi, dags. 14. mars 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda, að hann hefði gert nokkrar þargreindar breytingar á skattframtali hans 1987 með því að sér hefðu ekki borist umkrafin gögn og skýringar við bréfinu frá 8. desember 1987. Að ósk kæranda veitti skattstjóri kæranda svarfrest til 20. apríl 1988 til að svara síðastgreindu bréfunum. Með bréfi, dags. 16. september 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda um endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 1987 á grundvelli áðurnefndra bréfa, en honum virðast engin frekari svör hafa borist við þeim eftir 20. apríl 1988. Endurákvörðunin var kærð til skattstjóra með kæru, dags. 22. september 1988, og framlagning gagna boðuð innan tilskilins frests sem skattstjóri samþykkti með bréfi, dags. 18. október 1988. Þann 4. janúar 1989 móttók skattstjóri nýtt skattframtal kæranda árið 1987 ásamt nýjum ársreikningi ársins 1986 og fleiri fylgiskjölum framtals. Í framhaldi af því kvað skattstjóri upp kæruúrskurð, dags. 24. febrúar 1989, og áætlaði kæranda nýja gjaldstofna til tekjuskatts, útsvars og aðstöðugjalds með svofelldum rökstuðningi:

„Borist hafa tveir ársreikningar vegna rekstrar yðar á árinu 1986. Seinni ársreikningurinn ásamt nýju framtali er mótt. hér eftir að gerð var endurákvörðun álagningar út frá bréfi skattstofu. Ekkert samræmi er í reikningum þessum.

Rekstrartekjur skv. fyrri ársreikningi eru kr. 6.474.372.- en í þeim síðari eru tekjur kr. 8.010.125.- í fyrra tilviki eru tekjur 80.83% af tekjum í því síðara.

Skv. fyrri ársreikningi er rekstrarkostnaður kr. 6.125.729.- en í síðara kr. 8.621.430.- Í fyrra tilvikinu eru rekstrargjöld 70.05% af því síðara. Með vísan til ofanritaðs verður ekki séð að ársreikningar yðar séu byggðir á bókhaldi sem fært er skv. bókhaldslögum nr. 51/1968, sbr. lög nr. 47/1978 og ber því að hafna framtalsskilum yðar og áætla yður skattstofna.

Álag er reiknað 25% skv. 106. gr. ofangr. laga.

Tekjuskattsstofn verður kr. 1.125.000.- og útsvarsstofn kr. 1.125.000.- Aðstöðugjaldsstofn verður kr. 7.500.000.-.“

II.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 16. mars 1989. Er kröfugerð hans svohljóðandi:

„Hér með er framangreindum úrskurði mótmælt harðlega. Mótmælin byggjast á eftirfarandi:

Í fyrri hluta úrskurðarins sem er nokkurs konar vörn fyrir hinum raunverulega úrskurði sem er að hafna framtalsskilum er ekki tilgreind nein ástæða önnur en sú að ekki sé samræmi í framlögðum gögnum.

Ný gögn eru ekki lögð fram nema því aðeins að þau séu réttari en þau sem áður höfðu verið lögð fram og enn gilda hin fornu sannindi að hafa skuli það sem sannara reynist.

En af hverju er verið að senda inn ný gögn? Ástæður þessa eru þær að lokavinna um áramót var af verulegum vanefnum en til þess hafði umbjóðandi minn fengið mann sem gaf sig út fyrir að hafa þekkingu á þessu sviði auk þess að hafa starfað um tíma á skattstofu í einu umdæma landsins sem styrkti hann í þeirri trú að vel yrði að verki staðið.

Þegar þessu framtali var hafnað af skattstofu umdæmisins og átti að fara að bæta úr kom í ljós að úrvinnslugögnin önnur en fylgiskjölin höfðu brunnið í eldsvoða hjá áðurnefndum aðila. Það varð því að ráði að vinna bókhaldið á nýjan leik og kom þá í ljós að afstemmingar höfðu ekki verið unnar sem skildi þannig voru tekjur vanbókaðar sem og gjöld sem kom að stærstum hluta til út af því að útistandandi tekjur um áramót höfðu ekki verið færðar og sama gilti um ógreidda reikninga.

Þess er vænst að framangreint verði til þess að framtalið verði tekið gilt. Að lokum skal minnt á bréf frá því í byrjun janúar 1989 (11.01. 1989) þar sem tilgreind eru nokkur atriði sem óskað var lagfæringar á áður en endanleg afgreiðsla embættisins á framtalinu færi fram.“

III.

Með bréfi, dags. 24. september 1990, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

IV.

Í máli þessu eru fyrirliggjandi gögn annars vegar ársreikningur kæranda er fylgdi upphaflegu framtali hans 1987 ásamt samræmingarblaði, er sýnir niðurstöðu rekstrar- og eiginfjárstöðu X sf. er kærandi hafði áður átt í félagi með öðrum manni en yfirtók að öllu leyti á árinu 1986, og hins vegar ársreikningur, er fylgdi síðara framtali hans. Er umtalsverður talnamunur á ársreikningum þessum og hefur hann ekki verið skýrður af hálfu kæranda. Þá virðist kærandi hafa sameinað í einum ársreikningi og skattskilum rekstur sinn og X sf., sem var sjálfstæður skattaðili, en sú sameining er óheimil.

Með þessum athugasemdum er úrskurður skattstjóra staðfestur, enda þykja áætlanir hans eigi um skör fram.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja