Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 290/1991
Gjaldár 1988 og 1989
Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. B-liður 4. tl. og E-liður 1. tl. — 103. gr. Lög nr. 9/1984 — 1. gr. — 2. gr. — 10. gr. — 11. gr. Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða I.
Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Vaxtafrádráttur — Vaxtaafsláttur — Greinargerð um vaxtagjöld — Fasteignaveðlán — Langtímalán vegna öflunar íbúðarhúsnæðis — Skammtímalán vegna öflunar íbúðarhúsnæðis — Endurbætur — Endurbætur íbúðarhúsnæðis — Sönnun — Fyrri skattframkvæmd — Rökstuðningur — Rökstuðningur kæru — Fjárfestingarfrádráttur — Fjárfesting manna í atvinnurekstri — Fjárfesting í hlutabréfum — Frádráttur vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri — Frádráttarheimild — Hlutabréf — Hlutabréfakaup — Hlutafélag — Sérstakt hæfi — Vanhæfi — Hæfisskilyrði — Meðalhófsreglan
I.
Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárin 1988 og 1989. Kæruefnin eru sem hér greinir:
1. Vaxtagjöld til ákvörðunar vaxtaafsláttar. Í skattframtali sínu árið 1988 færðu kærendur sem vaxtagjöld til frádráttar 396.032 kr. og í framtali árið 1989 930.551 kr. Í framhaldi af fyrirspurnarbréfi sínu, dags. 21. desember 1989, og að fengnu svarbréfi umboðsmanns kærenda, dags. 11. janúar 1990, felldi skattstjóri hinn 22. mars 1990 niður vaxtagjöld til frádráttar af öðrum skuldum en við Lífeyrissjóð V.R. og Byggingarsjóð ríkisins og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kærenda gjaldárin 1988 og 1989 í samræmi við það. Lækkuðu vaxtagjöld til frádráttar við þetta í 57.853 kr. í framtali árið 1988 og í 72.731 kr. í framtali árið 1989. Við þessar breytingar féll vaxtaafsláttur kærenda niður gjaldárin 1988 og 1989.
Af hálfu umboðsmanns kærenda voru breytingar skattstjóra kærðar í kæru til skattstjóra, dags. 17. apríl 1990. Gerð var grein fyrir erfiðri skuldastöðu kærenda vegna íbúðarkaupa á sínum tíma. Þess var krafist aðallega, að skattstjóri félli frá breytingum sínum. Til vara var þess krafist, að vaxtagjöld í framtali árið 1988 yrðu talin 356.002 kr. og í framtali árið 1989 486.616 kr. í samræmi við sérstakt yfirlit, er kærunni fylgdi. Tekið var fram, að vaxtagjöld skv. varakröfu væru af lánum, sem væru öðrum fremur tengd íbúðarkaupum kærenda.
Með kæruúrskurði, dags. 26. apríl 1990, synjaði skattstjóri aðalkröfu kærenda og vísaði varakröfu frá vegna vanreifunar. Eru forsendur skattstjóra svohljóðandi í hinum kærða úrskurði:
„Samkvæmt ákvæðum bráðabirgðaákvæðis I í lögum nr. 92/1987 og ákvæðum laga nr. 79 og 117/1989 miðast vaxtaafsláttur og vaxtabætur við vaxtagjöld af lánum sem sannanlega voru notuð til öflunar eða endurbóta á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Eftir fjórða ár frá og með kaup/endurbótaári eða sjöunda ári frá og með því ári sem íbúðarbygging hefst er þó einungis heimilt að telja til vaxtagjalda vexti af fasteignaveðlánum til a.m.k. tveggja ára eða lánum við lánastofnanir með sjálfskuldarábyrgð til a.m.k. tveggja ára.
Samkvæmt upplýsingum kærenda keyptu þau íbúð sína að X, á árinu 1978. Ekki hefur verið sýnt fram á að um endurbætur á húsnæðinu hafi verið að ræða eftir þann tíma. Er kærendum því ekki heimilt að færa vexti af öllum skuldum sínum, bæði frá árunum 1978 til 1982 og yngri skuldum, sem vaxtagjöld vegna íbúðarkaupa eins og þau gerðu við framtalsgerð.
Er aðalkröfu kærenda því synjað.
Forsenda fyrir varakröfu kærenda er að um sé að ræða vexti af lánum sem þeir hafi „öðrum fremur tengt íbúðarkaupum“. Enginn rökstuðningur fyrir því mati kærenda hefur verið lagður fram og er varakröfu þeirra því vísað frá sökum vanreifunar.“
II.
Af hálfu umboðsmanns kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 21. maí 1990, og gerðar sömu kröfur í kærunni til skattstjóra, sbr. að framan. Gerð er grein fyrir högum kærenda og fjárfestingum í verslun, einkabifreiðum og hlutabréfum. Þá er því haldið fram, að ómerkja beri ákvörðun skattstjóra, þar sem sami starfsmaður hans hafi fjallað um málið á öllum stigum skattstjórameðferðar.
2. Frádráttur v/fjárfestingar í atvinnurekstri. Kærendur krefjast þess, að til frádráttar tekjum komi 25.870 kr. í framtali árið 1988 og 105.725 kr. í framtali 1989 vegna kaupa á hlutabréfum í Verslunarbanka Íslands h.f., sbr. 4. tl. B-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Með bréfi, dags. 1. febrúar 1991, hafa kærendur lagt fram sérstaka greinargerð um frádrátt vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri (RSK 3.10).
III.
Með bréfi, dags. 5. desember 1990, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur, enda kemur fram í forsendum [kæruúrskurðar] að kærendur hafi ekki með fullnægjandi hætti sýnt fram á að um endurbætur á húsnæði því er þau keyptu 1978, hafi verið að ræða. Er kærendum því ekki heimilt að færa vexti af öllum skuldum sínu, bæði frá árunum 1978 til 1982, og yngri skuldum sem vaxtagjöld vegna íbúðarkaupa eins og þau gerðu við framtalsgerð.
Einstaklingar sem kaupa hlutabréf í hlutafélögum geta dregið kaupverð þeirra hlutabréfa frá skattskyldum tekjum sínum að svo miklu leyti sem um er að ræða hlutafélög sem hlotið hafa staðfestingu ríkisskattstjóra og um er að ræða aukningu á fjárfestingu í atvinnurekstri. Ber þá að skila með framtali greinargerð um frádrátt vegna fjárfestingar í atvinnurekstri. Þetta hafa kærendur ekki gert og ber því að vísa þessum kærulið frá.“
IV.
Rétt þykir í upphafi að víkja að fram bornum málsástæðum varðandi ómerkingu breytinga skattstjóra vegna ætlaðs sérstaks vanhæfis, sbr. 103. gr. laga nr. 75/1981. Ekkert þykir fram komið í máli þessu, er leitt gæti til þess að hrinda bæri ákvörðunum skattstjóra á grundvelli 103. gr. laga nr. 75/1981. Um efnisatriði málsins verður niðurstaðan, sem hér segir:
Um 1. tl. Sýnt þykir, að kærendur hafi oftalið vaxtagjöld til frádráttar í skattframtölum sínum árin 1988 og 1989 með því að talsverður hluti tilfærðra lána þykir ekki hafa verið til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Er aðalkröfu þeirra því synjað. Hins vegar þykir skattstjóri hafa gengið lengra en efni standa til í niðurskurði vaxtagjalda til frádráttar. Að virtum öllum málavöxtum þykir mega taka varakröfu kærenda til greina varðandi þetta kæruatriði og er þá m.a. litið til meðferðar skattstjóra á vaxtagjöldum kærenda á framtali árið 1987.
Um 2. tl. Með skírskotun til framlagðra gagna er fallist á kröfu kærenda um þetta kæruatriði.