Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 296/1991

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 9. tl. — 96. gr. 1. og 4. mgr. — 97. gr. 2. mgr.  

Starfslokafrádráttur — Starfslok — Launatekjur — Frádráttarheimild — Endurákvörðun — Endurákvörðun skattstjóra — Endurákvörðunarheimild skattstjóra — Tímamörk endurákvörðunar

Kærð er endurákvörðun skattstjóra á opinberum gjöldum kæranda gjaldárið 1987. Var sú ákvörðun á því byggð, að samkvæmt skattagögnum kæranda og upplýsingum hans sjálfs, sbr. bréf hans til skattstjóra, dags. 14. mars 1989, hefði hann ekki látið af störfum á árinu 1986 í skilningi 9. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Uppfyllti því kærandi ekki lagaskilyrði til þess frádráttar, sem tilfærður hefði verið í skattframtali hans árið 1987.

Fyrir ríkisskattanefnd gerir umboðsmaður kæranda þá kröfu, að framangreind endurákvörðun skattstjóra verði felld niður. Þeirri kröfu til stuðnings bendir hann á, að samkvæmt orðum framangreinds lagaákvæðis, eigi kærandi rétt á hinum umdeilda frádrætti, þó að hann hefði af tilfallandi ástæðum haldið áfram störfum eftir nefnt tímabil að ósk vinnuveitanda síns. Þá bendir umboðsmaður kæranda einnig á, að þegar endurákvörðun skattstjóra fór fram hefði frestur til þess verið liðinn sbr. 2. mgr. 97. gr. nefndra laga.

Ríkisskattstjóri krefst þess fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eigi er fallist á það með kæranda, að með hinni kærðu endurákvörðun hafi skattstjóri brotið í bága við 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með þessari athugasemd er úrskurður skattstjóra staðfestur með vísan til forsendna hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja