Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 298/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 28. gr. 4. tl. — 91. gr. 1. mgr. — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 4. ml. — 100. gr. 1. mgr. — 106. gr. 1. mgr. Lög nr. 60/1984 — 8. gr. Lög nr. 86/1988 — 8. gr.
Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Vítaleysisástæður — Skattframtal, höfnun — Skattframtal, vefenging — Skattframtal, tortryggilegt — Launatekjur — Örorkulífeyrir — Örorka — Lífeyrisgreiðslur — Íbúðarhúsnæði — Húsbygging — Húsbyggjandi — Eignaauki — Eigin vinna — Eigin vinna við íbúðarhúsnæði — Skattskyld eigin vinna við íbúðarhúsnæði — Skattskyldur eignaauki — Eignaauki, skattskyldur — Skattfrjáls eignaauki — Eignaauki, skattfrjáls — Eignaauki vegna eigin vinnu við íbúðarhúsnæði — Skattskyldar tekjur — Húsbyggingarskýrsla — Fylgigögn skattframtals — Byggingarkostnaður — Fasteignamatsverð — Íbúðarlán — Byggingarsjóður ríkisins — Byggingarkostnaður/fasteignamatsverð, misræmi — Fasteignamatsverð/byggingarkostnaður, misræmi — Lánveiting — Tilgangur lánveitingar — Framfærslueyrir — Kærufrestur — Kæra, síðbúin — Síðbúin kæra — Sjónarmið, sem stjórnvaldsákvörðun er byggð á — Ólögmæt sjónarmið — Rökstuðningur — Rökstuðningur ákvarðana skattstjóra — Rökstuðningi áfátt
Málavextir eru þeir, að kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1989 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989.
Af hálfu umboðsmanns kærenda var álagningin kærð til skattstjóra með kæru, dags. 27. ágúst 1989, og boðað, að gögn yrðu send síðar. Með bréfi, dags. 14. september 1989, sendi umboðsmaður kærenda skattframtal þeirra árið 1989 til skattstjóra. Bárust skattstjóra gögn þessi hinn 19. s.m. Var þess farið á leit, að framtalið yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 í stað áætlaðra skattstofna án 25% álags vegna síðbúinna framtalsskila, enda hefðu óviðráðanlegar heimilisaðstæður valdið því, að framtalsskilin drógust.
Næst gerðist það í málinu, að skattstjóri reit kærendum bréf hinn 28. nóvember 1989 og fór fram á upplýsingar og skýringar um eftirfarandi atriði:
„1. Samkvæmt framtalsgögnum yðar hafið þér ekki stundað launaða atvinnu á árinu 1988 og einu tekjur yðar hafa verið lífeyrisgreiðslur að fjárhæð kr. 806.426,-. Á sama tíma hafið þér greitt kr. 500.000,- vegna bifreiðakaupa án þess að stofna til aukinna skulda. Þykir þetta tortryggilegt og er því skorað á yður að útskýra hvernig framfærslu yðar á árinu 1988 og fjármögnun bifreiðakaupa var háttað og ástæður fyrir því að þér stunduðuð enga atvinnu.
2. Samkvæmt framtalsgögnum yðar 1987 — 1988 var stofnverð íbúðarhúsnæðis yðar að X, í árslok 1987 kr. 2.299.134,-. Fasteignamat eignarinnar þann 1. desember 1988 var samtals kr. 7.053.000,-. Þykir því augljóst að þér hafið haldið byggingu þess húsnæðis áfram á árinu 1988 þó svo að engin húsbyggingarskýrsla hafi fylgt framtali 1989. Er nú skorað á yður að gera grein fyrir þessari gífurlegu hækkun milli ára og leggja fram húsbyggingarskýrslu ef um framkvæmdir var að ræða á árinu 1988.“
Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 3. desember 1989, var í fyrsta lagi á það bent, að kærandi, A, hefði fengið lán frá Byggingarsjóði ríkisins að fjárhæð 2.155.000 kr. á árinu 1988. Í öðru lagi lagði umboðsmaður kærenda fram húsbyggingarskýrslu, er láðst hefði að láta fylgja skattframtalinu. Tekið var fram, að íbúðarhúsið að X væri enn í byggingu. Samkvæmt húsbyggingarskýrslunni var kostnaður á árinu alls 125.400 kr., er var aukavinna kæranda sjálfs við íbúðarhúsnæðið 600 klst. á 209 kr. hver klukkustund. Þá var þess getið, að í athugun væri hvers vegna fasteignamatið væri svo hátt sem raun bæri vitni.
Með kæruúrskurði, dags. 29. desember 1989, synjaði skattstjóri kröfu kærenda á þeim forsendum, að skattframtal þeirra árið 1989 þætti í þeim mæli ófullkomið og tortryggilegt, að á því yrði rétt álagning ekki byggð. Forsendur skattstjóra fyrir synjuninni eru svohljóðandi:
„1. Á árinu 1988 stunduðu kærendur enga launaða atvinnu og höfðu aðeins lífeyrisgreiðslur sér til framfærslu. Engar ástæður hafa verið gefnar fyrir því en á húsbyggingarskýrslu sem fylgdi svarbréfi kærenda, dags. 3. desember 1989, er tilfærð 600 klukkustunda vinna við eigið húsnæði sem þykir tortryggilegt.
Einnig var beðið um útskýringar á fjármögnun bifreiðakaupa. Af svarbréfi má ráða að kærendur hafi byggt framfærslu sína og bifreiðakaup á lántöku hjá Byggingarsjóði ríkisins. Samkvæmt 8. gr. laga nr. 60/1984 um Húsnæðisstofnun ríkisins og laga nr. 86/1988 er hlutverk Byggingarsjóðs ríkisins lánveitingar til íbúðarbygginga og íbúðarkaupa, viðhalds og endurbóta á íbúðarhúsnæði og nýjunga í byggingaiðnaði. Er því ekki fallist á framangreindar skýringar kærenda.
2. Farið var fram á útskýringar á óeðlilega mikilli hækkun matsverðs íbúðarhúsnæðis milli áranna 1987 og 1988. Hækkunin nam kr. 4.753.866,- eða 206.77%. Engar skýringar hafa borist.“
Af hálfu umboðsmanns kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 26. janúar 1990. Farið er fram á, að skattframtalið verði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989. Gerð er grein fyrir högum kærenda og örorku kæranda, B, og lagt fram læknisvottorð og örorkumat. Tekið er fram, að kærandi, A, hafi annast um eiginkonu sína frá því hún veiktist og væri það fullt starf fyrir hann. Hann hefði á árinu 1989 byrjað leigubifreiðaakstur en í því starfi gæti hann ráðið tíma sínum betur m.t.t. umönnunar eiginkonunnar heldur en ef hann væri í föstu starfi. Að því er varðar einstaka þætti framtalsins þá telur kærandi eigin vinnu ofmetna og mætti lækka hana í 100 klst. Þá er bent á varðandi lán frá Húsnæðisstofnun, að greidd hafi verið upp skuld við BYKO 400.000 kr. og greitt af lánum 830.000 kr. Þá hafi verið reynt að fá fasteignamatsverð lagfært en það ekki enn náð fram að ganga.
Með bréfi, dags. 21. maí 1990, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún er of seint fram komin en lögmæltur 30 daga kærufrestur skv. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 rann út þann 28. janúar 1990. Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á að honum hafi eigi verið unnt að kæra innan þess frests.
Telji ríkisskattanefnd hinsvegar að taka beri kæruna til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir ofangreindan formgalla er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
Eftir öllum atvikum þykir mega taka kæruna til efnismeðferðar. Skattstjóri byggði höfnun framtalsins m.a. á því að kærendur hefðu enga launaða atvinnu, er hann virðist hafa talið tortryggilegt ásamt því að tilfærð væri eigin vinna við húsbyggingu. Ekki rökstyður skattstjóri þetta og ekki er um það að ræða að framfærslueyrir sé afbrigðilega lágur og því ekki haldið fram af hálfu skattstjóra. Kærendur hafa gert grein fyrir högum sínum. Þá teflir skattstjóri því fram, að fjármögnun bifreiðakaupa og framfærsla geti ekki skýrst með lánum Byggingarsjóðs vegna tilgangs með lánveitingum þess sjóðs. Varðandi gildi framtalsins þykir þessi röksemd vera út í hött. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið og að öðru leyti þykir synjun skattstjóra á framtalinu byggja á svo veikum grunni að engar forsendur eru til þess að láta hana óhaggaða standa. Verður því framtalið lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda kærenda gjaldárið 1989 þó með þeirri breytingu að skattgilda ber eigin vinnu við íbúðarhúsnæði 125.400 kr. enda þykja skilyrði 4. tl. 28. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, fyrir skattfrelsi þessa eignaauka ekki uppfyllt í tilviki kæranda, A, og ekki framkomnar viðhlítandi skýringar á því að aukavinna þessi hafi verið vanmetin í húsbyggingarskýrslu.