Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 329/1991

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 32. gr. 1. tl. — 38. gr. — 96. gr. 1. og 4. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 1. og 4. ml.  

Atvinnuhúsnæði — Innrétting — Innrétting í atvinnuhúsnæði — Rekstrarfjármunir, varanlegir — Varanlegir rekstrarfjármunir — Rekstrarkostnaður — Tölvukostnaður — Viðhaldskostnaður — Viðhaldskostnaður áhalda — Viðhaldskostnaður fasteignar — Endurbætur — Endurbætur atvinnuhúsnæðis — Fyrning, almenn — Almenn fyrning — Eignfærsla — Fyrning — Fyrnanleg eign — Fyrnanleg fasteign — Fyrnanlegt lausafé — Lausafé — Gjaldfærsla kostnaðarverðs eigna og eignasamstæðna á kaupári án tillits til endingartíma — Gjaldfærsla kostnaðarverðs einstakra eigna og eignasamstæðna á kaupári, hámarksfjárhæð — Fyrningarhlutfall — Endurákvörðun — Endurákvörðunarheimild skattstjóra — Endurákvörðun skattstjóra — Kærufrestur — Síðbúin kæra — Kæra, síðbúin — Frávísun — Frávísun vegna síðbúinnar kæru — Rökstuðningur — Rökstuðningur ákvarðana skattstjóra — Rökstuðningi áfátt — Forsendur ákvörðunar skattstjóra — Rangar forsendur skattstjóra

Málavextir eru eftirfarandi:

Að undangengnu fyrirspurnarbréfi skattstjóra til kæranda, dags. 4. apríl 1989, varðandi gjaldfærð áhöld, tæki og viðgerðir, að fjárhæð 1.104.399.- kr., og bréf, dags. 4. ágúst 1989 og að virtu svarbréfi kæranda, dags. 14. ágúst 1989, tilkynnti skattstjóri félaginu með bréfi, dags. 5. september 1989, að hann hefði ákveðið að endurákvarða opinber gjöld þess gjaldárið 1988 með vísan til 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ákvörðun sína byggði skattstjóri á eftirfarandi forsendum:

„Með ofannefndum bréfum skattstjórans var óskað eftir, og ítrekað, að gerð væri grein fyrir gjaldaliðnum áhöld, tæki og viðgerðir að upphæð kr. 1.104.399 og að viðkomandi reikningar yrðu lagðir fram. Við ítrekun barst svar yðar í bréfi dags. 14. ágúst 1989, ásamt umbeðnum gögnum.

Í bréfi yðar kemur fram sú sundurliðun að viðhald og viðgerðir tölvubúnaðar og annarra tækja sé kr. 250.149.27, áhaldakaup – sala kr. 277.085 og viðhald húsnæðis, m.a. vegna flutnings milli hæða að X er samtals kr. 786.869. Ekki verður annað séð en hér sé um að ræða kostnað við innréttingu á því húsnæði sem fyrirtækið hefur til eigin nota og beri að eignfæra sem varanlega rekstrarfjármuni, og fyrna samanber 32. gr. laga nr. 75/1981. Má í því sambandi benda á reikning frá Y s.f. yfir vinnu við tillögur að innréttingum að X kr. 100.573.

Meðal gagna um gjaldfærð áhaldakaup er reikningur yfir prentara að verðmæti kr. 112.523 með söluskatti. Þetta tæki er ekki heimilt að fyrna á kaupári, sbr. 41. gr. ofannefndra laga og ber því að eignfæra.

Að þessum atriðum virtum verða nefndir gjaldaliðir ekki heimilaðir, en færðir til eigna að frádreginni fyrningu sem í báðum tilfellum er 20%.“

Með kæru til skattstjóra, dags. 4. október og 20. október 1989, fer kærandi fram á eftirfarandi:

„Í fyrsta lagi er óskað eftir leiðréttingu á misræmi í úrskurði yðar þar sem eignfært er af gjaldfærðum viðhaldskostnaði húsnæðis kr. 786.869.- en gjaldfærður viðhaldskostnaður var aðeins kr. 577.164,73. Ástæðan fyrir þessu misræmi er væntanlega sú að þér teljið til eigna skv. reikningum sem sendir voru með til skýringar á innborgun sem gjaldfærðar voru á árinu.

Í öðru lagi er farið fram á að gjaldfært viðhald kr. 577.164,73 verði viðurkennt til frádráttar. Eins og fram kom í bréfi okkar er um að ræða lagfæringar á húsnæði sem félagið hefur verið í frá stofnun eða frá 1980 og viðbótarhúsnæði sem tekið var í notkun á árinu 1987. Vegna þessara framkvæmda mátum við til eigna kr. 800.343.- (eignfært á árinu 1988) og til gjalda vegna slits af eðlilegri notkun kr. 577.164,73 (á árinu 1987). Þessar viðgerðir og endurbætur voru framkvæmdar í lok árs 1987 og byrjun ársins 1988 og miðað við þá kostnaðaráætlun sem við gerðum í upphafi töldum við framangreinda skipulagningu eðlilega milli viðhalds og endurbóta.“

Með úrskurði, dags. 13. nóvember 1989, vísar skattstjóri kærunni frá á þeim forsendum að hún sé of seint fram komin.

Í kæru sinni til ríkisskattanefndar, dags. 7. desember 1989, vísar kærandi til áðurgreindra skýringa í bréfi sínu til skattstjóra.

Með bréfi, dags. 14. nóvember 1990, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Krafist er staðfestingar á frávísunarúrskurði skattstjóra, enda hafa ekki komið fram haldbærar skýringar hvers vegna kæran barst ekki innan lögmælts kærufrests.“

Að virtum öllum málavöxtum þykir mega taka kæruna til efnisúrlausnar. Misræmi virðist vera á gjaldfærðum viðhaldskostnaði sem skattstjóri eignfærir og fyrnir um 20%. Viðhaldskostnaður hækkar í meðferð skattstjóra úr 577.164.73 kr. í 786.869 kr. án viðhlítandi skýringa eða rökstuðnings af hans hálfu. Auk þess þykir skattstjóri ekki færa fram fullnægjandi rök fyrir öðrum gerðum breytingum og fyrningarhlutfall þykir ekki vera í samræmi við 38. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þeir annmarkar þykja því hafa bagað meðferð skattstjóra að ómerkja verður þessar breytingar hans. Af þeim sökum eru kröfur kæranda teknar til greina að því er þær varðar. Hins vegar þykir rétt að staðfesta breytingar skattstjóra varðandi eignfærslu á prentara, sbr. 41. gr. fyrrgreindra laga.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja