Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 333/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 57/1949 — 32. gr.   Lög nr. 75/1981 — 10. gr. 2. mgr. — 16. gr. 1., 2. og 3. mgr. — 23. gr. 1. mgr. — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl. — 100. gr. 5. mgr.   Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða I.  

Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Vaxtafrádráttur — Vaxtaafsláttur — Fasteign — Söluhagnaður — Söluhagnaður fasteignar — Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði — Söluhagnaður ófyrnanlegrar fasteignar — Skattfrelsi — Skattfrelsi söluhagnaðar — Skattfrelsi söluhagnaðar íbúðarhúsnæðis — Söluhagnaður, skattfrjáls — Eignartími — Eignartími íbúðarhúsnæðis — Söluhagnaður, útreikningur — Útreikningur söluhagnaðar — Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði færður til lækkunar stofnverðs annars íbúðarhúsnæðis — Stofnverð — Kaupsamningur — Sölutap — Tap á sölu eigna utan atvinnurekstrar — Frádráttur sölutaps frá söluhagnaði — Samskonar eignir — Nauðungaruppboð — Útlagningarhafi — Uppboðskaupandi — Niðurfærsla — Niðurfærsla eftirstöðva kröfu útlagningarhafa — Fjármagnskostnaður — Eignfærður fjármagnskostnaður — Fjármagnskostnaður eignfærður — Kröfugerð ríkisskattstjóra

I.

Kæruefni máls þessa er tvíþætt. Annars vegar varðar það söluhagnað vegna sölu íbúðarhúsnæðis að fjárhæð 2.108.814 kr., sem skattstjóri færði kærendum til skattskyldra tekna í reit 77 í skattframtali þeirra árið 1989. Hins vegar er deilt um lækkun vaxtagjalda í reit 87 úr 802.321 kr. í 240.358 kr. eða um 561.963 kr. Leiddi þessi breyting til þess, að vaxtaafsláttur kærenda féll niður. Söluhagnaður var þannig tilkominn, að kærendur þurftu árið 1988 að leysa til sín íbúð að A á nauðungaruppboði vegna vanefnda kaupanda, en sala til kaupanda þessa hafði farið fram 1985. Íbúðin var síðan seld X með kaupsamningi, dags. 24. ágúst 1988, er greiddi m.a. með íbúð að B. Var sú íbúð síðan seld Y með kaupsamningi, dags. 30. ágúst 1988. Kærendur höfðu óskað þess, að söluhagnaður, ef einhver reiknaðist, færðist til lækkunar á stofnverði íbúðar að C, sem kærendur keyptu á árinu 1985. Skattstjóri taldi skattskyldan söluhagnað vegna íbúðarinnar að A nema 1.546.634 kr. og vegna íbúðarinnar að B 562.180 kr. Ekki féllst skattstjóri á, að söluhagnaður yrði færður til lækkunar stofnverðs íbúðar að C, með því að sú íbúð hefði verið keypt 1985. Lækkun vaxtagjalda byggði skattstjóri á því, að gjöldin tengdust ekki kaupum íbúðar að C, heldur væru tilkomin vegna fjármögnunar kaupanna á íbúðinni að A.

II.

Umboðsmaður kærenda gerir grein fyrir málsatvikum í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 20. júlí 1990. Meginatriði rökfærslu hans bæði varðandi söluhagnað og vaxtagjöld eru, að kærendur hafi þurft að leysa til sín íbúðina að A, á nauðungaruppboði árið 1988 til þess að verja hagsmuni sína, en íbúð þessa hefðu þau selt árið 1985. Þau hefðu þurft að stofna til skulda út af þessu samhliða því, að vanskil kaupenda frá árinu 1985 hefðu leitt til skuldasöfnunar. Er nánari grein gerð fyrir þessu. Hvort tveggja sé samtvinnað eða tengist kaupum kærenda á íbúð að C. Verði að skoða atburðarásina 1985 til 1988 í samhengi. Þess er því krafist, að ákvörðun skattstjóra um áætlaðan söluhagnað og lækkun vaxtagjalda verði felld niður. Til vara teflir umboðsmaður kærenda fram þeirri málsástæðu, að svo verði litið á, að kaupin 1985 hafi gengið til baka við nauðungarsöluna og því verði aðeins talið um eina sölu að ræða og því girði eignartími fyrir skattlagningu söluhagnaðar. Til vara er þess krafist, að söluhagnaður verði ákveðinn 813.964 kr. svo sem nánar er gerð grein fyrir og þ.á m. tekið tillit til taps 93.968 kr. vegna sölu íbúðar að B.

III.

Með bréfi, dags. 22. janúar 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum er fallist á aðalkröfu kærenda.“

IV.

Aðalkröfu sína varðandi söluhagnað byggja kærendur aðallega á þeirri málsástæðu, að ekki hafi verið um neinn slíkan hagnað að ræða. Á það fellst ríkisskattstjóri. Á þessa niðurstöðu þykir eigi unnt að fallast og þykir hvorug málsástæðan fá staðist. Samkvæmt gögnum málsins var kærendum lögð út íbúðin að A á nauðungaruppboði því, sem fram fór á árinu 1988, skv. 32. gr. laga nr. 57/1949, um nauðungaruppboð. Útlagningarhafar eru í stöðu venjulegra uppboðskaupenda. Verður því að telja, að kærendum hafi borið að gera grein fyrir söluhagnaði við sölu íbúðarinnar hinn 24. ágúst 1988 til X svo sem þau hafa reyndar talið sjálf upphaflega, sbr. fylgiskjal með skattframtali (RSK 3.02). Kærendur hafa gert tölulega grein fyrir söluhagnaði annars vegar vegna sölu á íbúðinni að A og hins vegar sölutapi vegna sölu íbúðar að B, er látin var í makaskiptum fyrir fyrrnefndu íbúðina og kærendur seldu síðan hinn 30. ágúst 1988. Nettófjárhæð söluhagnaðar nemur samkvæmt þessu uppgjöri kærenda 813.964 kr. Lýtur varakrafa kærenda að því, að söluhagnaðurinn verði ákveðinn svo. Skilja verður varakröfu þessa svo, að söluhagnaðurinn verði færður til lækkunar á stofnverði íbúðarhúsnæðis að C, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981. Eins og sérstaklega stendur á í máli þessu og öllum aðdraganda að sölu þeirri, er til hagnaðarins leiddi, hefur verið háttað, þykir mega fallast á varakröfu kærenda að þessu leyti. Hins vegar verður eigi á þá fjárhæð söluhagnaðar fallist, sem kærendur krefjast í kæru, að miðað verði við, þ.e. 813.964 kr., með því að ekki þykir vera nein heimild til þess að líta á þann hluta kröfu þeirra, sem ekki fékkst greiddur á nefndu uppboði, þ.e. 569.721 kr., sem hluta stofnverðs, en ekki liggur fyrir, að nein sú niðurfærsla hafi farið fram á þessum eftirstöðvum kröfunnar, sem um getur í 3. og 4. mgr. 32. gr. laga nr. 57/1949, um nauðungaruppboð. Hins vegar þykir, þegar litið er til tilurðar þeirra vaxtagjalda, sem um er deilt í málinu 561.963 kr., frekast bera að telja þau til stofnverðs íbúðar að A. Hækkar því fjárhæð söluhagnaðar um 7.758 kr. frá því sem umboðsmaður kærenda hefur tilgreint og verður 821.722 kr. Samkvæmt framangreindri niðurstöðu koma vaxtagjöld ekki til álita til frádráttar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja