Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 367/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 68. gr. A-liður — 99. gr. — 100. gr. — 112. gr. — 121. gr. 3. mgr. Lög nr. 45/1987 — 1. gr. — 9. gr. 2. og 3. mgr. — 11. gr. — 12. gr. Reglugerð nr. 79/1988 — I. kafli
Vextir — Dráttarvextir — Innheimta opinberra gjalda — Valdsvið ríkisskattanefndar — Kæruheimild — Kærumeðferð — Kæranleiki — Frávísun — Frávísun, mál utan valdsviðs — Launatekjur — Persónuafsláttur — Persónuafsláttur í staðgreiðslu — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Bráðabirgðagreiðsla tekjuskatts og útsvars — Álagning — Álagning að liðnu tekjuári — Álagning, almenn — Skattkort — Aðalskattkort — Aukaskattkort — Námsmannaskattkort — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Lögmætisreglan
Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 var lagt á kæranda samkvæmt óbreyttu skattframtali.
Hinn 2. september 1989 lagði umboðsmaður kæranda fram svohljóðandi kæru:
„Forsaga málsins er sú að A vann í X með námi sínu í Reykjavík í ársbyrjun 1988. Skv. meðf. yfirliti kemur í ljós að heildarlaun A frá 1.1.-31.5. 1988 voru kr. 121.902, staðgreiðsluskattur af þeim launum nam kr. 42.910 og ónotaður persónuafsláttur fyrstu fjóra mánuðina kr. 17.797. A sótti um námsmannakort í Reykjavík áður en hún kom hingað austur að loknu námi um vorið og lagði inn skattkort það er hún hafði notað í X. Skv. framansögðu hefði námsmannakort hennar átt að hljóða uppá kr. 10.864,00 þ.e. 17.797,00 (upps. ónotaður afsláttur úr X) + 14.797,00 (þ.e persónuafsláttur í maí) samtals kr. 32.594,00/3 = 10.864,00 Skv. meðf. ljósriti af námsmannakorti A hljóðar það uppá kr. 24.662,00 sem er fullur persónuafsláttur v. jan.-maí þ.e. 14.797 x 5 = 73.985 : 3 = 24.662,00.
Má því augljóst vera að hinn vangreiddi skattur sem henni er álagður er því að kenna að skattyfirvöld gáfu út rangt námsmannakort fyrir hana sem hún síðan nýtti þá um sumarið. Er því farið fram á að hin vangreiddi skattur verði felldur niður, enda getur það ekki talist óeðlilegt þar sem mistökin eru við útgáfu kortsins en ekki þau að ekki hafi verið greiddur sá skattur sem bar miðað við þau gögn sem fyrir lágu við útreikning hans. Auk þess má geta þess að A hyggst setjast aftur á skólabekk nú í haust og léttir þessi skattakrafa það ekki.“
Með kæruúrskurði, dags. 7. maí 1990, synjaði skattstjóri kærunni á þeim forsendum, að það hefði verið skylda kæranda sjálfs að fylgjast með skattalegum skyldum, hvort sem um væri að ræða of- eða vangreiðslu.
Með kæru, dags. 11. maí 1990, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og gerir þá kröfu aðallega, að hinn vangreiddi skattur verði felldur niður en til vara, að allir dráttarvextir vegna þessa mismunar verði felldir niður. Vísað er til kærunnar til skattstjóra, dags. 2. september 1989, og þau rök ítrekuð, sem þar koma fram, og byggt á því, að rangt námsmannaskattkort sé ekki sök kæranda.
Með bréfi, dags. 12. mars 1991, geri ríkisskattstjóri svofellda kröfu í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum er fallist á kröfu kæranda.“
Mál þetta sýnist snúast um það, hver bera eigi hallann af því, að kæranda var ákvarðaður of hár persónuafsláttur í staðgreiðslu. Lagt var á kæranda samkvæmt óbreyttu framtali og er því ekki haldið fram, að álagningin sé efnislega röng. Skv. 1. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, telst staðgreiðsla skatta bráðabirgðagreiðsla. Um það hvernig skuli fara með mismun á álagningu og staðgreiðslu, er fram kemur við álagningu, er fjallað í 3. mgr. 121. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Hefur skattstjóri hagað álagningunni í samræmi við ákvæði þessi og að öðru leyti verður ekki annað séð en hún hafi verið að lögum. Ekki verður talið, að frambornar málsástæður kæranda varðandi tilhögun og framkvæmd staðgreiðslu breyti neinu að því er álagninguna áhrærir en að því lúta kröfurnar að undanskilinni kröfu um niðurfellingu dráttarvaxta. Er kröfum kæranda því synjað, en kærunni vísað frá að því er varðar dráttarvexti, þar sem kærumeðferð skv. 99. og 100. gr. laga nr. 75/1981 tekur ekki til ágreiningsefna varðandi innheimtu opinberra gjalda, þ.m.t. vaxta. Vegna kröfugerðar ríkisskattstjóra í máli þessu verður ekki hjá því komist að taka fram, að hún er bersýnilega andstæð lögum.