Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 382/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 73/1980 — 35. gr.   Lög nr. 75/1981 — 60. gr. 2. mgr. — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 2. ml.  

Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsstofn — Aðstöðugjaldsgreinargerð — Heildartekjur við ákvörðun aðstöðugjaldsstofns — Byggingarkostnaður — Byggingarstarfsemi — Tekjutímabil — Tekjuuppgjör — Tekjuuppgjörsaðferð — Verk í vinnslu — Verk, ólokin — Ólokin verk — Verklokaregla — Tekjuuppgjör rekstrar — Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Skattframtal tekið sem kæra — Byggingarsamningur — Verksamningur

Málavextir eru þeir, að með úrskurði, dags. 25. nóvember 1988, endurákvarðaði skattstjóri aðstöðugjaldsstofn kæranda við álagningu gjaldársins 1988 til hækkunar um fjárhæð innborgana kaupenda samkvæmt efnahagsreikningi í árslok 1987 6.710.000 kr. Var breyting skattstjóra framkvæmd þannig, að greind fjárhæð var færð bæði til hækkunar tekjum og aðstöðugjaldsskyldum rekstrarkostnaði í aðstöðugjaldsgreinargerð. Samkvæmt sundurliðun 8 með ársreikningi ársins 1987 var fjárhæð innborgunar færð til lækkunar kostnaði vegna ólokinna framkvæmda alls 10.446.872 kr. og mismunurinn 3.736.872 kr. færðist til eignar á efnahagsreikningi undir reikningsliðnum „Birgðir“. Endurákvörðun skattstjóra var ekki kærð til hans af hálfu kæranda.

Við álagningu opinberra gjalda ársins 1989 sætti kærandi áætlun skattstjóra, þar sem skattframtal 1989 barst skattstjóra eftir framtalsfrest eða þann 29. maí 1989 samkvæmt áritun þar um. Með kæru, dags. 20. ágúst 1989, voru framtalsskil ítrekuð og þess krafist, að álagning yrði byggð á innsendu skattframtali. Í ársreikningi ársins 1988 var uppgjöri byggingarframkvæmda hagað með sama hætti og í ársreikningi ársins á undan, þ.e. rekstraruppgjör miðaðist við lokin verk en færslur vegna ólokinna framkvæmda voru færðar á efnahagsreikning. Í meðfylgjandi aðstöðugjaldsgreinargerð var talið fram samkvæmt rekstraruppgjöri í ársreikningi með því fráviki, að til hækkunar gjöldum færðist efnahagsliður, þ.e. kostnaður vegna ólokinna framkvæmda í árslok 1988, 13.554.473 kr. og til lækkunar gjöldum sami liður vegna ársins 1987 10.446.872 kr. Að meðtalinni tekjufærslu skv. ákvæðum 53. gr. 523.391 kr. námu heildartekjur 30.062.820 kr., aðstöðugjaldsskyldur rekstrarkostnaður 30.417.508 kr. og aðstöðugjaldsstofn 30.062.820 kr. samkvæmt aðstöðugjaldsgreinargerð. Með kæruúrskurði, dags. 22. september 1989, féllst skattstjóri á innsent skattframtal að gerðum tveimur breytingum. Annars vegar var aðstöðugjaldsstofn hækkaður um fjárhæð innborgana kaupenda í árslok 1988 12.848.023 kr., sem framkvæmd var með sama hætti og úrskurðuð breyting á skattframtali 1988, og hins vegar var frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnurekstri á skattframtali felldur niður, þar sem skilyrði til frádráttar voru ekki fyrir hendi.

Með kæru, dags. 20. október 1989, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Er í kæru sett fram endursamin greinargerð um tekjur og gjöld vegna álagningar aðstöðugjalds. Í henni felst, að heildartekjur lækki um tekjufærslu skv. ákvæðum 53. gr. 523.391 kr., en hækki um mismun innborgana 1988 12.848.023 kr. og 1987 6.710.000 kr. eða 6.138.023 kr. og verði 35.677.452 kr., og að heildargjöld lækki um áður greint frávik frá rekstraruppgjöri eða 3.107.601 kr., en hækki um mismun innborgana 1988 og 1987 6.138.023 kr. og verði 33.447.930 kr. Í kæru kemur fram, að bygging raðhúsaíbúða hafi verið hafin á árinu 1987. Hafi innborganir vegna þeirra á árinu 1987 þá myndað stofn til aðstöðugjalds og iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjalds. Á árinu 1988 hafi allur kostnaður við umræddar íbúðir verið gjaldfærður, þegar smíði þeirra lauk. Í framlagðri aðstöðugjaldsgreinargerð hafi áfallinn byggingarkostnaður 1988 að frádregnum sama kostnaði 1987 verið ranglega færður til hækkunar aðstöðugjaldsstofni, sem beri að leiðrétta og fella niður, en hækka aðstöðugjaldsstofn í þess stað um mismun innborgana 1988 og 1987 eða 6.138.023 kr.

Með bréfi, dags. 22. febrúar 1991, hefur ríkisskattstjóri lagt fram svofellda kröfugerð í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Ríkisskattstjóri fellst á kröfu kæranda, þó með eftirfarandi athugasemd. Við afgreiðslu á aðstöðugjaldsúrskurði skattstjóra á framtali 1988 viðurkenndi skattstjóri ekki þá reikningslegu meðferð á útreikningi aðstöðugjaldsstofns sem kærandi viðhafði og reiknaði kæranda viðbótaraðstöðugjaldsstofn sem svaraði til innborgana á viðkomandi verk. Þetta hefur kærandi sætt sig við en við slíkt uppgjör hefði skattstjóri átt að draga frá aðstöðugjaldsstofni þau 50% af reiknuðum launum sem kærandi hafði ekki dregið frá aðstöðugjaldsstofni vegna fyrri uppgjörsmáta. Til þess að leiðrétta þetta er lagt til að umrædd fjárhæð kr. 778.439 verði dregin frá aðstöðugjaldsstofni á því framtali sem er hér til meðferðar.“

Fallist er á kröfu kæranda með þeirri breytingu, sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja