Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 395/1991
Gjaldár 1988
Lög nr. 32/1978 — 2. gr. — 129. gr. — 130. gr. — 131. gr. Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 1. tl. — 31. gr. 7. tl. — 56. gr. 1. mgr. — 91. gr. — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 2. ml. — 114. gr.
Hlutafélag — Lögaðili — Skattskylda — Skattskylda hlutafélags — Lok skattskyldu — Lok skattskyldu hlutafélags — Framtalsskylda — Sameining félaga — Samruni hlutafélaga — Samruni — Yfirfærsla skattaréttarlegra réttinda og skyldna — Samrunadagur — Félagsslit — Hlutafélagaskrá — Tilkynning til hlutafélagaskrár — Móðurfélag — Dótturfélag — Hlutafélagasamstæða — Samstæða hlutafélaga — Innlausn hlutabréfa — Innlausn móðurfélags á hlutabréfum í dótturfélagi — Rekstrartap — Rekstrartap, yfirfæranlegt — Yfirfæranlegt rekstrartap — Innköllun — Innköllun til lánardrottna hlutafélags — Álagningarmeðferð skattstjóra — Álagningarmeðferð skattstjóra, ósamræmi — Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Skattframtal tekið sem kæra
Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda, sem var hlutafélag, var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1988. Við álagningu gjaldárið 1988 voru kæranda áætluð opinber gjöld. Um var að ræða aðstöðugjald og atvinnurekendagjöld, en ekki var kæranda gert að greiða tekjuskatt og eignarskatt samkvæmt áætlun þessari.
Hinn 11. júlí 1988 barst skattstjóra skattframtal kæranda árið 1988 samkvæmt móttökuáritun hans. Skattstjóri tók framtalið sem kæru skv. 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og kvað upp kæruúrskurð hinn 30. október 1989, þar sem hann féllst á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988. Felldi skattstjóri álögð gjöld niður. Í skattframtalinu var þess getið, að rekstrartap 5.780.913 kr. væri yfirfært á X hf. vegna sameiningar kæranda við það hlutafélag.
Í hinum kærða úrskurði hafnaði skattstjóri því, að kæranda hefði verið slitið í árslok 1987 með svofelldum rökum:
„Skilyrði 56. gr. laga nr. 75/1981 um sameiningu hlutafélaga hefur ekki verið uppfyllt með kaupum X h.f. á öllum hlutabréfum í Y h.f. Ekki er því um það að ræða að X h.f. taki við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum kæranda.
Tilkynning kæranda til hlutafélagaskrár dags. 15. desember 1987 felur í sér yfirlýsingu um innlausn X h.f. á öllum hlutabréfum Y h.f. og yfirtöku eigna og skulda ásamt áskorun til lánadrottna kæranda að lýsa kröfum sínum á hendur félaginu innan 3ja mánaða.
Y h.f. hefur því ekki verið slitið í árslok 1987 og er því framtalsskylt gjaldárið 1988, sbr. 91. gr. laga nr. 75/1981, og 114. gr. laga nr. 32/1978.
Skuldir umfram eignir þann 31.desember 1987 eru því kr. 4.461.806 og yfirfæranlegt tap til næsta árs skv. 7. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 kr. 5.780.913.“
Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 30. nóvember 1989. Mótmælt er þeirri niðurstöðu skattstjóra, að sameining kæranda við X hf. hafi ekki uppfyllt skilyrði 1. mgr. 56. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Af hálfu umboðsmannsins eru færð fram svofelld rök og skýringar:
„1. X hf. keypti 98.4% hlutabréfa í Y hf. og greiddi fyrir þau kr. 1.230.000.
2. Í framhaldi af því ákváðu stjórnir félaganna að sameina þau á grundvelli 131. gr. hlutafélagalaganna nr. 32/1978.
3. Þetta var tilkynnt til hlutafélagaskrár með bréfi dags. 15.12.1987 og birtist tilkynningin ásamt innköllun í Lögbirtingablaðinu.
4. Það er jafnframt ljóst að hluthafar í Y hf., sem í þessu tilfelli var X hf., auk 4 smærri hluthafa, sem samtals áttu 1,6% hlutafjár, fengu eingöngu hlutabréf í X hf. sem gagngjald fyrir hlutafé sitt í Y hf. Þar með er fullnægt skilyrðum 56. gr. laga nr. 75/1981 um það að hluthafar í því félagi sem slitið er fái eingöngu hlutabréf í hinu félaginu sem gagngjald fyrir hlutafé sitt í því hlutafélagi sem slitið er.
Við teljum að ekki sé hægt að líta svo á að sameining hafi átt sér stað þegar þau viðskipti fóru fram sem greint er frá í lið 1. Stjórnir beggja félaganna tóku ákvörðun um sameiningu á grundvelli 131. greinar hlutafélagalaganna, þar sem við kaup X hf. á 98,4% hlutabréfa í Y hf. þá var orðið um að ræða móðurfélag annars vegar og dótturfélag hins vegar.
Samkvæmt framansögðu er það álit okkar að framangreind sameining sé fullkomlega í samræmi við ákvæði 1. mgr. 56. gr. laga nr. 75/1981 og uppfylli jafnframt öll skilyrði hlutafélagalaga. Við óskum því eftir að framtalið verið lagt óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda og að sameining þessara tveggja félaga verði viðurkennd á grundvelli 56. greinar laga nr. 75/1981.“
Með bréfi, dags. 9. október 1990, sendi umboðsmaður kæranda ljósrit af kæruúrskurði skattstjóra, dags. 21. maí 1990, í máli X hf. gjaldárið 1988, þar sem á það er fallist af hálfu skattstjóra, að sameining X hf. og kæranda sé í samræmi við ákvæði 56. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Tók skattstjóri í samræmi við þessa niðurstöðu til greina kröfu X um yfirfærslu og frádrátt umrædds taps kæranda 5.780.913 kr. Í bréfinu tekur umboðsmaðurinn fram, að með þessum úrskurði skattstjóra sé komin upp ný staða í málinu, er taka verði tillit til, enda geti ekki orðið önnur niðurstaða í máli kæranda og máli X hf. varðandi þetta atriði.
Með bréfi, dags. 20. nóvember 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Í tilkynningu, dags. 15. desember 1987, til hlutafélagaskrár, er birtist í 32. tbl. Lögbirtingablaðs, útg. 11. mars 1988, kom fram, að X hf. hefði innleyst til sín öll hlutabréf í Y hf. á grundvelli 131. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, og hefðu stjórnir beggja félaganna ákveðið, að fyrrnefnda hlutafélagið tæki við öllum eignum og skuldum Y hf. frá og með 15. desember 1987. Hér var um slíkan samruna að ræða, sem greinir í 131. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, þ.e. þegar móðurfélag á meira en 9/10 hluta hlutabréfanna í dótturfélagi og fer með samsvarandi hluta atkvæða og innlausn fer fram á þeim hluta hlutabréfanna í dótturfélaginu, sem ekki eru í eign móðurfélagsins, skv. ákvörðun stjórna félaganna og yfirtaka móðurfélagsins á öllum eignum og skuldum dótturfélagsins. Ágreiningslaust er, að hluthafar í kæranda hafi eingöngu fengið hlutabréf í X hf. sem gagngjald fyrir hlutabréf sín í kæranda, og að skilyrði 1. mgr. 56. gr. laga nr. 75/1981 séu uppfyllt. Skattstjóri hefur hins vegar ekki fallist á, að samruninn hafi farið fram á árinu 1987 og kæranda því ekki slitið fyrir árslok. Að því virtu, sem að framan greinir um samruna þennan, og með vísan til úrskurðar skattstjóra í kærumáli X hf. þykir bera að taka kröfu kæranda til greina. Rétt er að taka fram vegna þess, sem fram kemur í úrskurði skattstjóra, að kærandi hefur gegnt framtalsskyldu sinni gjaldárið 1988. Þá er rétt að taka fram svo sem reyndar greinir í málavöxtum, að úrskurður þessi leiðir ekki til gjaldabreytinga.