Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 398/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 4. tl. — 96. gr. 1. og 4. mgr. — 100. gr. 5. mgr.  

Skattskyldar tekjur — Gjöf — Skattskyld gjöf — Gjöf, skattskyld — Íbúðarhúsnæði — Fasteign — Fasteignamatsverð — Afhending verðmæta til nákominna ættingja — Lán — Sönnun — Endurákvörðun — Endurákvörðun skattstjóra — Endurákvörðunarheimild skattstjóra — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Framtalsháttur

Málavextir eru þeir, að kærandi gat þess í skattframtali sínu árið 1989, að sonur hennar, X, hefði afsalað til hennar hálfri húseigninni A, sbr. afsal, dags. 10. janúar 1988. Í framhaldi af bréfi sínu, dags. 27. apríl 1990, endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1989 hinn 17. ágúst 1989 vegna tekjufærslu verðmætis eignarhlutdeildar í hinni afsöluðu húseign sem skattskyldrar gjafar. Fjárhæðina byggði skattstjóri á fasteignamatsverði 1.124.500 kr. að frádregnu yfirteknu láni 440.000 kr. þannig að fjárhæð tekjuviðbótarinnar nam 684.500 kr. Í kæruúrskurði, dags. 22. október 1990, hélt skattstjóri fast við þessa niðurstöðu, að um skattskylda eignayfirfærslu hefði verið að ræða.

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 23. október 1990, fer umboðsmaður kæranda fram á, að tekjuviðbót skattstjóra verði felld niður, enda hafi ekki verið um neina skattskylda gjöf að ræða heldur hafi sonur kæranda aðstoðað hana við íbúðarkaupin og sú aðstoð endurgreidd af hálfu kæranda. Umboðsmaðurinn gerir nánari grein fyrir málsatvikum, þar á meðal skýrir hann rangan framtalshátt kæranda og sonar hennar vegna íbúðar þessarar og hversu miklu aðstoð sonarins hafi numið, er hafi verið mun minni en svaraði til verðmætis eignfærslu hlutdeildar í húseigninni hjá syninum. Þá gerir umboðsmaðurinn grein fyrir endurgreiðslu kæranda á framlagi sonarins til aðstoðar við íbúðarkaupin.

Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi, dags. 8. mars 1991, fallist á kröfu kæranda með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum.

Að virtum framkomnum skýringum og með vísan til kröfugerðar ríkisskattstjóra í máli þessu þykir mega taka kröfu kæranda til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja