Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 399/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. B-liður — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 2. og 4. ml. — 106. gr. 1. mgr.
Landbúnaður — Búrekstur — Heimanotaðar búsafurðir — Heimanot — Búfjárafurðir — Sláturkostnaður — Skattskyldar tekjur — Vantaldar tekjur — Frjósemisstuðull — Áætlun — Tekjuviðbót áætluð — Áætlun tekjuviðbótar — Síðbúin framtalsskil — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Skattframtal tekið sem kæra — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Skattframtal, vefenging — Skattframtal, tortryggilegt — Rökstuðningur — Rökstuðningur ákvarðana skattstjóra — Rannsóknarregla
Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1989. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 sætti kærandi því áætlun skattstjóra á gjaldstofnum. Við hina áætluðu gjaldstofna bætti skattstjóri 25% álagi samkvæmt heimildarákvæðum 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Skattframtal kæranda barst skattstjóra þann 20. júní 1989. Með kæruúrskurði, dagsettum 20. október 1989, féllst skattstjóri á að leggja hið innsenda framtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda, gjaldárið 1989, án álags, en að gerðum breytingum, meðal annars þeim, að kæranda voru áætlaðar til tekna, viðbótartekjur af sauðfé, 150.000 kr. Voru forsendur skattstjóra svohljóðandi:
„...en telja verður afar óeðlilegt, að 32 ær gefi af sér 24 lömb auk þess, sem fyrir liggur að þér hafið greitt sláturkostnað vegna heimtekins sauðfjár, sem hvergi er talið.“
Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 13. nóvember 1989, þar sem óskað er lækkunar á áætlun skattstjóra vegna viðbótartekna af sauðfé um 75.000 kr.
Með bréfi, dags. 31. janúar 1991, gerir ríkisskattstjóri svohljóðandi kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún er með öllu vanreifuð.“
Eigi þykja efni til annars en taka kröfu kæranda til greina, enda þykir tekjuviðbót skattstjóra ekki byggjast á ýkja traustum grunni.