Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 402/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl. — 51. gr. 1. mgr. 1. og 2. tl. og 2. mgr. — 96. gr. 1. og 4. mgr. — 100. gr. 5. mgr. Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða I
Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Vaxtafrádráttur — Vaxtaafsláttur — Greinargerð um vaxtagjöld — Kaupsamningur — Kaupverð, vísitölutryggt — Vísitölutryggt kaupverð — Verðtrygging — Verðtrygging kaupverðs — Vaxtauppgjör — Vaxtauppgjörsaðferð — Vaxtagjöld, áfallin — Áfallnir vextir — Vaxtatal, samræmi — Lántökukostnaður — Stimpilgjald — Þinglýsingargjald — Afföll — Endurákvörðun — Endurákvörðunarheimild skattstjóra — Endurákvörðun skattstjóra — Kröfugerð ríkisskattstjóra
Málavextir eru þeir, að í framtali sínu árið 1989 færðu kærendur sem vaxtagjöld vegna íbúðarkaupa í reit 87 959.730 kr., sbr. greinargerð um vaxtagjöld RSK 3.09, er fylgdi framtalinu. Meginhluti vaxtagjalda þessara var vegna skulda við A hf. eða alls 816.451 kr. Í framhaldi af bréfi sínu, dags. 15. desember 1989, og að fengnu svarbréfi kærenda, dags. 21. desember 1989, endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kærenda hinn 3. apríl 1990. Tilfærð vaxtagjöld 669.765 kr. af uppgreiddri skuld við A hf. lækkaði skattstjóri í 86.622 kr. til samræmis við tilgreind vaxtagjöld á innsendum kvittunum. Vísaði skattstjóri til þess, að um væri að ræða í þessum vaxtagjaldalið vísitöluhækkun umsamins kaupverðs, er ekki teldist vaxtagjöld, sbr. kaupsamning við A hf., dags. 10. september 1987, og ákvæði hans um verðtryggingu útborgunargreiðslna frá samningsdegi til greiðsludags. Þá taldi skattstjóri lántökukostnað 146.686 kr. vegna skuldabréfs 2.265.000 kr. ekki fá staðist. Næmi kostnaður þessi 6,476% af lánsfjárhæð. Væri kostnaður þessi lækkaður í 1,5% stimpilgjald eða 33.975 kr. og 600 kr. þinglýsingargjald eða alls 34.575 kr.
Af hálfu umboðsmanns kærenda var endurákvörðun skattstjóra mótmælt í kæru til skattstjóra, dags. 14. apríl 1990. Að því er varðar nefndan kostnað 146.686 kr. vegna skuldabréfalánsins vísaði umboðsmaðurinn til framlagðs ljósrits kvittunar, dags. 24. nóvember 1988. Þá mótmælti umboðsmaðurinn lækkun vaxtagjalda af uppgreiddri skuld við A hf. úr 669.765 kr. í 86.622 kr. Umboðsmaðurinn lagði fram útreikning á vaxtagjöldum til A hf. þannig úr garði gerðan, að frá heildargreiðslu til fyrirtækisins 5.469.765 kr. var dregið framreiknað kaupverð íbúðarinnar samkvæmt ákvæðum kaupsamnings. Námu þessar greiðslur framreiknaðar 5.058.581 kr. Frádráttarbær vaxtagjöld vegna skulda við A hf. næmu því 411.184 kr. Við þá fjárhæð yrði að bæta áföllnum vaxtagjöldum 1. nóvember - 31. desember 1988 vegna nefnds skuldabréfs eða 67.950 kr. Frádráttarbær vaxtagjöld vegna viðskipta við A hf. yrðu því 479.134 kr. samtals í stað 816.451 kr. Vaxtagjöld í reit 87 í framtali árið 1989 bæri því að lækka um 337.317 kr. eða í 622.413 kr. í stað 959.730 kr.
Með kæruúrskurði, dags. 9. júlí 1990, synjaði skattstjóri kærunni. Taldi skattstjóri greiðslur umfram eðlilegan lántökukostnað afföll. Þá teldust vísitöluhækkanir á útborgunargreiðslur af kaupverði frá samningsdegi til greiðsludags ekki vaxtagjöld í skilningi lagaákvæða þar um. Að því er varðar áfallna vexti benti skattstjóri á, að kærendur hefðu ekki reiknað áfallna vexti af öðrum skuldum sínum.
Af hálfu umboðsmanns kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 18. júlí 1990. Þess er krafist, að vaxtagjöld til frádráttar verði ákveðin alls 622.413 kr., sbr. kæru, dags. 14. apríl 1990, til skattstjóra. Því er mótmælt að í lántökukostnaði hafi verið fólgin afföll og rök færð fyrir því. Um greiðslur samkvæmt kaupsamningi segir svo í kærunni:
„Samkvæmt 4. gr. kaupsamnings milli umbjóðanda okkar og A h/f dags. 10.09.1987 bar að greiða kaupverð hinnar nýju íbúðar á 9 ákveðnum gjalddögum. Greiðslurnar skyldu verðbættar. Sbr. 4. mgr. 4. gr. kaupsamningsins skal kaupandi greiða hæstu lögleyfðu dráttarvexti er til vanskila kæmi og/eða seljanda er heimilt að láta verðtryggingu haldast á gjaldfallinni fjárhæð. Greiddar verðbætur eftir hina ákveðnu gjalddaga eru því í reynd dráttarvextir. Til þess að finna út hverjar séu raunverulegar vaxtagreiðslur umbjóðanda okkar til A h/f er því eðlilegast að beita þeirri aðferð sem fram er sett í bréfi B dags. 14. apríl 1990 sbr. ljósrit „L/2“.“
Af því er varðar vanreikning áfallinna vaxta á aðrar skuldir þá bar umboðsmaðurinn fyrir sig að þær væru óverulegar eða 239.755 kr. Hann gat þess, að áfallnir vextir væru tæplega 10.000 kr. pr. 31. desember 1988 af þessum skuldum.
Með bréfi, dags. 8. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri fallist á kröfu kærenda með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum.
Með vísan til málsgagna og skýringa kærenda og með skírskotun til kröfugerðar ríkisskattstjóra í máli þessu þykir mega taka kröfu kærenda til greina þó þannig að vegna nauðsynjar samræmis á vaxtatali kærenda þykir bera að reikna með í vaxtagjöldum áfallna vexti af öðrum skuldum kærenda en þeim, sem hafa verið í ágreiningi í máli þessu. Eftir öllum atvikum þykir í þeim efnum mega miða við þá fjárhæð, sem fram kemur í kæru eða 10.000 kr. Samkvæmt þessu verða vaxtagjöld í reit 87 í framtali árið 1989 632.413 kr.