Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 406/1991

Gjaldár 1984–1987

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl. — 51. gr. 2. mgr. — 96. gr. 1. og 4. mgr. — 97. gr. 2. mgr. — 100. gr. 3. mgr.  

Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Kaupsamningur — Afsal — Skuldabréf — Vaxtagjöld — Vaxtafrádráttur — Vaxtauppgjörsaðferð — Vaxtauppgjör — Vaxtagjöld, áfallin — Áfallnir vextir — Verðbætur, áfallnar — Áfallnar verðbætur — Endurákvörðun — Endurákvörðunarheimild skattstjóra — Endurákvörðun skattstjóra — Tímamörk endurákvörðunar — Sniðgöngusjónarmið — Rökstuðningur — Rökstuðningur kæru — Rökstuðningi kæru áfátt — Sönnun — Sönnunarbyrði — Frávísun — Vanreifun — Frávísun vegna vanreifunar

I.

Málavextir eru þeir, að í fylgiskjali með skattframtali sínu árið 1984 gerði kærandi grein fyrir kaupum á íbúð að B, af föður sínum, A. Kaupverðið var tilgreint 1.000.000 kr. þar af útborgun 440.000 kr. og eftirstöðvar með skuldabréfi útgefnu af kaupanda 560.000 kr. Dagsetning kaupsamnings var tilgreind 1. febrúar 1983. Útborgun á kaupári nam 150.000 kr. Í árslok 1983 færði kærandi því til skuldar við föður sinn vegna íbúðarkaupanna 850.000 kr. að viðbættum ógreiddum vöxtum 224.420 kr. er jafnframt voru gjaldfærðir sem frádráttarbær vaxtagjöld í reit 87 í framtalinu. Í skuldahlið framtals árið 1985 nam tilgreind skuld kæranda við föður sinn 704.000 kr. að viðbættum ógreiddum vöxtum 154.972 kr. er jafnframt voru færðir til frádráttar í reit 87. Heildarskuld við föður í framtali árið 1986 nam 1.126.956 kr. og vaxtagjöld til frádráttar í reit 87 270.905 kr. Í framtali árið 1987 nam skuldin alls 1.100.000 kr. og vaxtagjöld til frádráttar 168.893 kr. Við álagningu gjaldárin 1984-1987 féllst skattstjóri á frádráttarbærni vaxtagjalda af þessari skuld kæranda við föður sinn.

II.

Með bréfi, dags. 10. febrúar 1988, krafði skattstjóri kæranda um skuldabréf og staðfestar kvittanir fyrir vaxtagjöldum af skuld við A. Kvaðst skattstjóri hafa í hyggju að hafna útreikningi kæranda á áföllnum, reiknuðum vöxtum árin 1984-1987, þar sem sá útreikningur fengi ekki staðist miðað við ákvæði viðkomandi skuldabréfs. Tók skattstjóri fram, að óheimilt væri að færa til frádráttar sem vaxtagjöld áfallnar, ógreiddar verðbætur á höfuðstól, sbr. 2. mgr. 51. gr. laga nr. 75/1981. Var kæranda gefinn kostur á að leggja fram nýjan útreikning á áföllnum vöxtum. Í bréfi, dags. 5. mars 1988, gerði umboðsmaður kæranda grein fyrir útreikningi vaxtagjalda umrædd gjaldár, en umkrafin gögn voru ekki lögð fram. Hinn 28. mars 1988 felldi skattstjóri niður skuld kæranda við föður sinn á framtölum árin 1984-1987 að báðum árum meðtöldum svo og vaxtagjöld af henni og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárin 1984-1987 í samræmi við þær breytingar. Vísaði skattstjóri til þess, að umbeðin gögn hefðu ekki verið lögð fram.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var breytingum skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 12. apríl 1988. Sagði svo í kærunni: „Endurákvörðuninni var mótmælt sem löglausri, þar sem vaxtafrádráttur fullnægir að öllu leyti [ákvæðum] 30. gr. E-liðs 1. laga 75/1981, enda stafa þau af kaupum kæranda á íbúð eins og áskilið er í lögunum. Engu breytir í þessu sambandi þó að skuldabréf hafi enn ekki verið gefið út vegna erfiðleika kæranda á greiðslu. Virðist skattstjóri líta svo á að kaupin hafi ekki átt sér stað eða að kærandi hafi haft fjármagn til að staðgreiða íbúðarkaupin.“

Með kæruúrskurði, dags. 6. febrúar 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum, að kærandi hefði hvorki sannað né gert sennilegt, að henni væri hinn umdeildi vaxtagjaldafrádráttur heimill.

III.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 5. mars 1989. Þess er krafist, að breytingar skattstjóra verði felldar úr gildi og skattframtöl kæranda gjaldárin 1984-1987 verði lögð óbreytt til grundvallar álagningu. Umboðsmaðurinn ber fyrir sig, að heimild til endurákvörðunar gjaldárin 1984 og 1985 hafi ekki verið fyrir hendi vegna ákvæða 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981. Efnislega vísar hann til þess, að kaup á íbúðinni hafi farið fram og stofnast til skuldbindinga í því sambandi. Greiðsluerfiðleikar hefðu ekki leyst kæranda undan þeim skuldbindingum, þótt seljandi hafi samþykkt lengri greiðslufrest en um hafi verið samið í byrjun. Ekki verði fallist á, að nauðsynlegt hafi verið að ganga frá og þinglýsa skuldabréfi, enda séu munnlegir samningar jafngildir. Þá segir svo í kærulok: „Með kaupsamningi og þinglesnu afsali er sannað að umrædd kaup áttu sér stað.“

IV.

Með bréfi, dags. 25. september 1990, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

V.

Eins og atvikum í máli þessu var háttað verður ekki talið, að ákvæði 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, hafi staðið í vegi fyrir hinni kærðu endurákvörðun, en álíta verður, að umboðsmaður kæranda telji gjaldárin 1984-1986 falla hér undir, sbr. nefnt lagaákvæði og það, að endurákvörðunin fór fram 28. mars 1988. Þegar virt er samband lánardrottins og kæranda svo og það hversu gerningum um íbúðarkaupin hefur verið háttað svo sem því hefur verið lýst af hálfu kæranda, verður að krefjast rækilegra skýringa og sönnunarfærslu af hendi kæranda um hin umdeildu atriði. Ekki verður talið, að kærandi hafi með málatilbúnaði sínum sýnt fram á kröfur sínar. Tekið skal fram vegna niðurlags kærunnar, að hvorki kaupsamningur né afsal hafa verið lögð fram. Að svo vöxnu er kærunni vísað frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja