Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 408/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tl. — 91. gr. 1. mgr. — 96. gr. 1. og 3. mgr. — 116. gr.   Auglýsing um skattmat ríkisskattstjóra tekjuárið 1988, liður 3.1.0.  

Skattskyldar tekjur — Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Frádráttarheimild — Ökutækjaskýrsla — Greinargerð vinnuveitanda um ökutækjastyrk — Akstursdagbók — Akstur milli heimilis og vinnustaðar — Akstur í eigin þágu — Matsreglur ríkisskattstjóra — Skattmat ríkisskattstjóra — Fylgigögn skattframtals — Ökutækjakostnaður, hámark pr. ekinn kílómetra — Ökutækjastyrkur, uppgjörsaðferðir til skatts — Leiðrétting — Leiðrétting skattframtals — Meðferð skattstjóra á beiðni um leiðréttingu skattframtals — Leiðréttingarbeiðni skattaðila á framtali — Andmælareglan — Málsmeðferð áfátt — Skattframtal, vefenging — Skattframtal, ófullnægjandi — Meðalhófsreglan — Forsendur skattstjóra — Rangar forsendur skattstjóra — Fyrirspurnarskylda — Fyrirspurn skattstjóra — Sjónarmið, sem stjórnvaldsákvörðun er byggð á — Ólögmæt sjónarmið — Kærumeðferð skattstjóra

I.

Málavextir eru þeir, að kærandi, sem er hafnarstjóri hjá X, fékk greiddan ökutækjastyrk að fjárhæð 122.178 kr. frá bæjarfélaginu, er hann færði sér til tekna í reit 22 í skattframtali sínu árið 1989. Ekki færði hann neinn kostnað til frádráttar á móti ökutækjastyrknum í reit 32. Hinn 6. mars 1989 sendi kærandi skattstjóra ökutækjaskýrslu RSK 3.04. Var þar gerð grein fyrir ökutækjastyrk, ökutækjarekstri og rekstrarkostnaði bifreiða. Samkvæmt þessari skýrslu kæranda nam heildarakstur 15.200 km, þar af akstur í þágu vinnuveitanda 10.950 km. Akstur til og frá vinnu var talinn 4.250 km en enginn annar akstur í eigin þágu var tilgreindur. Heildarbifreiðakostnaður var talinn 264.081 kr. eða 17,37 kr. pr. km, en hámarksfjárhæð samkvæmt mati ríkisskattstjóra nam 16,38 kr. pr. ekinn kílómetra. Samkvæmt þessari niðurstöðu hefði ekkert af fengnum ökutækjastyrk reiknast kæranda til skattlagningar.

Við álagningu opinberra gjalda var ekki tekið tillit til neins frádráttar á móti ökutækjastyrk kæranda. Í kæru, dags. 24. ágúst 1989, fór kærandi fram á, að kostnaður á móti ökutækjastyrk samkvæmt ökutækjaskýrslu RSK 3.04 yrði færður á framtal og opinber gjöld endurreiknuð í samræmi við það. Með bréfi, dags. 13. október 1989, krafði skattstjóri kæranda um akstursdagbók eða sambærileg gögn til staðfestingar á akstri fyrir X árið 1988. Í svarbréfi, dags. 20. október 1989, kvaðst kærandi ekki hafa umrædd gögn undir höndum. Hins vegar hefði X gefið starfsmönnum sínum þær upplýsingar á sínum tíma, að þeir gætu valið á milli þess að færa akstursdagbók eða fylla út rekstrarkostnaðarskýrslu og hefði hann valið þann kost. Þá gerði kærandi nokkra grein fyrir akstursþörfum vegna rækslu starfs síns. Með kæruúrskurði, dags. 13. nóvember 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda með öllu á þeim forsendum, að hann hafi ekki getað sýnt fram á, hve akstur fyrir vinnuveitanda hefði verið mikill og þar af leiðandi hlyti kostnaður til frádráttar að vera ósannaður.

II.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 11. desember 1989, og krefst hann þess, að kostnaður til frádráttar á móti ökutækjastyrk verði leyfður í samræmi við ökutækjaskýrslu, þ.e. 122.718 kr. eða fjárhæð jafnhá styrknum. Gerð er nokkur grein fyrir akstursþörfum í starfi. Svofelldan rökstuðning er að finna í kærunni:

„Umbjóðandi minn hefur skilað inn yfirliti um rekstur bifreiðar á eyðublaði RSK 3.04 og koma þar fram kostnaðarliðir auk þess sem hann telur 10.950 km ekna í þágu launagreiðanda. Með líkum hætti kveðst hann hafa gert grein fyrir akstri sínum áður án andmæla.

Í úrskurði skattstjóra, sem áður er getið, telur hann ekki sýnt fram á þennan akstur án þess þó að hann telji þarna um ranga uppgjöf km að ræða heldur virðist hann eingöngu miða við „akstursdagbók eða sambærileg gögn“, eins og segir í bréfi hans dags. 13.10. 1989.

Í 30. gr. 1. mgr. A, 1. tl. laga nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt felst heimildin til frádráttar kostnaðar v/ökutækjastyrks og auk þess hafa framteljendur til hliðsjónar leiðbeiningar, sem gefnar eru árlega út af ríkisskattstjóra um útfyllingu skattframtala og annarra eyðublaða.

Í leiðbeiningum útg. fyrir framtalsárið 1988, en það var fyrsta ár sem staðgreiðsla gilti, er ekki að sjá neinar breytingar frá áður gildandi reglum og heldur ekki í leiðbeiningum fyrir framtalsárið 1989.

Er staðgreiðsla skyldi upptekin var athugað af hálfu X, hvernig fara skyldi með ökutækjastyrki, þ.e. hvort greiða ætti af þeim staðgreiðslufé eða ekki.

Var þá gefin út sú yfirlýsing, m.a. að höfðu samráði við löggilta endurskoðendur X, að um tvær leiðir væri að velja:

a) Halda akstursdagbók og yrði þá ekki greidd staðgreiðsla af því fé sem svaraði til kostnaðar á móti ökutækjastyrk.

b) Greiða að fullu staðgreiðslu af ökutækjastyrk, en skila inn eyðublaði RSK 3.04 og fá þá endurgreitt í samræmi við kostnað.

Niðurstaða bæjarstarfsmanna varð sú undantekningalaust, eða svo til, að beita síðari aðferðinni og slíkt gerði umbjóðandi minn, eins og hann getur um í bréfi sínu til skattstjóra dags. 20. október 1989.

Má segja að menn hafi kosið slíkt fyrir sakir þæginda og minna umstangs.

Þess ber einnig að geta að að baki ákvörðun um greiðslu ökutækjastyrks til starfsmanna í upphafi liggur könnun, sem gerð er um notkun og við hana miðað, er mánaðarlegur kílómetrafjöldi er fundinn.

Enn má benda á að (X) telur sig hafa hag af því að greiða ýmsum starfsmönnum ökutækjastyrk og af hans hálfu er litið svo á, að ekki sé endilega rétt að miða eingöngu við km fjölda, heldur er tekið tillit til þess, að viðkomandi starfsmenn binda bifreið sína með því að hafa hana tiltæka í þágu starfsins.

Af öllu framansögðu verður ekki séð, að umbjóðandi minn hafi staðið ranglega að málum, hann hafi með fullum rétti skilað gögnum sem fyrr, þörf hans fyrir bifreið í starfi í þágu vinnuveitanda sé enn til staðar og krafa hans til viðurkenningar á kostnaði móti ökutækjastyrk í senn sanngjörn og réttmæt, enda ekkert komið fram um að upphæðin sé úr hófi há.

Verður því að vænta þess, að krafa hans verði tekin til greina.“

III.

Með bréfi, dags. 14. nóvember 1990, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur þar sem kærandi hefur ekki lagt fram akstursdagbók eða sambærileg gögn til staðfestingar á akstri fyrir vinnuveitanda sinn.“

IV.

Kærandi sendi ökutækjaskýrslu RSK 3.04 í framhaldi af skattframtali sínu, þar sem fram kemur tilgreining kostnaðar á móti ökutækjastyrk í reit 32 í framtalinu að fjárhæð 122.718 kr. Bar skattstjóra að taka ökutækjaskýrslu þessa sem leiðréttingarbeiðni á framtalinu en ekki sem kæru eins og hann gerði. Skattstjóri hefur áður talið, að starfi kæranda fylgdu akstursþarfir. Fær það því ekki staðist af skattstjóra hálfu að telja nú, að engar akstursnauðsynjar fylgdu starfinu og láta við slíka niðurstöðu sitja. Verður ekki hjá því komist, að telja skattstjóra hafa farið offari í efnishlið málsins auk rangrar málsmeðferðar. Skattstjóri virðist byggja niðurstöðu sína á vefengingu á akstursskiptingu kæranda og krafði kæranda um akstursdagbók eða sambærileg gögn í þessu sambandi. Hvorki kemur fram af hálfu skattstjóra né ríkisskattstjóra við hvaða sambærileg gögn er átt í þessum efnum. Ef átt er við greinargerð vinnuveitanda bar að tilgreina það. Eins og m.a. kemur fram í kæru er kærandi ekki skyldur til þess að halda akstursdagbók og hefur valið annan kost í þessum efnum, sbr. reglur ríkisskattstjóra sjálfs þar um. Að sönnu gaf ökutækjaskýrsla kæranda tilefni til skýringa af hans hálfu á akstri í eigin þágu. Varðandi áhrif þessa á frádráttarbærni er þó til þess að líta, að töluverð lækkun tilgreindra ekinna kílómetra í þágu vinnuveitanda hefði þó ekki lækkað frádráttarbæran kostnað. Að öllu virtu sem hér hefur verið rakið verður krafa kæranda tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja