Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tvísköttunarsamningur
  • Frádráttaraðferð
  • Lækkunarheimild vegna tvísköttunar

Úrskurður nr. 114/2020

Gjaldár 2015

Lög nr. 90/2003, 1. gr., 30. gr., 97. gr. 1. mgr., 119. gr. 5. mgr.   Lög nr. 37/1993, 12. gr.   Tvísköttunarsamningur við Bandaríkin, 2. gr., 14. gr., 22. gr.  

Kærandi, sem bar ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi, hafði launatekjur frá Bandaríkjunum sem skattlagðar voru þar í landi. Í úrskurði yfirskattanefndar var fjallað um útreikning álagningar kæranda með tilliti til ákvæða tvísköttunarsamnings við Bandaríkin. Fallist var á með ríkisskattstjóra að ekki væri grundvöllur fyrir frádrætti vegna álagðs tekjuskatts í Kaliforníu á grundvelli tvísköttunarsamningsins þar sem samningurinn tæki eingöngu til alríkistekjuskatta, en ekki skatta sem lagðir væru á í einstökum ríkjum Bandaríkjanna. Þar sem yfirskattanefnd taldi verða að líta svo á að af hálfu kæranda væri höfð uppi krafa um að ríkisskattstjóri beitti lækkunarheimild sinni samkvæmt 5. mgr. 119. gr. laga nr. 90/2003 vegna þeirra skattgreiðslna, sem ríkisskattstjóri hefði ekki tekið afstöðu til, var sá þáttur kærunnar sendur ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs úrskurðar. Að öðru leyti var kröfum kæranda hafnað.

Ár 2020, miðvikudaginn 30. september, er tekið fyrir mál nr. 83/2020; kæra A, dags. 25. maí 2020, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2015. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 25. maí 2020, lýtur að úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 16. apríl 2020, um endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2015. Með úrskurði þessum færði ríkisskattstjóri kæranda til tekna meintar vantaldar launatekjur frá L í Bandaríkjunum tekjuárið 2014 að fjárhæð samtals 12.607.528 kr., sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Við endurákvörðun sína tók ríkisskattstjóri tillit til greiddra skatta í Bandaríkjunum að fjárhæð 1.133.369 kr., sbr. 14. og 22. gr. tvísköttunarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna.

Kærandi krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur niður, enda sé langur tími liðinn frá því að teknanna var aflað auk þess sem kærandi hafi verið í góðri trú um að öllum skyldum hafi verið fullnægt með greiðslu skatta erlendis af tekjunum. Til vara fer kærandi fram á lækkun erlendra launatekna úr 12.607.528 kr. í 8.863.018 kr., en ríkisskattstjóri hafi miðað við ranga fjárhæð við ákvörðun teknanna. Þá krefst kærandi lækkunar vegna greiðslu skatta að fjárhæð 1.133.369 kr. og greiðslu til Franchise Tax Board að fjárhæð 1.569.666 kr. Ennfremur krefst kærandi þess að tekið verði tillit til persónuafsláttar og loks að álögð opinber gjöld verði innheimt að jöfnu hjá honum og fyrrverandi eiginkonu hans, enda hafi þau verið samsköttuð á greindum tíma.

II.

Málavextir eru þeir að kærandi og B, sem voru í hjúskap á árinu 2014, stóðu skil á sameiginlegu skattframtali árið 2015. Samkvæmt skattframtalinu hafði kærandi engar launatekjur eða aðrar starfstengdar greiðslur á árinu 2014. Lagt var á skattframtal kæranda og B óbreytt og voru þeim ákvarðaðar barnabætur að fjárhæð 97.041 kr. og vaxtabætur að fjárhæð 300.000 kr. hvoru um sig.

Með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 7. febrúar 2019, sem ítrekað var með bréfi, dags. 29. mars 2019, var lagt fyrir kæranda að gera grein fyrir greiðslum frá útlöndum inn á innlendan bankareikning hans á árinu 2014, samtals að fjárhæð 8.975.140 kr. Í bréfinu kom fram að af skoðun skattframtals kæranda árið 2015 væri ekki unnt að átta sig á því hvert tilefni hinna erlendu innborgana gæti hafa verið. Tók ríkisskattstjóri fram að skýringar kæranda þyrftu að vera studdar viðeigandi gögnum. Engin svör bárust við framangreindum bréfum ríkisskattstjóra og með bréfi, dags. 23. maí 2019, boðaði ríkisskattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda hans gjaldárið 2015 vegna tekna frá útlöndum á árinu 2014. Tók ríkisskattstjóri fram að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hefðu greiðslur inn á bankareikning kæranda hér á landi verið inntar af hendi af L sem væri bandarískt fyrirtæki. Vegna svarleysis yrði að draga þá ályktun að kærandi hefði starfað erlendis á vegum fyrirtækisins og að rekja mætti greiðslurnar til þeirra starfa. Hefðu greiðslurnar numið alls 8.975.140 kr. á árinu 2014, en ekki hefði verið gerð grein fyrir þeim í skattframtali kæranda árið 2015. Að framangreindu virtu yrði ekki annað séð en að hækka þyrfti stofn kæranda til tekjuskatts og útsvars um umrædda fjárhæð í skattframtali kæranda árið 2015, enda yrði ekki annað séð en að um væri að ræða vantaldar skattskyldar launatekjur, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Myndu skattskyld laun kæranda því hækka úr 0 kr. í 8.975.140 kr. og stofn kæranda til tekjuskatts og útsvars um sömu fjárhæð. Af þessu leiddi að áður ákvarðaðar vaxtabætur kæranda og maka hans myndu lækka um 124.583 kr. og barnabætur um 97.041 kr. hjá hvoru um sig, sbr. 4. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003. Þá boðaði ríkisskattstjóri beitingu 25% álags á vantalda skattstofna, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, en vantaldar tekjur teldust verulegur annmarki á framtalsgerð. Var kæranda veittur 20 daga frestur frá póstlagningardegi boðunarbréfsins til þess að koma að athugasemdum við hinar boðuðu breytingar.

Engar athugasemdir bárust frá kæranda og með úrskurði, dags. 20. júní 2019, hratt ríkisskattstjóri boðuðum breytingum í framkvæmd og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda til samræmis að viðbættu 25% álagi.

Með tölvupósti til ríkisskattstjóra, dags. 26. júní 2019, greindi B frá því að henni hefði borist úrskurður ríkisskattstjóra, dags. 20. júní 2019, í máli kæranda vegna gjaldárs 2015. Óskaði hún eftir skýringum á umræddum úrskurði og að hún yrði upplýst um öll gögn og samskiptasögu við kæranda sem úrskurðurinn byggði á. Tók B fram að hún og kærandi væru skilin og að engin samskipti væru þeirra í millum. Kæmi úrskurðurinn henni mjög á óvart, en rétt hefði verið að ríkisskattstjóri upplýsti hana um málið á fyrri stigum. Benti B á að hún hefði það eftir kæranda að hann hefði sent starfsmanni ríkisskattstjóra tölvupóst 29. maí 2019 með skattskýrslu vegna tekna hans í Bandaríkjunum árið 2014, sem væri meðfylgjandi. Fór B fram á frekari skýringar á úrskurði ríkisskattstjóra.

Með bréfi, dags. 2. júlí 2019, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda að úrskurður hans um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2015, dags. 20. júní 2019, hefði verið afturkallaður og felldur úr gildi. Væri ástæða afturköllunarinnar sú að ekki hefði verið tekið tillit til framlagðra gagna 29. maí 2019. Var B jafnframt tilkynnt um afturköllun og niðurfellingu úrskurðar embættisins um endurákvörðun opinberra gjalda hennar.

Með bréfi, dags. 27. september 2019, boðaði ríkisskattstjóri kæranda að nýju endurákvörðun opinberra gjalda hans gjaldárið 2015. Í bréfinu rakti ríkisskattstjóri málavexti og gerði grein fyrir bréfaskiptum í málinu. Þá gerði hann grein fyrir helstu réttarheimildum málsins sem væru 1. tölul. 1. mgr. 1. gr., 7. gr. og 96. gr. laga nr. 90/2003. Ennfremur gerði hann grein fyrir efni 14. gr. og 22. gr. tvísköttunarsamnings Íslands og Bandaríkjanna. Tók ríkisskattstjóri fram að málið varðaði réttmæti skattframtals kæranda árið 2015 vegna tekna hans frá bandarísku fyrirtæki árið 2014. Samkvæmt upplýsingum í þjóðskrá hefði kærandi verið skráður til heimilis á Íslandi á árinu 2014. Í 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003 væri mælt fyrir um skyldu þeirra manna sem heimilisfastir væru hér á landi til að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum, hvar sem þeirra væri aflað. Samkvæmt 14. gr. tvísköttunarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna væri Bandaríkjunum heimilt að skattleggja tekjur manns sem væri með heimilisfesti á Íslandi í Bandaríkjunum væri starf hans leyst af hendi þar. Hinn 29. maí 2019 hefði kærandi lagt fram bandarískt skattframtal. Samkvæmt því hefði kærandi haft tekjur að fjárhæð 108.247 USD á árinu 2014 og hefði hann greitt af þeim tekjum skatta í Bandaríkjunum að fjárhæð 9.731 USD. Við uppreikning umræddra fjárhæða bæri að miða við meðalkaupgengi ársins 2014 sem hefði numið 116,47 kr. Hefðu hinar erlendu greiðslur því numið alls 12.607.528 kr. (108.247 x 116,47) og greiddir skattar í Bandaríkjunum 1.133.369 kr. (9.731 x 116,47). Vísaði ríkisskattstjóri til þess að í a-lið 3. mgr. 22. gr. tvísköttunarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna kæmi fram að hefði aðili heimilisfastur á Íslandi tekjur sem skattleggja mætti í Bandaríkjunum samkvæmt ákvæðum samningsins skyldi Ísland heimila að fjárhæð þess tekjuskatts sem greiddur hefði verið í Bandaríkjunum væri dreginn frá tekjuskatti þess aðila. Í c-lið ákvæðisins kæmi fram að Íslandi væri heimilt að draga frá tekjuskatt sem Bandaríkin hefðu lagt á frá íslenskum tekjuskatti. Tók ríkisskattstjóri fram að með vísan til framangreinds væri íslenska ríkinu heimilt að daga fjárhæð þess tekjuskatts sem greiddur hefði verið í Bandaríkjunum frá íslenskum tekjuskatti.

Með hliðsjón af framansögðu yrði ekki annað séð en að hækka þyrfti stofn kæranda til tekjuskatts og útsvars í skattframtali kæranda árið 2015 um samtals 12.607.528 kr. þar sem ekki yrði annað séð en að um vanframtaldar skattskyldar launatekjur hefði verið að ræða, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. sömu laga. Við þá skattlagningu þyrfti þó að taka mið af greiddum skatti í Bandaríkjunum samtals að fjárhæð 1.133.369 kr. og beita svokallaðri frádráttaraðferð, sbr. ákvæði 14. og 22. gr. tvísköttunarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna. Álagður tekjuskattur myndi hækka um 1.692.095 kr. og útsvar um 1.331.509 kr. Tæki hækkun þessi mið af framangreindum skattgreiðslum erlendis. Afleiddar breytingar yrðu þær að ákvarðaðar vaxtabætur kæranda og fyrrum maka hans myndu lækka um 284.105 kr. hjá hvoru um sig og ákvarðaðar barnabætur lækka um 97.041 kr. hjá hvoru um sig.

Með bréfi, dagsettu sama dag, boðaði ríkisskattstjóri B, fyrrum maka kæranda, með sama hætti endurákvörðun opinberra gjalda hennar gjaldárið 2015, en af breytingum á skattframtali kæranda myndi leiða að ákvarðaðar barnabætur hennar myndu lækka um 97.041 kr. og vaxtabætur um 284.105 kr.

Með bréfi, dags. 24. nóvember 2019, kom kærandi að athugasemdum við boðaðar breytingar. Benti kærandi í fyrsta lagi á að í boðunarbréfi sínu byggði ríkisskattstjóri á röngum fjárhæðum. Eins og sjá mætti af innsendum gögnum hefðu skattskyldar tekjur kæranda einungis numið 76.097 USD sem gerði 8.863.018 kr. miðað við meðalgengi ársins 116,47 kr., en ekki 108.247 USD eða 12.607.528 kr. eins og ríkisskattstjóri byggði á. Tók kærandi fram að bandarík skattyfirvöld litu á skattskyldar tekjur sem tekjuskattsstofn (e. taxable income) og bæri að miða við þá tölu í útreikningi íslenskra skattyfirvalda. Í öðru lagi hefði greiddur skattur af umræddum tekjum verið 9.731 USD sem á meðalgengi ársins 116,47 kr. gerði 1.133.369 kr. Því til viðbótar hefði kærandi greitt 3.746 USD til Franchise Tax Board sem á meðalgengi ársins næmi 436.297 kr. Fór kærandi fram á að tekið yrði tillit til framangreinds við endurákvörðun opinberra gjalda hans. Í þriðja lagi bæri ríkisskattstjóra að taka tillit til persónuafsláttar.

Með bréfi, dags. 13. janúar 2020, gerði B einnig athugasemdir við hinar boðuðu breytingar.

Með úrskurði, dags. 16. apríl 2020, hratt ríkisskattstjóri boðuðum breytingum í framkvæmd og endurákvarðaði opinber gjöld kæranda til samræmis. Í úrskurðinum tók ríkisskattstjóri afstöðu til athugasemda kæranda og B, en taldi ekkert hafa komið fram sem kallaði á að falla bæri frá boðaðri endurákvörðun. Vegna athugasemda kæranda rakti ríkisskattstjóri að í b-lið 3. mgr. 2. gr. tvísköttunarsamnings Íslands og Bandaríkjanna væri að finna tæmandi upptalningu á þeim sköttum sem samningurinn tæki til. Kæmi þar fram að íslenska ríkinu bæri að taka tillit til alríkistekjuskatta sem lagðir væru á samkvæmt lögum Bandaríkjanna um tekjuskatt (e. the Federal income taxes imposed by the Internal Revenue Code). Þá kæmi einnig fram að íslenska ríkinu bæri að taka tillit til alríkisvörugjalda sem lögð væru á að því er við kemur einkasjóðsstofnunum (e. the Federal excise taxes imposed with respect to private foundations). Í 2. gr. samningsins kæmi hvergi fram að heimilt væri að draga „Franchise Board Tax“ frá reiknuðum sköttum á Íslandi. Greiðsla kæranda á „Franchise Board Tax“ veitti kæranda því enga lausn frá skattlagningu á Íslandi á grundvelli tvísköttunarsamningsins. Þá væri ekki hægt að fallast á með kæranda að rétt væri að miða við „taxable income“ í stað „adjusted gross income“, enda leystu sérreglur í Bandaríkjunum kæranda ekki undan skattlagningu hér á landi nema slíkt kæmi fram í tvísköttunarsamningi ríkjanna.

III.

Í kafla I hér að framan er gerð grein fyrir kröfugerð kæranda samkvæmt kæru hans til yfirskattanefndar. Kærandi krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur niður, enda sé langur tími liðinn frá því að teknanna var aflað auk þess sem kærandi hafi verið í góðri trú um að öllum skyldum hafi verið fullnægt með greiðslu skatta erlendis. Til stuðnings aðalkröfu sinni vísar kærandi til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og til ástands í þjóðfélaginu vegna kórónuveirufaraldurs. Um kröfugerð kæranda vísast til kafla I hér að framan.

IV.

Með bréfi, dags. 10. júlí 2020, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og gert þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Vegna aðalkröfu kæranda tekur ríkisskattstjóri fram að embættið telji sig hafa unnið innan þeirra tímamarka sem kveðið sé á um í 1. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 hvað endurákvörðun skatta varði. Frumálagning opinberra gjalda samkvæmt 95. gr. laga nr. 90/2003 sé ekki endanleg og sé ríkisskattstjóra heimilt innan þeirra tímamarka sem greinir í 1. mgr. 97. gr. sömu laga að taka álagningu til nýrrar meðferðar á grundvelli 1. og 2. mgr. 96. gr. sömu laga komi á einhverjum tímapunkti fram nýjar upplýsingar eða annað tilefni. Í tilviki kæranda hafi ríkisskattstjóri metið það svo að afla þyrfti upplýsinga og gagna í málinu umfram þær upplýsingar sem finna mátti í skattframtölum kæranda um hinar erlendur greiðslur á innlendan bankareikning kæranda. Að mati ríkisskattstjóra verði ekki séð að upplýsingar í skattframtölum kæranda hafi skorið úr um nein þau atriði sem hér skipti máli. Þá verði ekki séð að ríkisskattstjóri hafi á fyrri stigum tekið greiðslur þær sem hér séu til skoðunar til sérstakrar úrlausnar umfram frumálagningu opinberra gjalda samkvæmt 95. gr. laga nr. 90/2003.

Í þessu ljósi verði ekki séð að hægt sé að verða við kröfu kæranda um að mál hans verði látið niður falla. Jafnframt með vísan til framangreinds verði ekki séð hvernig Covid-ástand víki til hliðar greindum heimildum ríkisskattstjóra í tilviki kæranda eða að það ástand geti hafa haft einhver áhrif á skattskil kæranda árið 2015. Eftir því sem næst verði komist hafi kærandi fengið þann persónuafslátt sem hann hafi átt rétt á gjaldárið 2015 við hina kærðu endurákvörðun ríkisskattstjóra. Þá er bent á að endurákvörðun opinberra gjalda kæranda hafi snúið að vanframtöldum tekjum kæranda, en ekki fyrrum eiginkonu hans. Um ábyrgð hjóna á greiðslu skatta sem á þau séu lögð sé vísað til 116. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 6. mgr. sömu lagagreinar.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 14. júlí 2020, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Kærandi var búsettur hér á landi á árinu 2014 og bar hér ótakmarkaða skattskyldu samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 19. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Í því felst að kæranda var skylt að greiða tekjuskatt og útsvar af öllum tekjum sínum á árinu 2014 hvar sem þeirra var aflað, þar með töldum umræddum launatekjum frá Bandaríkjunum, sbr. ákvæði 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Er ekki ágreiningur um þetta í málinu. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra bar við álagningu á kæranda að gæta ákvæða tvísköttunarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna, sbr. auglýsingu nr. 8, 17. desember 2008, um tvísköttunarsamning við Bandaríkin, sem birtir samning þennan sem fylgiskjal. Í úrskurði sínum lagði ríkisskattstjóri til grundvallar að kærandi hefði innt starf sitt af hendi í Bandaríkjunum, svo sem ekki er deilt um, og að Bandaríkjunum hafi því verið heimilt að skattleggja umræddar launatekjur samkvæmt 14. gr. tvísköttunarsamningsins. Um lausn undan tvísköttun færi eftir ákvæðum 22. gr. samningsins. Tók ríkisskattstjóri tillit til fyrirliggjandi upplýsinga um skattgreiðslur kæranda í Bandaríkjunum að fjárhæð 9.731 USD eða 1.133.369 kr. og dró þá fjárhæð frá reiknuðum tekjuskatti og útsvari kæranda, sbr. a-lið 3. mgr. 22. gr. samningsins.

Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra um endurákvörðun opinberra gjalda hans gjaldárið 2015 verði felldur úr gildi, enda sé langur tími liðinn frá því hinna erlendu tekna var aflað auk þess sem kærandi hafi verið í góðri trú um að öllum skyldum væri fullnægt með greiðslu skatta af tekjunum erlendis. Til stuðnings kröfu sinni vísar kærandi m.a. til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Vegna þessara athugasemda kæranda skal tekið fram að samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 nær heimild ríkisskattstjóra til endurákvörðunar skatts samkvæmt 96. gr. laganna til skatts vegna tekna og eigna síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram. Var þessara ákvæða gætt við endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2015. Að því leyti sem byggt er á því af hálfu kæranda að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal tekið fram að ekki verður séð að meðalhófsregla geti átt hér við, enda er einungis um að ræða úrlausn ágreiningsefna á grundvelli gildandi réttarreglna. Verður hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra ekki felldur úr gildi á þeim forsendum sem hér um ræðir.

Af hálfu kæranda er höfð uppi varakrafa þess efnis að hinar erlendu launatekjur hans lækki úr 12.607.528 kr. í 8.863.018 kr. Byggir kærandi þessa kröfu á því að samkvæmt bandarísku skattframtali hans fyrir árið 2014 hafi skattskyldar tekjur aðeins numið 76.097 USD eða 8.863.018 kr. miðað við meðalkaupgengi bandaríkjadals á árinu 2014. Kemur fram í kæru að bandarísk skattyfirvöld miði skattskyldar tekjur við tekjuskattsstofn og beri að taka mið af því. Þá er byggt á því í kærunni að skattgreiðslur kæranda í Bandaríkjunum hafi numið hærri fjárhæð en ríkisskattstjóri miði við eða alls 13.477 USD að teknu tilliti til greiðslna til Franchise Tax Board að fjárhæð 3.746 USD. Í niðurlagi kærunnar er þess loks krafist að við álagningu skuli tekið tillit til persónuafsláttar og að skattar verði innheimtir af kæranda og fyrrverandi eiginkonu hans til jafns þar sem þau hafi verið samsköttuð á greindum tíma.

Vegna síðastnefndra krafna kæranda er ástæða til að taka fram að kæranda hefur verið ákvarðaður fullur persónuafsláttur til frádráttar reiknuðum tekjuskatti og útsvari af heildartekjum, sbr. 1. mgr. 66. gr. og A-lið 67. gr. laga nr. 90/2003. Að því er snertir kröfu kæranda er varðar innheimtu skatta er til þess að líta að samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 90/2003 skulu skattar sem álagðir eru samkvæmt lögunum renna í ríkissjóð og annast innheimtumenn ríkissjóðs innheimtu þeirra. Innheimtumenn ríkissjóðs eru ríkisskattstjóri í umdæmi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu en sýslumenn í öðrum umdæmum, sbr. nú 2. mgr. 3. gr. laga nr. 150/2019, um innheimtu opinberra skatta og gjalda. Samkvæmt framansögðu falla ágreiningsefni sem varða innheimtu opinberra gjalda, þ.m.t. ábyrgð á skattgreiðslum, ekki undir kærumeðferð þá sem kveðið er á um í 100. gr. laga nr. 90/2003 og lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Með vísan til framanritaðs er greindum kröfum kæranda vísað frá yfirskattanefnd.

Við meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra lagði kærandi fram gögn um skattgreiðslur í Bandaríkjunum. Er þar m.a. um að ræða „IRS e-file Signature Authorization, Form 8879“ vegna tekjuársins 2014. Samkvæmt hinum innsendu gögnum námu heildartekjur kæranda í Bandaríkjunum 108.247 USD. Að teknu tilliti til tiltekinna frádráttarliða námu skattskyldar tekjur kæranda 76.097 USD. Þá kom fram að heildarskattur („Total tax“) næmi 9.731 USD. Ennfremur fylgdi ljósrit þar sem tilgreind er skuld við Franchise Tax Board að fjárhæð 3.746 USD, en eftir því sem næst verður komist er þar um að ræða ljósrit úr skattframtali sem kærandi mun hafa staðið skil á í Kaliforníu („Form 540 C1“).

Samkvæmt framansögðu verður að leggja til grundvallar að heildarlaun kæranda vegna starfa í Bandaríkjunum á árinu 2014 hafi numið 108.247 USD. Vegna tilvísunar í kæru til skattstofns („taxable income“) samkvæmt bandarísku skattframtali kæranda, sbr. tilgreinda frádráttarliði í línu 40 og 42 í skattframtalinu, skal tekið fram að um frádrátt frá launatekjum kæranda við skattlagningu á Íslandi fer eftir ákvæðum 30. gr. laga nr. 90/2003, sbr. ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 61. gr. sömu laga. Við álagningu á kæranda hér á landi verður því ekki tekið tillit til skattafsláttar sem kærandi kann að hafa notið í Bandaríkjunum á grundvelli þarlendra laga. Verður því ekki fallist á kröfu kæranda um lækkun tekjufærðra launa úr 108.247 USD í 76.097 USD.

Þá hefur kærandi krafist þess að við skattlagninguna verði tekið tillit til greiðslu til Franchise Tax Board að fjárhæð 3.476 USD, sbr. hér að framan. Í hinum kærða úrskurði hafnaði ríkisskattstjóri þeirri kröfu kæranda með þeim rökum að greiðslan félli ekki undir gildissvið tvísköttunarsamnings Íslands og Bandaríkjanna, sbr. ákvæði b-liðar 3. mgr. 2. gr. samningsins sem ríkisskattstjóri vísaði til í þessu sambandi. Í 2. gr. tvísköttunarsamningsins eru afmarkaðir þeir skattar sem samningurinn tekur til, en að því er Bandaríkin varðar tekur samningurinn til alríkistekjuskatta, sem lagðir eru á samkvæmt lögum Bandaríkjanna um tekjuskatt (Internal Revenue Code), og til allra skatta, sömu eða að verulegu leyti svipaðrar tegundar, sem lagðir eru á eftir undirritunardag samningsins til viðbótar við eða í staðinn fyrir gildandi skatta, sbr. nánari ákvæði í b-lið 3. mgr. og 4. mgr. 2. gr. samningsins. Ekki vék ríkisskattstjóri frekar að eðli þeirrar greiðslu sem um ræðir í úrskurðinum.

Af gögnum málsins, sbr. hér að framan, verður frekast ráðið að greiðsla kæranda til Franchise Tax Board sé til komin vegna álagðs tekjuskatts í Kaliforníuríki vegna ársins 2014. Þar sem greindur tvísköttunarsamningur Íslands og Bandaríkjanna tekur eingöngu til alríkistekjuskatta, en ekki skatta sem lagðir eru á í einstökum ríkjum Bandaríkjanna, má fallast á með ríkisskattstjóra að ekki sé grundvöllur fyrir umkröfðum frádrætti á grundvelli ákvæða samningsins. Á hinn bóginn verður ekki séð að ríkisskattstjóri hafi dregið í efa að um skatt af hinum umdeildu launatekjum kæranda hafi verið að ræða. Í 5. mgr. 119. gr. laga nr. 90/2003 kemur fram að sé eigi fyrir hendi samningur við annað ríki um að komast hjá tvísköttun á tekjur samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar og skattaðili, sem skattskyldur er hér á landi samkvæmt 1. og 2. gr., greiðir til opinberra aðila í öðru ríki skatta af tekjum sínum, sem skattskyldar eru hér á landi, sé ríkisskattstjóra heimilt samkvæmt umsókn skattaðila að lækka tekjuskatt hans hér á landi með hliðsjón af þessum skattgreiðslum hans. Miðað við málatilbúnað kæranda verður að telja að af hans hálfu sé höfð uppi krafa í málinu um að ríkisskattstjóri beiti þessari heimild sinni vegna skattgreiðslna kæranda í Kaliforníu á árinu 2014. Með hinum kærða úrskurði sínum tók ríkisskattstjóri enga afstöðu til kröfu kæranda á þessum grundvelli. Ástæða er til að taka fram að af úrskurðaframkvæmd verður því ekki slegið föstu að ríkisskattstjóri telji umrædda heimild ekki geta átt við í tilvikum af þeim toga sem um ræðir, en slík álitaefni hafa áður skotið upp kollinum, sbr. t.d. úrskurð yfirskattanefndar nr. 148/2017. Að framangreindu virtu og eins og málið liggur fyrir yfirskattanefnd þykir rétt að senda ríkisskattstjóra kæru kæranda til meðferðar og uppkvaðningar nýs úrskurðar að þessu leyti, sbr. ennfremur sjónarmið í H 1992:1377. Er þá með úrskurði þessum ekki tekin nein efnisleg afstaða til þessa ágreiningsatriðis.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda er varða nýtingu persónuafsláttar og innheimtu opinberra gjalda er vísað frá yfirskattanefnd. Umsókn kæranda um lækkun tekjuskatts vegna skattgreiðslna í Kaliforníuríki er send ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs úrskurðar. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja