Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðflutningsgjöld
  • Tollverð
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 116/2020

Lög nr. 88/2005, 6. gr. 1. mgr. 8. tölul. a-liður, 14. gr. 1. mgr., 109. gr., 115. gr.   Reglugerð nr. 1100/2006, 39. gr., 52. gr., 57. gr.   Reglugerð nr. 630/2008, 32. gr.  

Í máli þessu var deilt um ákvörðun aðflutningsgjalda af sendingu til kæranda sem kom til landsins með pósti. Kærandi hélt því fram að um tollfrjálsa gjöf væri að ræða og krafðist þess að fá sendinguna afhenta, en tollyfirvöld litu svo á að þar sem kærandi hefði ekki lagt fram gögn um verðmæti sendingarinnar yrði að fara fram verðmat á henni. Yfirskattanefnd rakti samskipti kæranda og tollyfirvalda vegna málsins og taldi að tollyfirvöldum hefði borið að taka afstöðu til þess tollverðs sem kærandi hélt fram og ákvarða aðflutningsgjöld samkvæmt því eða á grundvelli áætlunar með þeim hætti sem fram kæmi í tollalögum, þætti ekki unnt að fallast á uppgefið verðmæti. Þar sem umrædd sending hafði verið endursend til útlanda var talið óhjákvæmilegt að vísa kröfu kæranda um að fá sendinguna afhenta frá yfirskattanefnd.

Ár 2020, miðvikudaginn 30. september, er tekið fyrir mál nr. 97/2020; kæra A, dags. 30. júní 2020, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 30. júní 2020, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði tollgæslustjóra, dags. 16. júní 2020, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda af póstsendingu til kæranda frá Bretlandi sem kom til landsins 12. mars 2020. Í kærunni er farið fram á að yfirskattanefnd endurupptaki úrskurð sinn nr. 83/2020 sem kveðinn var upp 18. júní 2020 í máli kæranda af sama tilefni. Í málinu var til umfjöllunar krafa kæranda samkvæmt kæru, dags. 11. maí 2020, þess efnis að hann fengi afhenta umrædda sendingu, en tollyfirvöld hefðu hafnað að afhenda kæranda hana. Kom fram í kærunni að um væri að ræða gjöf frá vini kæranda erlendis. Kvaðst kærandi hafa sent tollyfirvöldum upplýsingar í tölvupósti um verðmæti gjafarinnar, en þær upplýsingar hefðu ekki verið teknar gildar og tollyfirvöld margsinnis óskað eftir reikningi sem ekki væri til.

II.

Rétt þykir að víkja nánar að fyrrnefndum úrskurði yfirskattanefndar nr. 83/2020. Með úrskurði þessum var kæru kæranda vísað frá yfirskattanefnd á þeim forsendum að mál kæranda hefði ekki komið til úrskurðar tollyfirvalda í samræmi við 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 og því lægi ekki fyrir kæranleg ákvörðun sem borin yrði undir yfirskattanefnd eftir ákvæðum 1. mgr. 2. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Nánar tiltekið sagði svo í forsendum úrskurðarins:

„Kæru til yfirskattanefndar fylgdi ekki frumrit eða endurrit ákvörðunar tollyfirvalda sem kæran tekur til, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Að þessu athuguðu og að virtu efni kærunnar var ekki talin ástæða til að afla umsagnar tollgæslustjóra vegna kærunnar, sbr. heimild í lokamálsgrein 6. gr. laga nr. 30/1992. Hins vegar óskaði yfirskattanefnd eftir því við tollgæslustjóra að fá afhent tiltæk gögn í málinu. Framlögð gögn af þessu tilefni eru tölvupóstsamskipti kæranda og tollgæslustjóra á tímabilinu 27. mars til 24. apríl 2020, svo og hefur tollgæslustjóri lagt fram minnispunkta tollpóststofu um málið. Samkvæmt því sem þar kemur fram varðar málið sendingu með númerið ... Viðhorf kæranda er að umrædd sending sé tollfrjáls samkvæmt a-lið 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi.

Eftir því sem ráðið verður af kæru og fyrirliggjandi tölvupóstum kæranda og tollgæslustjóra liggur ekki fyrir nein ákvörðun tollyfirvalda um aðflutningsgjöld vegna sendingar sem hér um ræðir. Kemur fram í tölvupóstum tollgæslustjóra til kæranda að ekki sé unnt að tollafgreiða sendinguna nema kærandi leggi fram reikning eða aðrar upplýsingar um verðmæti vörunnar. Að öðrum kosti geti kærandi óskað eftir verðmati tollyfirvalda á sendingunni og greitt aðflutningsgjöld í samræmi við það. Að svo búnu geti kærandi kært tollákvörðunina til tollyfirvalda í samræmi við ákvæði 117. gr. tollalaga og eftir atvikum til yfirskattanefndar. Af hálfu kæranda er tekið fram af þessu tilefni í tölvupósti 31. mars 2020 að hann telji verðmæti sendingarinnar nema 10.000 kr. en reikningar séu ekki til staðar. Í greinargerð tollpóststofu kemur fram að með tölvupósti 3. apríl 2020 hafi kærandi upplýst að verðmæti sendingarinnar nemi 158,99 sterlingspundum. Kæranda hafi verið bent á að reikningar skyldu sendast til Íslandspósts sem sé tollmiðlari og sjái um tollafgreiðslu sendingarinnar. Miðað við það sem fram er komið í málinu hefur kærandi ekki orðið við þeirri ábendingu, enda hefur hann upplýst að reikningar liggi ekki fyrir.

Með því að ganga verður út frá því samkvæmt framansögðu að tollafgreiðsla sendingarinnar hafi ekki farið fram og málið ekki komið til úrskurðar tollyfirvalda eftir 117. gr. tollalaga liggur ekki fyrir nein ákvörðun hlutaðeigandi stjórnvalds sem verður skotið til yfirskattanefndar eftir ákvæðum 1. mgr. 2. gr. laga nr. 30/1992. Verður því ekki leyst úr því með úrskurði þessum hvort kæranda beri réttur til að fá sendinguna afhenta án greiðslu aðflutningsgjalda á þeim grundvelli að reglur tollalaga um gjafir eigi við um vöruna, svo sem kröfugerð hans stendur til. Því verður að vísa kærunni frá yfirskattanefnd. …“

Þá kom fram í úrskurðinum að fyrrgreindar leiðbeiningar tollgæslustjóra til kæranda gæfu tilefni til að taka fram að ekki yrði talið að greiðsla aðflutningsgjalda samkvæmt tollákvörðun væri forsenda þess að innflytjandi gæti neytt kæruheimildar samkvæmt 117. gr. tollalaga, enda bæri orðan 1. mgr. lagagreinarinnar með sér að kæru mætti senda tollyfirvöldum bæði áður og eftir að vara hefði verið tollafgreidd. Forsenda kæru væri þó að stjórnvaldið hefði tekið ákvörðun um gjaldskyldu, fjárhæð aðflutningsgjalda eða atriði sem lægju til grundvallar ákvörðun aðflutningsgjalda, svo sem tollverð og tollflokkun. Það hefði ekki verið gert í tilviki kæranda sem sýndist stranda á því að kærandi hefði ekki orðið við tilmælum tollyfirvalda um að óska eftir verðmati á vörunni.

III.

Í úrskurði tollgæslustjóra (Skattsins), dags. 16. júní 2020, er kæruefni tilgreint „Synjun á afhendingu sendingar“. Í úrskurðinum er vísað til kæru kæranda, dags. 27. mars 2020, sem hann hafi sent fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Kemur fram að ráðuneytið hafi með bréfi, dags. 6. maí 2020, óskað umsagnar tollgæslustjóra um kæruna og að sú umsögn hafi verið látin ráðuneytinu í té þann 9. júní 2020. Í framhaldi af því hafi ráðuneytið framsent tollgæslustjóra kæruna til meðferðar í samræmi við 117. gr. tollalaga nr. 88/2005.

Rakið er í úrskurði tollgæslustjóra að sending kæranda hafi komið frá Bretlandi 12. mars 2020. Íslandspóstur hafi tilkynnt kæranda um tollskyldu sendingarinnar og óskað eftir að kærandi skilaði reikningi vegna vörunnar. Að fengnum þeim upplýsingum kæranda að um gjöf væri að ræða hafi varningurinn verið sendur tollgæslunni til skoðunar. Að skoðun lokinni hafi Íslandspóstur beðið kæranda um upplýsingar um verðmæti gjafarinnar til að hægt væri að meta hvort verðmæti varningsins væri undir verðmætamörkum samkvæmt 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi. Í framhaldi af þessu hafi byrjað samskipti kæranda við tollgæsluna sem hafi leiðbeint kæranda og ítrekað beint því til hans annaðhvort að leggja fram gögn um verðmæti sendingarinnar eða óska formlega eftir verðmati tollgæslunnar. Kærandi hafi ekki orðið við þessu og því hafi tollgæslan hvorki haft forsendur né heimild til þess að tollafgreiða sendinguna.

Ákvæði 37. og 38. gr. reglugerðar nr. 1100/2006, um vörslu og tollmeðferð vöru, sem kærandi vísi til, eigi ekki við í málinu. Deiluefnið varði beiðni um tollfríðindameðferð á grundvelli 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga. Því verði að taka afstöðu til þess hvort sending kæranda uppfylli kröfur samkvæmt þessu ákvæði reglugerðarinnar áður en komið geti til afhendingar.

Því sé alfarið hafnað að leiðbeiningarregla og meðalhófsregla stjórnsýslulaga hafi verið brotnar. Kærandi hafi verið upplýstur um hvernig hægt væri að afgreiða sendinguna, m.a. að hann gæti formlega óskað verðmats af hálfu embættisins. Kærandi hafi einnig á öllum stigum verið upplýstur um kærurétt sinn. Þá megi benda á að sending kæranda hafi ítrekað verið stöðvuð í endursendingu til þess að gæta að meðalhófi. Reynt hafi verið eftir bestu getu að leiðbeina kæranda. Þrátt fyrir það hafi kærandi kosið að fara ekki eftir leiðbeiningum og neitað að afhenda reikning sem sýni fram á verðmæti sendingarinnar. Því hafi tollgæslan haft þann einan kost að hafna tollfríðindum sendingarinnar, enda ekki sýnt fram á að hún uppfylli skilyrði til tollfríðindameðferðar.

IV.

Í kæru til yfirskattanefndar er vakin athygli á því að við uppkvaðningu úrskurðar nefndarinnar nr. 83/2020 hafi ekki legið fyrir henni afrit allra tölvupóstsamskipta kæranda við tollyfirvöld frá 16. mars 2020 til loka maí 2020 þegar sending kæranda hafi verið endursend. Þannig hafi tollgæslustjóri haldið eftir nauðsynlegum málsgögnum.

Kærandi bendir á að umrædd sending hafi aldrei verið tollafgreidd. Kærandi hafi þó gert ítrekaðar tilraunir til þess að fá sendinguna tollafgreidda. Þá er því mótmælt af hálfu kæranda að tollgæslustjóri hafi ekki leiðbeint kæranda um kæruleiðir. Tollgæslustjóri hafi leiðbeint kæranda og því hafi kærandi kært til yfirskattanefndar.

Því sé mótmælt að tollgæslustjóri hafi óskað eftir að sendingin yrði ekki endursend. Það hafi verið kærandi sem óskaði eftir því. Alvarlegar athugasemdir séu gerðar við að tollgæslustjóri hafi ekki kveðið upp endanlegan úrskurð fyrr en raun beri vitni. Því hafi tollgæslustjóri brotið leiðbeiningarreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

V.

Með bréfi, dags. 8. júlí 2020, hefur tollgæslustjóri lagt fram umsögn vegna máls kæranda. Í bréfi tollgæslustjóra kemur fram að Skatturinn hafi látið yfirskattanefnd í té öll gögn um samskipti tollyfirvalda við kæranda frá því að sending hans kom til landsins til þess tíma að samskiptum við kæranda lauk. Embættið hafi yfirfarið öll samskipti eftir 6. mars 2020. Ekkert komi þar fram sem breyti málsatvikum. Öll þessi gögn kæranda fylgi umsögninni.

Vegna þeirra athugasemda kæranda að sending hans hafi ekki verið tollafgreidd, þrátt fyrir beiðni þar um, er tekið fram í umsögn tollgæslustjóra að forsendur tollafgreiðslu hafi ekki verið fyrir hendi, enda hafi hvorki borist tilskilin gögn frá kæranda né formleg beiðni um verðmat. Sé vísað til úrskurðar tollgæslustjóra frá 16. júní 2020 um þetta. Ítarlegar leiðbeiningar komi fram í tölvupósti tollgæslustjóra frá 26. mars 2020 um heimild kæranda til kæru samkvæmt 117. gr. tollalaga. Því sé hafnað að leiðbeiningarskyldu hafi ekki verið gætt í málinu.

Hvað snertir endursendingu sendingarinnar kemur fram í umsögn að embættið hafi skyldu til að endursenda ótollafgreiddar póstsendingar 30 dögum eftir að sending berist til landsins. Ákvörðun um að beita ekki því úrræði hafi verið á hendi embættisins og hafi hún verið tekin á grundvelli þess að enn ætti sér stað samtal milli kæranda og embættisins. Því hafi verið gefinn umframfrestur á endursendingu til að gefa kæranda tækifæri til þess að skila inn tilskildum gögnum. Þrátt fyrir leiðbeiningar til kæranda hafi hann ekki borið fram kæru samkvæmt 117. gr. tollalaga. Hins vegar hafi kærandi sent kæru bæði til fjármála- og efnahagsráðuneytisins og til yfirskattanefndar. Fyrst eftir að ráðuneytið framsendi málið til Skattsins hafi tollgæslustjóri fengið forræði yfir málinu og borið að úrskurða í því, sbr. úrskurð frá 16. júní 2020.

Með bréfi, dags. 22. júlí 2020, hefur kærandi lagt fram athugasemdir sínar vegna umsagnar tollgæslustjóra. Kærandi bendir á að hann hafi sent 78 tölvupósta til tollyfirvalda vegna máls síns. Af hálfu tollyfirvalda hafi þess verið krafist að kærandi legði fram reikning vegna sendingarinnar eða að hann óskaði eftir verðmati á henni. Hvergi í tollalögum sé kveðið á um að aðili þurfi að óska eftir verðmati. Hins vegar komi fram í lögunum að ef ekki sé til staðar reikningur skuli tollstjóri ákvarða álagningu gjalda. Í öllum tölvupóstum kæranda hafi verið óskað eftir því að tollstjóri ákvarðaði álagningu samkvæmt lögum, en því hafi alltaf verið hafnað. Kærandi kveðst gera athugasemd við að tilgreindur starfsmaður tollyfirvalda fjalli um þetta mál þar sem kærandi hafi átt í tölvupóstsamskiptum við þann starfsmann sem því sé ekki hlutlaus í málinu.

VI.

Mál þetta varðar ákvörðun aðflutningsgjalda af sendingu til kæranda frá Bretlandi sem kom til landsins með pósti 12. mars 2020. Áður hefur verið fjallað um ágreiningsefnið í úrskurði yfirskattanefndar nr. 83/2020 frá 18. júní 2020 sem var kveðinn upp vegna kæru kæranda, dags. 11. maí 2020. Af hálfu kæranda er fyrirliggjandi erindi hans til yfirskattanefndar orðað sem beiðni um endurupptöku úrskurðar nefndarinnar nr. 83/2020. Eins og rakið er í kafla II hér að framan gekk yfirskattanefnd út frá því við uppkvaðningu þess úrskurðar að tollafgreiðsla sendingar kæranda hefði ekki farið fram og að málið hefði ekki komið til úrskurðar tollyfirvalda eftir 117. gr. tollalaga nr. 88/2005. Því lægi ekki fyrir nein ákvörðun tollyfirvalda sem yrði skotið til yfirskattanefndar eftir ákvæðum 1. mgr. 2. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Með endurupptökubeiðni kæranda fylgdi afrit úrskurðar tollgæslustjóra, dags. 16. júní 2020, vegna kæru sem kærandi sendi fjármála- og efnahagsráðuneytinu 27. mars 2020. Samkvæmt gögnum málsins óskaði ráðuneytið með bréfi, dags. 6. maí 2020, eftir umsögn tollgæslustjóra um kæruna og var umbeðin umsögn látin ráðuneytinu í té 9. júní 2020. Hinn 12. júní 2020 framsendi ráðuneytið kæruna til tollgæslustjóra til meðferðar í samræmi við 117. gr. tollalaga nr. 88/2005.

Ekkert hefur komið fram sem hnekkir þeirri niðurstöðu í úrskurði yfirskattanefndar nr. 82/2020 að þegar kærandi sendi kæru sína, dags. 11. maí 2020, til nefndarinnar hafði tollgæslustjóri ekki tekið til umfjöllunar kæru hans frá 27. mars 2020 sem hann beindi til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Eins og tekið er fram í úrskurði yfirskattanefndar nr. 82/2020 er greiðsla aðflutningsgjalda samkvæmt ákvörðun tollyfirvalda ekki forsenda þess að innflytjandi geti neytt kæruheimildar samkvæmt 117. gr. tollalaga. Var tollgæslustjóra því rétt að taka kæruna til afgreiðslu þótt ákvörðun samkvæmt 109. gr. tollalaga lægi ekki fyrir.

Vegna umfjöllunar í kæru um framlagningu gagna til yfirskattanefndar af hendi tollyfirvalda í tilefni kæru kæranda frá 11. maí 2020 skal það áréttað sem getið er í úrskurði yfirskattanefndar nr. 82/2020 að við meðferð kærunnar var ekki talin ástæða til að afla umsagnar tollgæslustjóra vegna hennar, sbr. heimild í lokamálsgrein 6. gr. laga nr. 30/1992. Hins vegar óskaði yfirskattanefnd eftir því við tollgæslustjóra að fá afhent tiltæk gögn í málinu. Framlögð gögn tollgæslustjóra af þessu tilefni voru tölvupóstsamskipti kæranda og tollgæslunnar á tímabilinu 27. mars til 24. apríl 2020, svo og lagði tollgæslustjóri fram minnispunkta tollpóststofu um málið. Í kæru kemur réttilega fram að í þessi gögn vantaði hluta tölvupóstsamskipta tollyfirvalda við kæranda. Þá athugist að hvorki í nefndum gögnum frá tollgæslustjóra né við meðferð málsins að öðru leyti kom fram að kærandi hefði leitast við að ná fram rétti sínum með því að beina kæru til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Mátti tollgæslustjóra þó vera um það kunnugt a.m.k. eftir 6. maí 2020. Rétt hefði verið að tollgæslustjóri léti þetta koma fram í upplýsingum sínum til yfirskattanefndar.

Samkvæmt framansögðu verður litið svo á að kæra til yfirskattanefndar lúti að úrskurði tollgæslustjóra, dags. 16. júní 2020, vegna kæru kæranda frá 27. mars 2020. Þá verður að telja að kærandi geri sömu kröfu í þeirri kæru sem hér liggur fyrir og í fyrri kæru sinni til nefndarinnar, þ.e. að hann fái afhenta sendingu sem í málinu greinir með tollfríðindameðferð á grundvelli þess að um gjöf sé að ræða.

Sá hængur er á kröfugerð kæranda og raunar málinu öllu að umrædd sending til kæranda, sem kom með pósti til landsins 12. mars 2020, mun hafa verið endursend 19. maí 2020. Getið er um endursendinguna í kæru til yfirskattanefndar og kemur hið sama fram í tölvupósti kæranda frá 27. maí 2020. Þá er endursending skráð á vef Íslandspósts ohf. Ekkert er vikið að endursendingu sendingarinnar í úrskurði tollgæslustjóra, sem þó var kveðinn upp tæpum mánuði eftir að hún fór fram, en í umsögn tollgæslustjóra eru ekki gerðar athugasemdir við fyrrgreindar upplýsingar kæranda. Það leiðir af þessari aðstöðu að ekki er unnt að verða við kröfu kæranda um að fá sendinguna afhenta þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að krafan teldist réttmæt. Allt að einu þykir bera að taka efnislega afstöðu til ágreiningsefnis málsins, enda er það gert í hinum kærða úrskurði tollgæslustjóra.

Í 6. gr. tollalaga eru ákvæði um tollfrjálsar vörur. Samkvæmt a-lið 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna tekur tollfrelsi til gjafa sem aðilar búsettir erlendis senda hingað til lands eða hafa með sér frá útlöndum af sérstöku tilefni, þó ekki í atvinnuskyni, enda sé verðmæti gjafarinnar ekki meira en 13.500 kr. Sé verðmæti gjafar meira en 13.500 kr. skal gjöf þó einungis tollskyld að því marki sem hún er umfram þá fjárhæð að verðmæti. Brúðkaupsgjafir skulu vera tollfrjálsar þótt þær séu meira en 13.500 kr. að verðmæti, enda sé að mati tollyfirvalda um eðlilega og hæfilega gjöf að ræða.

Í tilviki kæranda var það álitamál uppi hjá tollyfirvöldum hvort hann fengi notið undanþágu samkvæmt nefndu ákvæði tollalaga. Við ákvörðun um það atriði reynir á ýmis skilyrði samkvæmt lagagreininni og hlutaðeigandi stjórnvaldsfyrirmælum, sbr. 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi. Meðal annars þarf að taka afstöðu til þess hvert sé verðmæti hlutaðeigandi vöru. Ráðið verður af gögnum málsins, þar á meðal hinum kærða úrskurði, að tollyfirvöld hafi a.m.k. að svo stöddu ekki gert ágreining um það við kæranda að um gjöf væri að tefla, en talið sig vanhaldin um upplýsingar um verðmæti sendingarinnar til að skorið yrði úr um það hvort hún félli að öllu undir gjafareglur eða eingöngu að því leyti sem verðmæti telst vera undir 13.500 kr.

Samkvæmt 109. gr. tollalaga annast tollyfirvöld álagningu aðflutningsgjalda. Skal álagning aðflutningsgjalda byggð á þeim upplýsingum sem koma fram í aðflutningsskýrslu samkvæmt VII. kafla laganna. Þó skulu tollyfirvöld leiðrétta augljósar og smávægilegar villur í skriflegum aðflutningsskýrslum sem þeim hafa verið látnar í té. Sé aðflutningsskýrslu ekki skilað innan tilskilins frests samkvæmt 22. gr. laganna, sem kveður á um sex mánaða frest í því skyni, skulu tollyfirvöld áætla tollverð vöru samkvæmt 115. gr. laganna. Þá segir í 110. gr. laganna að komi í ljós eftir að aðflutningsskýrsla ásamt fylgiskjölum hefur verið látin tollyfirvöldum í té og áður en afhendingarheimild er veitt að hún eða einstakir liðir hennar eða fylgiskjöl eru ófullnægjandi, óglögg eða tortryggileg, eigi skráð á lögmæltan hátt, undirrituð á ófullnægjandi hátt eða tollyfirvöld telji frekari skýringa þörf á einhverju atriði skulu þau skora á viðkomandi að bæta úr því innan ákveðins tíma og láta í té skýringar og þau gögn sem tollyfirvöld telja þörf á. Fái tollyfirvöld fullnægjandi skýringar og gögn innan veitts frests leggja þau toll og önnur gjöld á samkvæmt aðflutningsskjölum og fengnum skýringum og gögnum. Ef eigi er bætt úr annmörkum á aðflutningsskýrslu, svar frá viðkomandi berst ekki innan tiltekins tíma, skýringar hans eru ófullnægjandi, eigi eru send þau gögn sem óskað er eftir eða send gögn eru ófullnægjandi eða tortryggileg skulu tollyfirvöld áætla aðflutningsgjöld með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 115. gr.

Ákvæði um heimildir tollyfirvalda til áætlunar aðflutningsgjalda eru í 115. gr. tollalaga. Þar segir að í þeim tilvikum þegar tollyfirvöldum beri að áætla fjárhæð aðflutningsgjalda skuli þau áætla tollverð vöru svo ríflega að eigi sé hætt við að fjárhæðir séu áætlaðar lægri en raunverulegt verðmæti vörunnar og ákvarða aðflutningsgjöld í samræmi við þá áætlun. Við áætlunina skuli tollyfirvöld hafa hliðsjón af þeim upplýsingum sem liggi fyrir um vöruna, þar á meðal farmskrá, framlögðum gögnum ef einhver eru og gögnum Hagstofu Íslands yfir innfluttar vörur.

Kveðið er á um tollverð og tollverðsákvörðun í 14. og 15. gr. tollalaga. Nánari ákvæði um tollverð og ákvörðun þess er að finna í reglugerð nr. 1100/2006, um vörslu og tollmeðferð vöru. Þar er m.a. tekið fram í 52. gr. að aðalgrundvöllur tollverðs sé viðskiptaverð vöru, sbr. 1. mgr. 14. gr. tollalaga. Verði tollverð ekki ákvarðað á grundvelli viðskiptaverðs, skuli það ákvarðað samkvæmt 57.-62. gr. reglugerðarinnar. Sama gildi þegar ekkert er greitt fyrir vöru eða greiðsla er einungis til málamynda.

Ítarleg fyrirmæli um tollverð vöru þegar viðskiptaverð verður ekki lagt til grundvallar er að finna í 57.­–62. gr. reglugerðar nr. 1100/2006. Þar kemur m.a. fram að sé ekki hægt að ákvarða tollverð vöru samkvæmt 14. gr. tollalaga skuli tollverðið vera viðskiptaverð sams konar vara sem seldar hafa verið og fluttar til landsins á sama eða svipuðum tíma.

Eins og fyrr segir kom sending kæranda til landsins með pósti. Íslandspóstur ohf. er tollmiðlari, sbr. XI. kafla tollalaga, og er komið fram að tollafgreiðsla sendingarinnar hafi verið á verksviði fyrirtækisins. Vegna þess ágreinings sem upp spratt í tengslum við kröfu kæranda um að fá sendinguna tollafgreidda á þeim grundvelli að um gjöf væri að ræða hvarf meðferð málsins til tollyfirvalda. Helstu gögn málsins fyrir utan hinn kærða úrskurð eru tölvupóstsamskipti kæranda og starfsmanna tollpóstsins og síðar skrifstofu tollgæslustjóra.

Við meðferð máls kæranda hjá tollyfirvöldum beindu þau því ítrekað til hans að leggja fram gögn (sölureikning) um verðmæti sendingarinnar eða óska að öðrum kosti eftir því að fram færi verðmat af hálfu tollgæslunnar. Af hálfu kæranda kom fram að hann byggi ekki að neinum gögnum um verðmæti sendingarinnar. Í tölvupósti kæranda 31. mars 2020 kom fram að hann teldi verðmæti sendingarinnar nema 10.000 kr. en reikningar væru ekki til staðar. Fyrir liggur að hér var um hreina áætlun kæranda að ræða. Með tölvupósti til tollpóstsins 3. apríl 2020 greindi kærandi frá því að verðmæti sendingarinnar næmi 158,99 sterlingspundum sem svarar til um 28.000 kr. á þáverandi gengi. Ekkert kom þó fram í tölvupóstinum á hverju þessi fjárhæð væri byggð og verður ekki séð að það hafi verið upplýst á síðari stigum. Í svarpósti tollpósts var kæranda bent á að reikningar skyldu sendast til Íslandspósts. Miðað við það sem fram er komið í málinu varð kærandi ekki við þeirri ábendingu, enda hefur hann margsinnis skýrt frá því að reikningur liggi ekki fyrir.

Þar sem kærandi lagði ekki fram gögn um verðmæti sendingar sinnar töldu tollyfirvöld að þess væri einn kostur til að tollafgreiðsla gæti átt sér stað að fram færi verðmat á henni í samræmi við þau ákvæði tollalaga og reglugerðar nr. 1100/2006 sem að framan eru rakin. Eins og fyrr segir fóru starfsmenn tollyfirvalda ítrekað þess á leit við kæranda að hann óskaði eftir slíku mati. Samkvæmt fyrirliggjandi málsgögnum kom slík áskorun til kæranda fyrst fram í tölvupósti starfsmanns tollpósts 19. mars 2020 þar sem þess var jafnframt getið að það gæti tekið allt að sex vikur að framkvæma verðmat. Viðbrögð kæranda af þessu tilefni í tölvupóstum sama dag báru með sér að hann væri ekki sáttur við tilmæli um aðgerðir af sinni hálfu vegna málsins. Svaraði kærandi því m.a. til að það væri ekki sitt að stjórna hlutaðeigandi starfsmanni sem gæti afhent vöruna, verðmetið hana eða gert eitthvað annað. Það væri hins vegar hlutverk kæranda að mótmæla aðgerðum tollyfirvalda. Í framhaldinu hófust tölvupóstsamskipti kæranda við yfirmann á tollpóststofu þar sem kærandi mótmælti meintu ólöglegu atferli undirmanns hans. Kvaðst kærandi margoft hafa sagt starfsmanninum að gera verðmat sjálfur, „en það er náttúrulega ólöglegt og þess vegna er hann að biðja mig um að biðja um verðmat“, svo sem sagði í tölvupósti kæranda 25. mars 2020. Í svarpósti nefnds yfirmanns var vísað til ákvæða 1. mgr. 14. gr. tollalaga og 52. gr. reglugerðar nr. 1100/2006 og enn áréttað að kærandi yrði að skila inn upplýsingum um verðmæti en ella gæti kærandi óskað eftir verðmati vörunnar. Þessu til svars tók kærandi fram í tölvupósti 26. mars 2020 að hann skildi ekki af hverju tollyfirvöld beittu ekki ákvæðum 57.–62. gr. reglugerðar nr. 1100/2006 við ákvörðun tollverðs. Af þessu tilefni var þeirri spurningu beint til kæranda í tölvupósti tollpóstsins sama dag, „svo það sé alveg á hreinu“, eins og þar sagði, hvort hann óskaði eftir því að tollyfirvöld beittu nefndum ákvæðum reglugerðar nr. 1100/2006 til þess að finna tollverð þess varnings sem væri í sendingunni til kæranda. Þessu var ekki svarað með afgerandi hætti þegar í stað af hálfu kæranda, en eftir að hann hafði slegið fram verðmati af sinni hálfu (10.000 kr.) og því verið til svarað að það væri tollgæslan sem framkvæmdi verðmat, sbr. tölvupósta 31. mars 2020, tók kærandi fram í tölvupósti þann dag að það væri búið að taka hann rúmar þrjár vikur „að fá það gert“ sem skilja verður þannig af samhenginu að átt væri við verðmat af hálfu tollyfirvalda.

Samhliða tölvupóstsamskiptum kæranda við starfsmenn tollpóstsins skrifaðist hann á við skrifstofu tollgæslustjóra um mál sitt. Þar komu í grundvallaratriðum fram sömu sjónarmið beggja aðila og hér hefur verið rakið að framan. Af hálfu kæranda var vísað til ákvæða 109. gr. tollalaga um heimild tollyfirvalda til að ákvarða tollverð vöru og í svörum tollgæslustjóra kom fram að kærandi gæti óskað eftir verðmati ef gögn um vöruna lægju ekki fyrir.

Samkvæmt framansögðu einkenndust samskipti kæranda og tollyfirvalda af skæklatogi um það hvort það stæði upp á kæranda að óska eftir því að fram færi verðmat tollgæslunnar á þeim varningi sem var að finna í umþrættri sendingu úr því ekki væri unnt að framvísa gögnum um verðmæti hans eða hvort tollyfirvöldum bæri að ákvarða tollverð á grundvelli áætlunar sinnar um verðmætið. Í hinum kærða úrskurði er sjónarmið tollyfirvalda orðað þannig að kærandi hafi ekki farið fram á „formlegt verðmat af hálfu tollgæslunnar“.

Ekki verður séð að kæranda hafi verið gerð sérstök grein fyrir því við meðferð máls hans hjá tollyfirvöldum að nefnd beiðni þyrfti að vera „formleg“, svo sem orðað er í hinum kærða úrskurði, en raunar er óljóst hvaða kröfur eru þar hafðar í huga til forms slíkrar beiðni. Kærandi virðist ekki heldur hafa verið upplýstur um það á hvaða lagagrundvelli það er byggt að kærandi hafi yfirleitt þurft að láta uppi sérstaka beiðni af þessu tagi til þess að verðmat færi fram. Ekkert er að þessu atriði vikið í úrskurði tollgæslustjóra. Eins og kærandi hefur bent á er enginn áskilnaður um slíkt í 115. gr. tollalaga eða þeim ákvæðum reglugerðar nr. 1100/2006 sem til hefur verið vísað í málinu. Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 82/2020 var talið að tollyfirvöld hefðu hér haft í huga ákvæði 39. gr. reglugerðar nr. 1100/2006, um vörslu og tollmeðferð vöru, sem heimilar póststarfsmanni, undir eftirliti tollvarðar, að opna póstsendingu sem kemur erlendis frá í því skyni að afla vörureiknings til að byggja á útreikning aðflutningsgjalda, ef viðtakandi hefur gefið póstrekanda skriflega heimild til þess. Ekkert hefur komið fram á síðari stigum sem styður þetta sérstaklega.

Hvað sem líður réttmæti þeirrar afstöðu tollyfirvalda að kærandi þyrfti að óska eftir því sérstaklega að tollgæslan tæki umrædda vöru til verðmats er til þess að líta að viðhorf kæranda í þá veru verða að teljast koma fram í tölvupóstum hans, svo sem rakið er að framan, að vísu vafið í aðfinnslur um störf tollyfirvalda. Ljóst er að kærandi upplifði nefndar ábendingar tollyfirvalda sem ólögmætar og var í meira lagi tregur til að una þeim. Þá afstöðu kæranda verður að virða í ljósi þess að tollyfirvöld vísuðu eins og fyrr segir ekki til neinna settra reglna til stuðnings áskorunum sínum. Allt að einu má hæglega álykta af efni tölvupósta kæranda að hann teldi rétt eða væri því a.m.k. ekki andsnúinn að verðmat yrði framkvæmt. Kom m.a. fram að kærandi vildi fá sendinguna tollafgreidda, þ.e. að ákvörðun yrði tekin um aðflutningsgjöld, og að hann væri þess albúinn að takast á við yfirvöldin um ákvarðanir þeirra að tollafgreiðslu lokinni.

Samkvæmt framansögðu lá mál þetta þannig fyrir tollyfirvöldum að kærandi hélt því fram að ekki væri til að dreifa gögnum (reikningi) um verðmæti hinnar innfluttu vöru. Hins vegar lét kærandi uppi sjónarmið sín um það atriði. Við svo búið og vegna kröfu kæranda um að tollafgreiðsla færi fram og í ljósi fram kominna viðhorfa hans að öðru leyti, sbr. það sem að framan er rakið, verður að telja rétt að tollyfirvöld hefðu tekið afstöðu til tilgreinds tollverðs af hálfu kæranda og ákvarðað aðflutningsgjöld samkvæmt því eða á grundvelli áætlunar með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 115. gr. tollalaga, sbr. einnig ákvæði 57.­–62. gr. reglugerðar nr. 1100/2006, um vörslu og tollmeðferð vöru, þætti ekki unnt að fallast á uppgefið verðmæti. Samhliða varð þá að taka afstöðu til þess hvort þau undanþáguákvæði tollalaga, sem kærandi bar fyrir sig, kæmu til greina í hans tilviki.

Eins og fram er komið mun umrædd sending hafa verið endursend til útlanda af hálfu Íslandspósts ohf. Með úrskurði þessum verður því ekki mælt fyrir um tollafgreiðslu sendingarinnar og afhendingu hennar til kæranda, svo sem hann gerir kröfu um. Er óhjákvæmilegt að vísa þeirri kröfu frá yfirskattanefnd. Á hinn bóginn er því beint til tollyfirvalda að gæta að sjónarmiðum í úrskurði þessum komi til þess að margnefnd sending til kæranda verði send honum að nýju.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á með kæranda að rétt hefði verið að ákvarða tollverð sendingar til hans með viðtökunúmer ... Kröfu kæranda um að sendingin verði afhent honum er vísað frá yfirskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja