Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 417/1991

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 69. gr. C-liður   Lög nr. 79/1989 — 1. gr.   Lög nr. 117/1989  

Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Vaxtabætur — Íbúðarhúsnæði, öflun — Öflun íbúðarhúsnæðis — Arfur — Búskipti — Dánarbú — Eignarhluti í íbúð — Eftirlifandi maki — Arfshluti í íbúð — Greiðsla eftirlifandi maka á arfshluta í íbúð

Kærandi færði meðal vaxtagjalda í reit 87 í skattframtali sínu árið 1990 vaxtagjöld 49.294 kr. af láni frá Lífeyrissjóði bókagerðamanna, er tekið hafði verið á árinu 1988, sbr. greinargerð um vaxtagjöld RSK 3.09. Með bréfi, dags. 27. júlí 1990, felldi skattstjóri þennan vaxtagjaldalið niður á þeim forsendum, að hann uppfyllti ekki skilyrði þau, sem greind eru í C-lið 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Í kæru til skattstjóra, dags. 20. ágúst 1990, gerði kærandi grein fyrir því, að umrætt lífeyrissjóðslán hefði verið tekið við lát eiginmanns kæranda til þess að greiða út arfshluta sonar eiginmannsins af fyrra hjónabandi, en um hefði verið að ræða arfshluta hans í íbúðinni. Hér væri því um að ræða skuld til öflunar eigin húsnæðis, því að öðrum kosti hefði kærandi þurft að selja íbúðina til þess að greiða arfshlutann. Með kæruúrskurði, dags. 5. nóvember 1990, synjaði skattstjóri kröfu kæranda.

Umboðsmaður kæranda skaut kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 5. nóvember 1990, og krefst þess, að umrædd vaxtagjöld verði viðurkennd sem vaxtagjöld til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Færir umboðsmaðurinn fram sömu röksemdir og skýringar og í kæru til skattstjóra.

Með bréfi, dags. 8. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri fallist á kröfu kæranda með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum.

Eins og málavöxtum er lýst af hálfu kæranda og óvefengt er ber að fallast á að umrædd vaxtagjöld séu af láni til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota í skilningi C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Er krafa kæranda því tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja