Úrskurður yfirskattanefndar
- Lokunarstyrkur
Úrskurður nr. 140/2020
Lög nr. 38/2020, 4. gr. 3. tölul.
Kærandi í máli þessu þurfti að láta tímabundið af rekstri nuddstofu um vorið 2020 vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Kröfu kæranda um greiðslu lokunarstyrks var hafnað þar sem hann uppfyllti ekki lagaskilyrði um umfang rekstrar á rekstrarárinu 2019.
Ár 2020, miðvikudaginn 18. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 110/2020; kæra A, dags. 11. ágúst 2020, vegna ákvörðunar um lokunarstyrk. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 11. ágúst 2020, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. sama dag, að hafna umsókn kæranda um lokunarstyrk samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Ákvörðun ríkisskattstjóra var byggð á því að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 3. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 þess efnis að tekjur rekstraraðila á rekstrarárinu 2019 næmu a.m.k. 4,2 milljónum króna, að teknu tilliti til umreiknings þar sem starfsemi kæranda hefði hafist eftir 1. janúar 2019. Samkvæmt umsókn kæranda um lokunarstyrk hófst starfsemi hennar 24. júní 2019, rekstrartekjur á árinu 2019 námu 311.312 kr. og rekstrartekjur í janúar og febrúar 2020 námu 77.000 kr.
Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að kæranda verði ákvarðaður lokunarstyrkur og að tekið verði tillit til þess að starfsemi kæranda hafi ekki hafist fyrr en 24. júní 2020. Kemur fram að kærandi sé nuddari og að um aukavinnu hafi verið að ræða á árinu 2019 og framan af árinu 2020. Umfang starfseminnar hafi verið að aukast um það leyti þegar kæranda var gert að loka og hafi aukist töluvert eftir að banni var aflétt, eins og sjá megi af veltutölum. Lokunin hafi komið sér afar illa fyrir kæranda sem hafi ekki látið undan þrýstingi viðskiptavina um undantekningar. Gæta þurfi jafnræðis milli rekstraraðila og tjón kæranda sé hið sama og annarra. Hljóti kærandi að eiga rétt á lokunarstyrk í samræmi við umfang rekstrar. Kæranda hafi verið tjáð símleiðis af starfsmanni ríkisskattstjóra að þar sem starfsemin hafi byrjað á miðju ári 2019 ætti kærandi rétt á lokunarstyrk þrátt fyrir að tekjur væru undir 4,2 milljónum króna. Allt að einu hafi kærandi engar skýringar fengið á synjun á umsókninni og sé ótækt að sá aðili, sem eigi að framfylgja reglunum, skilji þær ekki sjálfur.
II.
Með bréfi, dags. 13. október 2020, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna hennar. Í umsögninni er rakið að rekstur nuddstofu kæranda hafi hafist 24. júní 2019 og að starfsemin falli undir gildissvið laga nr. 38/2020 þar sem kæranda hafi verið gert að stöðva starfsemina vegna kórónuveirufaraldursins, sbr. 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Rekstrartekjur kæranda frá upphafi rekstrar 24. júní 2019 til loka febrúar 2020 hafi numið samtals 388.290 kr. samkvæmt því sem tilgreint sé í umsókn kæranda. Umreiknuð á ársgrundvöll nemi sú fjárhæð 564.645 kr. miðað við að tímabil starfseminnar frá byrjun til loka febrúar 2020 hafi verið 251 dagur, sbr. 3. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020. Á þeim forsendum hafi umsókn kæranda verið synjað, enda sé ekki uppfyllt framangreint skilyrði um a.m.k. 4,2 milljóna króna árstekjur.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 14. október 2020, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og kæranda gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
III.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 38/2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, gilda lög þessi um einstaklinga og lögaðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. febrúar 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. eða 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Er markmið laganna að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja við minni rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar, sbr. 2. gr. laganna. Í II. kafla laga nr. 38/2020 er fjallað um greiðslu svonefndra lokunarstyrkja úr ríkissjóði, en samkvæmt 4. gr. laganna á rekstraraðili sem fellur undir lögin rétt á slíkum styrk að uppfylltum skilyrðum sem talin eru í fimm töluliðum í lagagreininni. Samkvæmt 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 er skilyrði fyrir greiðslu lokunarstyrks að rekstraraðila hafi verið gert skylt að loka samkomustað samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, eða láta af starfsemi eða þjónustu samkvæmt 2. mgr. sömu greinar á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997. Þá er það skilyrði sett í 3. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 að tekjur rekstraraðila á rekstrarárinu 2019 hafi verið a.m.k. 4,2 milljónir króna. Er tekið fram að hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skuli umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar á ársgrundvöll.
Í málinu er einungis deilt um það hvort kærandi uppfylli fyrrgreint skilyrði 3. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 er lýtur að umfangi rekstrartekna. Samkvæmt umsókn kæranda um lokunarstyrk námu tekjur kæranda af rekstri nuddstofu á árinu 2019 alls 311.312 kr. og rekstrartekjur á tímabilinu janúar til febrúar 2020 námu 77.000 kr. Er því ljóst að rekstrartekjur kæranda voru verulega undir fjárhæðarmörkum ákvæðisins að teknu tilliti til umreiknings þar sem starfsemi kæranda hófst eftir 1. janúar 2019, þ.e. nánar tiltekið 24. júní sama ár. Samkvæmt þessu verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.