Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur við innflutning
  • Listaverk, undanþága
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 144/2020

Lög nr. 50/1988, 34. gr. 1. mgr., 36. gr. 1. mgr. 4. tölul.   Lög nr. 88/2005, 110. gr., 119. gr.   Lög nr. 37/1993, 10. gr.  

Ágreiningur í máli þessu laut að því hvort kæranda bæri að greiða virðisaukaskatt vegna innflutnings á höggmynd sem kærandi hafði keypt í Frakklandi. Tollyfirvöld töldu að ekki væri uppfyllt það skilyrði fyrir undanþágu frá virðisaukaskatti að listaverk væri flutt inn af listamanninum sjálfum þar sem kærandi hefði keypt höggmyndina af listmunasala. Miðað við þessar forsendur taldi yfirskattanefnd nauðsyn hafa borið til þess að aflað yrði nánari upplýsinga um aðkomu listmunasala að viðskiptunum. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og kæran send tollgæslustjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs úrskurðar.

Ár 2020, miðvikudaginn 18. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 106/2020; kæra A, dags. 31. júlí 2020, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 31. júlí 2020, varðar úrskurð tollgæslustjóra, dags. 19. maí 2020, um ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings á höggmynd á árinu 2019. Lýtur deiluefni málsins að því hvort innflutningur listaverksins sé undanþeginn virðisaukaskatti samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, en því höfnuðu tollyfirvöld með hinum kærða úrskurði. Er þess krafist í kærunni að úrskurði tollgæslustjóra verði hnekkt og staðfest að hið innflutta listaverk sé undanþegið virðisaukaskatti samkvæmt greindu ákvæði.

II.

Málavextir eru þeir að 14. október 2019 barst tollstjóra aðflutningsskýrsla vegna innflutnings kæranda á höggmynd frá Frakklandi. Áður en tollafgreiðsla fór fram mun kærandi hafa óskað eftir því að virðisaukaskattur yrði ekki krafinn af hinni innfluttu vöru. Tollstjóri hafnaði því erindi og greiddi kærandi álögð aðflutningsgjöld með fyrirvara.

Af hálfu kæranda var álagning virðisaukaskatts mótmælt með kæru til tollstjóra, dags. 10. desember 2019. Í kærunni var vísað til þess að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum væri ekki greiddur tollur af listmunum sem fluttir væru til landsins, enda lægi fyrir að um fyrstu sölu listaverks væri að ræða og listamaður væri seljandi, óháð því hvort erlend listmunasala tæki þóknun fyrir milligöngu um sölu. Í málinu lægi fyrir að listamaðurinn væri raunverulegur seljandi, sbr. meðfylgjandi staðfestingu þess efnis.

Með úrskurði, dags. 19. maí 2020, höfnuðu tollyfirvöld kröfu kæranda. Í úrskurðinum kom fram að umrætt listaverk, sbr. tilgreint sendingarnúmer, félli undir tollskrárnúmerið 9703.0000 og uppfyllti að því leyti skilyrði 4. tölul. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, fyrir þargreindri undanþágu frá virðisaukaskatti. Hins vegar væri verkið ekki flutt inn af listamanninum sjálfum og væri því skilyrði undanþáguákvæðisins ekki uppfyllt hvað það varðaði. Ennfremur væri seljandi verksins þriðji aðili, þ.e. gallerí, en ekki listamaðurinn sjálfur. Væru skilyrði fyrir undanþágu virðisaukaskatts af vöru í umræddri sendingu ekki uppfyllt og væri því staðfest höfnun á beiðni um undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar er vísað til röksemda í kæru til tollstjóra. Tekið er fram í kærunni að með úrskurði yfirskattanefndar nr. 133/2016 hafi verið fallist á að undanþága samkvæmt 2. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, tæki til sölu listaverks sem selt hefði verið með milligöngu listaverkasala. Í því máli hafi legið fyrir eins og í tilviki kæranda að milligöngumaður væri umboðsmaður listamanns og listamaðurinn sá aðili er fengi kaupverðið greitt og greiddi þóknun til milligöngumanns. Í úrskurði yfirskattanefndar sé vísað til 14. gr. EES-samningsins sem leggi bann við álagningu skatta á framleiðsluvörur annarra samningsríkja, en ákvæðinu sé ætlað að tryggja frjálsa vöruflutninga innan EES-svæðisins. Þá sé í úrskurði yfirskattanefndar vísað til sjónarmiða í dómi Hæstaréttar Íslands frá 15. maí 2003 í málinu nr. 477/2002. Að því er best fáist séð virði tollyfirvöld í engu þessar niðurstöður Hæstaréttar og yfirskattanefndar þegar tilgreint sé að túlka verði undantekningu á virðisaukaskatti við innflutning þröngt og þannig sé það skilyrði undanþágu 2. tölul. 4. gr. laga 50/1998 að listamaðurinn sjálfur flytji verk til Íslands.

IV.

Með bréfi, dags. 14. október 2020, hefur tollgæslustjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Af hálfu tollgæslustjóra er tekið fram að grundvallarmunur sé á úrskurði yfirskattanefndar sem kærandi vísi til og þess máls sem hér um ræði. Í því máli sem fjallað hafi verið um í úrskurði nr. 133/2016 hafi salan átt sér stað beint frá listamanni. Hins vegar hafi ágreiningur snúið að því hver væri innflytjandi. Í máli kæranda sé listagallerí söluaðilinn og engin staðfesting um að listamaðurinn sjálfur sé seljandi í einhverju formi. Í tilefni kæru kæranda hafi tollgæslustjóri óskað eftir því við yfirskattanefnd að fá málið til nýrrar meðferðar, sbr. tölvupóst 3. september 2020. Þeirri beiðni hafi verið svarað með tölvupósti yfirskattanefndar 8. september 2020 þar sem fram komi að málið sé í ferli og ljúki annaðhvort með úrskurði eða afturköllun af hálfu kæranda.

Í bréfi ríkisskattstjóra frá 22. febrúar 1991 sé fjallað um virðisaukaskatt af sölu listaverka og söluþóknun fyrir listaverkasölu (bréf nr. 270/1991). Þar sé gerð grein fyrir skilyrðum þess að sala fyrir milligöngu listaverkasala falli undir undanþáguákvæði 2. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988. Ekkert í gögnum málsins gefi til kynna að kaup kæranda á listaverkinu hafi verið í samræmi við þau skilyrði. Aftur á móti hafi tollyfirvöld ekki óskað sérstaklega eftir gögnum þar að lútandi og því sé ekki að fullu útilokað að salan hafi verið á milli listamannsins og kæranda, fyrir tilstuðlan milligönguaðila. Sé því vakin sérstök athygli á nefndum skilyrðum og biðlað til kæranda að skila inn nauðsynlegum gögnum.

Með bréfi, dags. 15. október 2020, hefur umboðsmaður kæranda lagt fram athugasemdir sínar vegna umsagnar tollgæslustjóra. Kveðst umboðsmaðurinn hafa óskað eftir nánari leiðbeiningum tollgæslustjóra um þau atriði sem leiða þurfi í ljós til að krafa kæranda fáist samþykkt. Jafnframt er tekið fram að telja megi að kærandi hafi þegar uppfyllt að hluta skilyrði samkvæmt því sem fram komi í umsögn tollgæslustjóra en vart geti staðist meðalhófsreglu að krefjast uppfyllingar sumra skilyrða sem þar komi fram.

V.

Kæra í máli þessu lýtur að því hvort kæranda beri að greiða virðisaukaskatt vegna innflutnings á höggmynd á árinu 2019, sbr. 34. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, eins og tollyfirvöld hafa talið, ellegar hvort innflutningur höggmyndarinnar sé undanþeginn virðisaukaskatti á grundvelli 4. tölul. 1. mgr. 36. gr. sömu laga. Samkvæmt síðargreinda ákvæðinu eru listaverk sem falla undir tollskrárnúmer 9701.1000 til 9703.0000 og listamaðurinn sjálfur flytur inn undanþegin virðisaukaskatti við innflutning.

Í úrskurði tollgæslustjóra kom fram að ekki væri gerður ágreiningur um það við kæranda að hið innflutta verk ætti undir tollskrárnúmer 9703.0000. Hins vegar taldi tollgæslustjóri erindi kæranda stranda á því að kærandi hefði flutt verkið inn til landsins en ekki listamaðurinn sjálfur. Ennfremur skaut tollgæslustjóri þeirri stoð undir niðurstöðu sína að kærandi hefði ekki keypt verkið af listamanninum sjálfum heldur af þriðja aðila, þ.e. listmunasala.

Umsögn tollgæslustjóra vegna kæru kæranda til yfirskattanefndar verður að skilja þannig að tollyfirvöld geti út af fyrir sig fallist á sjónarmið kæranda um að umrætt listaverk hafi verið flutt hingað til lands á vegum listamannsins sjálfs í skilningi 4. tölul. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 2. tölul. 39. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Þetta sé þó háð því að kærandi teljist hafa keypt verkið af listamanninum. Þar telja tollyfirvöld hnífinn standa í kúnni, enda verði ekki annað ráðið, miðað við fyrirliggjandi gögn, en að kærandi hafi keypt listaverkið af listmunasala en ekki af listamanninum. Í umsögninni kemur þó jafnframt fram að þetta sé ekki óyggjandi og að rétt hefði verið að tollyfirvöld gengju úr skugga um aðkomu listmunasala að viðskiptum með vöruna áður en ágreiningur um tollákvörðun væri til lykta leiddur.

Tollyfirvöldum bar að sjá til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en ákvörðun væri tekin í því, sbr. 30. og 119. gr. tollalaga nr. 88/2005 og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er fallist á það með tollgæslustjóra að miðað við þær forsendur sem lágu að baki ákvörðun um virðisaukaskatt af hinni innfluttu vöru bar nauðsyn til þess að aflað yrði nánari upplýsinga um þau atriði sem tollyfirvöld töldu ráða úrslitum um skattskylduna. Eins og málið liggur fyrir samkvæmt framansögðu þykir bera að fella hinn kærða úrskurð, dags. 19. maí 2020, úr gildi og leggja fyrir tollgæslustjóra að taka málið til nýrrar meðferðar og uppkvaðningar úrskurðar að nýju að gættum nauðsynlegum undirbúningi. Kæranda til leiðbeiningar skal tekið fram að unnt er að skjóta nýjum úrskurði tollgæslustjóra um kæruefnið til yfirskattanefndar, telji kærandi ástæðu til þess.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og kæra kæranda send tollgæslustjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs úrskurðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja