Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðagjald
  • Undanþága frá gjaldskyldu

Úrskurður nr. 146/2020

Lög nr. 39/1988, 4. gr. c-liður (brl. nr. 37/2000, 4. gr.).  

Bifreiðin B var af árgerð 1995 samkvæmt ökutækjaskrá Samgöngustofu. Fallist var á með kæranda að telja bæri bifreiðina eldri en 25 ára í upphafi árs 2020, enda bæri að telja aldur bifreiða frá og með árgerðarári. Var bifreiðin því talin undanþegin bifreiðagjaldi.

Ár 2020, miðvikudaginn 18. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 104/2020; kæra A, dags. 30. júlí 2020, vegna ákvörðunar bifreiðagjalds árið 2020. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 30. júlí 2020, hefur kærandi skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 22. maí 2020, til yfirskattanefndar. Kæruefnið varðar ákvörðun bifreiðagjalds af bifreiðinni B. Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi.

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik með þeim hætti að ríkisskattstjóra barst þann 23. janúar 2020 kæra frá kæranda vegna álagningar bifreiðagjalds. Krafðist kærandi þess að álagning bifreiðagjalds árið 2020 af bifreiðinni B yrði felld niður. Byggði kærandi kröfu sína á c-lið 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, enda væri bifreiðin eldri en 25 ára. Með úrskurði ríkisskattstjóra var beiðni kæranda hafnað með vísan til þess að gögn málsins bentu til þess að umrædd bifreið væri framleidd árið 1995 og væri því ekki eldri en 25 ára.

II.

Í kæru til yfirskattanefndar vísar kærandi til rökstuðnings síns í kæru sinni til ríkisskattstjóra, dags. 23. janúar 2020. Þar kemur fram að samkvæmt c-lið 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, skulu bifreiðir sem eru eldri en 25 ára í upphafi gjaldárs, talið frá og með árgerðarári þeirra, vera undanþegnar bifreiðagjaldi. Kærandi vísar til þess að sú bifreið, sem hér um ræðir, með skráningarnúmerið B, sé af gerðinni Ford … og sé samkvæmt ökutækjaskrá Samgöngustofu nýskráð í febrúar 1995, en árgerðar sé þar ekki getið. Forskráning og tollafgreiðsla hennar sé skráð í febrúar 1995. Bifreiðin hafi verið flutt inn af tilgreindu einkafyrirtæki en ekki af umboðssala Ford á Íslandi. Kærandi hafi keypt bifreiðina árið 2003 og hafi hún þá verið sögð vera af árgerð 1995. Kærandi hafi þá leitað að skráðu framleiðslunúmeri bifreiðarinnar á veraldarvefnum sem hafi leitt í ljós að umrædd bifreið væri árgerð 1995. Með kæru sinni hefur kærandi látið fylgja útprentun af tiltekinni vefsíðu þessu til stuðnings. Þá vísar kærandi til þess að við öflun varahluta vegna viðgerðar á sjálfskiptingu bifreiðarinnar hafi komið í ljós að sú gerð sjálfskiptingar sem sé í umræddri bifreið hafi verið skipt út fyrir nýrri tegund af sjálfskiptingu um mitt framleiðsluár 1995. Kærandi vísar jafnframt til túlkunar og sjónarmiða varðandi framkvæmd c-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988 sem fram komi í úrskurði yfirskattanefndar nr. 106/2018.

III.

Með bréfi, dags. 15. september 2020, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Ríkisskattstjóri vísar til 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, þar sem taldar séu upp með tæmandi hætti flokkar ökutækja sem undanþegnar séu bifreiðagjaldi. Samkvæmt c-lið 4. gr. laganna séu bifreiðir eldri en 25 ára í upphafi gjaldárs, talið frá og með árgerðarári þeirra, undanþegnar bifreiðagjaldi, sbr. og c-lið 5. gr. reglugerðar nr. 359/1998, um bifreiðagjald. Samkvæmt ökutækjaskrá sé bifreiðin B af árgerð 1995, auk þess sem framleiðslunúmer hennar segi til um að hið sama.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 15. september 2020, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

IV.

Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði embættisins, dags. 22. maí 2020, að hafna beiðni kæranda um niðurfellingu bifreiðagjalds af bifreiðinni B vegna ársins 2020. Beiðni kæranda byggði á því að samkvæmt ökutækjaskrá Samgöngustofu hefði bifreiðin verið nýskráð árið 1995 og flutt inn það sama ár. Þá benti skráð framleiðslunúmer umræddrar bifreiðar til þess að bifreiðin væri af árgerð 1995. Ríkisskattstjóri synjaði beiðni kæranda með þeim rökum að samkvæmt c-lið 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, væru bifreiðir sem væru eldri en 25 ára í upphafi gjaldárs, talið frá og með árgerðarári, undanþegnar gjaldskyldu. Samkvæmt því sem fram kæmi í ökutækjaskrá Samgöngustofu, sbr. einnig upplýsingar um framleiðslunúmer amerískra bifreiða á vef Samgöngustofu, væri umrædd bifreið af árgerð 1995 og því teldist ökutækið ekki eldra en 25 ára í upphafi gjaldárs 2020.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með áorðnum breytingum, skal greiða til ríkissjóðs bifreiðagjald af bifreiðum sem skráðar eru hér á landi eins og nánar er ákveðið í lögunum. Mælt er fyrir um fjárhæð gjaldsins í 2. gr. laganna og gjalddaga o.fl. í 3. gr. Í 4. gr. laganna er kveðið á um að tilteknar bifreiðir skuli vera undanþegnar bifreiðagjaldi. Samkvæmt c-lið 4. gr. skulu bifreiðir sem eru eldri en 25 ára í upphafi gjaldárs, talið frá og með árgerðarári þeirra, vera undanþegnar bifreiðagjaldi. Í c-lið 5. gr. reglugerðar nr. 359/1998, um bifreiðagjald, með áorðnum breytingum, sem sett er með stoð í lögum nr. 39/1988, kemur jafnframt fram að þær bifreiðir sem eru eldri en 25 ára í upphafi gjaldárs, talið frá og með árgerðarári þeirra, séu undanþegnar bifreiðagjaldi.

Í 72. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, sbr. áður 64. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, kemur fram að ráðherra setji reglur um skráningu ökutækja í ökutækjaskrá. Í 4. gr. reglugerðar nr. 751/2003, um skráningu ökutækja, með síðari breytingum, segir að Umferðarstofa haldi ökutækjaskrá og annist aðra umsýslu varðandi skráningu ökutækja, gerð þeirra og búnað. Með lögum nr. 119/2012, um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, færðust öll verkefni Umferðarstofu til Samgöngustofu. Samkvæmt 7. gr. starfsreglna Samgöngustofu um upplýsingamiðlun úr ökutækjaskrá, dags. 29. ágúst 2019, eru m.a. færðar í ökutækjaskrá upplýsingar um árgerð og framleiðsluár bifreiðar sem fengnar eru frá framleiðanda bifreiðar. Þá er fyrsti skráningardagur bifreiðar skráður og tekur hann mið af upplýsingum frá skráningaryfirvöldum.

Í ökutækjaskrá Samgöngustofu er framleiðsluár bifreiðarinnar B tilgreint 1994 en árgerð er í skránni tilgreind 1995. Þykir vafalaust að árið 1995 sé „árgerðarár“ bifreiðarinnar samkvæmt c-lið 4. gr. laga nr. 39/1988. Ágreiningur málsins stendur hins vegar um hvort bifreiðin teljist orðin eldri en 25 ára í skilningi c-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988 í upphafi gjaldárs 2020.

Í almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 39/1988 kemur fram að einstaka greinar frumvarpsins þarfnist ekki nánari skýringa. Er því að enga vísbendingu að finna í frumvarpinu um nánari skýringu ákvæði c-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988 um ákvörðun aldurs bifreiðar til að þargreind undanþága teljist taka til hennar. Samkvæmt lagaákvæðinu ber að telja aldur bifreiða frá og með árgerðarári. Í tilviki bifreiðarinnar B er árið 1995 því fyrsta árið í talningu aldursára. Tuttugasta og fimmta aldursárið er þá árið 2019. Eftir að 25 ár hafa þannig verið í dilk dregin geta ekki verið áhöld um að í upphafi árs 2020 beri að telja bifreiðina „eldri en“ 25 ára. Því er fallist á kröfu kæranda í máli þessu.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum, ber undir ríkisskattstjóra að framkvæma gjaldabreytingar samkvæmt úrskurði þessum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja