Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 466/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 10. gr. 2. mgr. — 11. gr. — 13. gr. — 16. gr. 2. mgr. — 32. gr. — 100. gr. 5. mgr.
Söluhagnaður — Fasteign — Íbúðarhúsnæði — Atvinnuhúsnæði — Fyrnanleg eign — Fyrnanleg fasteign — Söluhagnaður fasteignar — Söluhagnaður ófyrnanlegrar fasteignar — Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði — Söluhagnaður fyrnanlegrar fasteignar — Söluhagnaður, frestun skattlagningar — Frestun skattlagningar söluhagnaðar — Frestun skattlagningar söluhagnaðar af íbúðarhúsnæði — Frestun skattlagningar söluhagnaðar af fyrnanlegri fasteign — Stofnverð — Bókfært verð — Hlutafélag — Félagsslit — Úthlutun við félagsslit — Söluhagnaður, útreikningur — Útreikningur söluhagnaðar — Kröfugerð ríkisskattstjóra
Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 14. júní 1990, fer umboðsmaður kæranda fram á, að frestað verði um tvenn áramót skattlagningu söluhagnaðar annars vegar af A 2.477.478 kr. og hins vegar af B 10 322.767 kr. og komi því ekki til skattlagningar gjaldárið 1989.
Ríkisskattstjóri hefur gert svofelldar kröfur í málinu með bréfi, dags. 12. mars 1991:
„Fallast ber á kröfu kæranda sbr. 16. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt.“
Eftir öllum atvikum og með vísan til 16. gr. laga nr. 75/1981, sbr. og kröfugerð ríkisskattstjóra, er fallist á kröfu kæranda varðandi frestun skattlagningar söluhagnaðar af B. Samkvæmt málsgögnum seldi kærandi hlutafélaginu X 50% norðurhluta A með kaupsamningi, dags. 25. febrúar 1988, og var söluverð 3.200.000 kr. Kærandi tilgreindi stofnverð 3.755.041 kr. Í kæruúrskurði skattstjóra, dags. 14. maí 1990, segir varðandi söluhagnað af eign þessari: „Söluhagnaður af sölu fasteignar að A 24 kr. 2.477.478 færður til tekna í reit 77 á skattframtali. Þessi söluhagnaður reiknast á eftirfarandi hátt: Bókfært verð fasteigna við úttekt úr Trésmiðju Y h.f. var kr. 1.445.045, hluti yðar því kr. 722.522. Söluverð skv. eyðublaði RSK 3.02 með skattframtali var því kr. 3.200.000 mismunur því kr. 2.477.478.“ Auk eigin trésmiðjurekstrar var kærandi hluthafi í nefndu hlutafélagi. Skv. upplýsingum í framtali kæranda var hlutafélagi þessu slitið 10. febrúar 1988 og kom í hans hlut 50% af eignum og skuldum félagsins, þar á meðal hin selda eign sem var atvinnuhúsnæði og fyrnanleg eign. Þegar það er virt, sem hér hefur verið rakið, verður frestun skattlagningar ekki byggð á 16. gr. laga nr. 75/1981 eins og ríkisskattstjóri telur. Frestunarheimild þykir á hinn bóginn vera fyrir hendi, sbr. 13. gr. nefndra laga. Er því fallist á kröfu kæranda um frestun skattlagningar á söluhagnaði af eign þessari, en enginn ágreiningur er um fjárhæð hans.