Úrskurður yfirskattanefndar

  • Stimpilgjald
  • Fyrstu kaup íbúðarhúsnæðis
  • Sératkvæði

Úrskurður nr. 174/2020

Lög nr. 138/2013, 5. gr. 3. mgr., 4. mgr. og 8. mgr. (brl. nr. 125/2015, 39. gr.)  

Kærandi gerði á árinu 2014 samning við sveitarfélag um leigu á íbúðarhúsalóð að K og hóf í kjölfarið byggingu íbúðarhúsnæðis á lóðinni. Á árinu 2019 lét kærandi eignina í makaskiptum fyrir íbúð að M. Deilt var um það hvort skilyrði fyrir helmingsafslætti af stimpilgjaldi vegna fyrstu kaupa íbúðarhúsnæðis væru uppfyllt vegna kaupa kæranda á M, en kærandi taldi svo vera þar sem einungis hefði verið um að ræða steypta botnplötu á lóðinni að K. Í úrskurði yfirskattanefndar var bent á að fasteignin að K hefði verið ætluð til nota sem íbúðarhúsnæði og verið skráð sem slík í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands þegar kærandi lét hana í makaskiptum fyrir M. Var fallist á með sýslumanni að um íbúðarhúsnæði væri að ræða í skilningi laga um stimpilgjald. Einn nefndarmaður yfirskattanefndar taldi að taka bæri kröfu kæranda til greina þar sem fasteign, sem aðeins væri á byggingarstigi 2 samkvæmt viðmiðunum Þjóðskrár Íslands, gæti ekki talist íbúðarhúsnæði í skilningi laga.

Ár 2020, miðvikudaginn 16. desember, er tekið fyrir mál nr. 54/2020; kæra A, dags. 3. apríl 2020, vegna ákvörðunar stimpilgjalds. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Bjarnveig Eiríksdóttir og Anna Dóra Helgadóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 3. apríl 2020, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar þeirri ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu að synja honum um helmingsafslátt af stimpilgjaldi við þinglýsingu kaupsamnings um íbúð að M á þeim grundvelli að ekki hafi verið um fyrstu kaup kæranda á íbúðarhúsnæði að ræða, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga um stimpilgjald nr. 138/2013, enda hafi kærandi átt fyrir íbúðarhúsnæði að K.

Í kæru til yfirskattanefndar er farið fram á endurskoðun á ákvörðun sýslumanns og þess krafist að fallist verði á rétt kæranda til helmingsafsláttar af stimpilgjaldi. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að kærandi hafi keypt íbúðarhúsnæðið að M m.a. með skiptum á leigulóð, sbr. lóðarleigusamning frá 2014, botnplötu og teikningum að K. Hafi K verið í byggingu við undirritun kaupsamningsins, nánar tiltekið á byggingarstigi 2 (undirstöður), skv. íslenskum staðli ÍST51. Samkvæmt staðlinum sé byggingarleyfi fyrsta byggingarstigið af sjö. Sé það skilningur kæranda að kaup kæranda á M séu fyrstu íbúðarkaup hans, enda hafi hann ekki áður verið eigandi að íbúðarhúsnæði heldur aðeins leigulóð og botnplötu við K. Eigi hann því að njóta helmingsafsláttar á stimpilgjaldi, sbr. 5. gr. laga um stimpilgjald. Kærandi hafi lengi barist við að eignast þak yfir höfuðið og muni um hverja krónu. Búi hann í foreldrahúsum þar til hann geti flutt inn í sitt fyrsta húsnæði að M sem verði þegar kaupendur K hafi komið þeirri fasteign á það stig að þau geti flutt þangað inn.

Er rakið í kærunni að samkvæmt 3. gr. laga um stimpilgjald nr. 138/2013 skuli greiða stimpilgjald af skjölum er varða eignaryfirfærslu fasteigna hér á landi og skipa yfir 5 brúttótonnum sem skrásett eru hér á landi, svo sem afsölum, kaupsamningum og gjafagerningum. Í almennum athugasemdum frumvarps þess er varð að lögum nr. 138/2013 komi m.a. fram að stimpilgjaldsskylda vegna lánaskjala og lóðarleigusamninga falli brott. Í 3. mgr. 5. gr. laga um stimpilgjald sé kveðið á um að ekki beri að greiða nema hálft stimpilgjald af gjaldskyldu skjali þegar um sé að ræða fyrstu kaup einstaklings á íbúðarhúsnæði. Samkvæmt 4. og 5. mgr. 5. gr. laganna séu skilyrði afsláttar að kaupandi íbúðarhúsnæðis hafi ekki áður verið þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði og að kaupandi íbúðarhúsnæðis verði þinglýstur eigandi að a.m.k. helmingi þeirrar eignar sem keypt sé. Kaup kæranda á M hafi verið fyrstu kaup kæranda á íbúðarhúsnæði. Hafi kærandi ekki keypt K heldur hafi hann gert leigusamning um lóð, sótt um og fengið byggingarleyfi og hafist handa við byggingu. Jafnframt sé ekki hægt að líta svo á að kærandi hafi, fyrir kaupin á M, verið þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði. Eigi hann því rétt á helmingsafslætti stimpilgjalds.

Er nánar rakið að K hafi ekki verið húsnæði í réttindatíð kæranda og því síður íbúðarhúsnæði, enda eigi skilgreiningar á þeim orðum í íslenskri orðabók ekki við um eign kæranda svo sem nánar er rakið. Fari skilgreining orðabókarinnar saman við íslenskan staðal um byggingarstig húsa og reglur um veðhæfi húss. Byggingarstig 4 sé fokheld bygging og við það sé veðhæfi eignar bundið. Með hliðsjón af framangreindu geti bygging ekki talist húsnæði fyrr en í fyrsta lagi þegar bygging sé með veggjum og þaki, þ.e. við fokheldisúttekt byggingarfulltrúa. Sé botnplata eðli máls samkvæmt ekki húsnæði og því síður íbúðarhúsnæði. Er auk þess bent á að ekki megi taka húsnæði til notkunar, þ.e. íbúðar í tilviki íbúðarhúsnæðis, fyrr en eftir lokaúttekt byggingarfulltrúa á byggingarstigi 7, sem sé fullgerð bygging. Afsláttarreglan í 5. gr. laga um stimpilgjald nr. 138/2013 hafi komið inn í lögin í meðförum Alþingis sem breytingartillaga og að henni sé vikið í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Í nefndarálitinu sé m.a. vísað til sambærilegrar ívilnunar í áðurgildandi lögum um stimpilgjald nr. 36/1978. Sú eldri ívilnun hafi þó verið frábrugðin að því leyti að hún tók til stimpilgjalds af lánum til fyrstu kaupa íbúðarhúsnæðis. Sú meginbreyting hafi hins vegar orðið á með nýju stimpilgjaldslögunum að aðeins skjöl vegna eignayfirfærslu geti verið grundvöllur gjaldskyldu, þ.m.t. afsláttar. Í kærunni er vísað til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 103/2019 þar sem því var hafnað að eignarhald á hlut í íbúðarhúsnæði, sem kærandi hafði eignast fyrir arftöku, yrði lagt að jöfnu við kaup á slíku húsnæði, enda hefði kærandi ekki haft viðkomandi íbúð til eigin nota. Hafi krafa kæranda um helmingsafslátt stimpilgjalds í því máli verið tekin til greina. Með hliðsjón af framangreindum úrskurði megi spyrja hvaða munur sé á því að eignast íbúð fyrir arf og að fá lóð (gera lóðarleigusamning) og hefja byggingu með byggingu botnplötu.

Loks er nefnt í kærunni að af lögskýringargögnum þegar 8. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013 hafi verið felld niður með 39. gr. laga nr. 125/2015, megi ráða að einstaklingur eigi rétt á afslætti af stimpilgjaldi í eitt sinn vegna kaupa á íbúðarhúsnæði. Kærandi hafi aldrei notið slíks afsláttar, enda hafi hann ekki keypt íbúðarhúsnæði fyrr en með kaupum á M.

Með tölvupósti, dags. 19. maí 2020, gerði umboðsmaður kæranda grein fyrir kostnaði kæranda af málinu.

III.

Með bréfi, dags. 3. september 2020, hefur sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagt fram umsögn vegna kærunnar. Í umsögninni er rakið að í lögum um stimpilgjald nr. 138/2013 segi í a-lið 4. mgr. 5. gr. að skilyrði helmingsafsláttar sé að kaupandi hafi ekki áður verið þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði. Kærandi hafi sannanlega verið þinglýstur eigandi að fasteigninni K áður en kaupsamningi vegna M hafi verið þinglýst. Um það sé ekki deilt, heldur um það hvort sú fasteign geti hafa talist íbúðarhúsnæði í skilningi tilvitnaðs lagaákvæðis á þeim tíma sem kærandi var eigandi hennar. Kærandi telji svo ekki vera þar sem einungis hafi verið um að ræða botnplötu, en ekki byggingu með veggjum og þaki eins og tilgreint sé í skilgreiningu íslenskrar orðabókar á orðinu bygging.

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands sé fasteign skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá um leið og sveitarfélag hafi samþykkt og skráð teikningar fyrir eignina. Sýslumaður styðjist við upplýsingar úr fasteignaskránni við ákvörðun stimpilgjalda. Telja verði að um íbúðarhúsnæði sé að ræða þá þegar eignin hafi verið skráð sem slík hjá viðkomandi sveitarfélagi. Af þessum sökum hafi kæranda verið synjað um afslátt af stimpilgjöldum þar sem hann hafi áður verið þinglýstur eigandi að fasteigninni K sem var skráð sem íbúðarhúsnæði. Þegar fasteign sé skráð sem íbúðarhúsnæði sé ljóst að tilgangur hennar sé sá að búið verði í henni og verði að telja að sá sem festi kaup á slíkri eign eða hefji byggingu á henni geri það í þeim tilgangi að nota hana sem íbúðarhúsnæði. Telji sýslumaður ekki unnt að líkja atvikum málsins við atvik í úrskurði yfirskattanefndar nr. 103/2019. Í því tilviki hafi kærandi ekki sjálfur fest kaup á fasteign í þeim tilgangi að búa í henni heldur eignast hana fyrir lögbundinn arf.

Með bréfi, dags. 28. september 2020, hefur kærandi gert athugasemdir í tilefni af umsögn sýslumanns. Er bent á að ekki geti ráðið úrslitum hvenær fasteignaskrá skrái fasteign sem íbúð, enda komi ekki fram í lögum um stimpilgjald að taka eigi mið af því. Skattlagningarheimildir verði að vera skýrar og ótvíræðar og allan vafa beri að túlka skattborgara í hag. Þá virðist túlkun sýslumanns andstæð tilgangi laga um stimpilgjald. Er ítrekuð tilvísun til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 103/2019 og tekið fram að kærandi hafi ekki hlotið afslátt á stimpilgjaldi við kaup á K. Þá hafi kaup á þeirri eign ekki verið til eigin nota í skilningi laganna, enda sé ekki hægt að nota húsnæði á byggingarstigi 2 til íbúðar.

IV.

Atkvæði meirihluta, Sverris Arnar Björnssonar og Bjarnveigar Eiríksdóttur:

Kæruefni í máli þessu er ákvörðun stimpilgjalds af kaupsamningi um kaup kæranda á íbúðarhúsnæði að M á árinu 2019. Samkvæmt gögnum málsins var kaupsamningurinn lagður inn til þinglýsingar hjá sýslumanni og greitt stimpilgjald að fjárhæð 398.000 kr. og reiknaðist það af fasteignamati hinnar keyptu eignar sem nam 49.750.000 kr. Eins og fram er komið synjaði sýslumaður kæranda um helmingsafslátt á stimpilgjaldi þar sem ekki væri um að ræða fyrstu íbúðarkaup kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald. Vísaði sýslumaður til þess að kærandi hefði áður verið eigandi íbúðarhúsnæðis að K. Af hálfu kæranda er ákvörðun sýslumanns mótmælt á þeim forsendum að K geti ekki talist íbúðarhúsnæði í skilningi 4. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013, enda hafi aðeins verið um að ræða steypta botnplötu á íbúðarhúsalóð, þ.e. fasteign á byggingarstigi 2 samkvæmt viðmiðunum Þjóðskrár Íslands. Ekki hafi því verið um húsnæði að ræða.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, skal m.a. greiða stimpilgjald af skjölum er varða eignaryfirfærslu fasteigna hér á landi. Um gjaldstofn stimpilgjalds í þessum tilvikum fer samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 5. gr. laganna skal greiða 0,8% stimpilgjald af gjaldskyldum skjölum ef rétthafi er einstaklingur. Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar greiðist hálft stimpilgjald af gjaldskyldu skjali þegar um er að ræða fyrstu kaup einstaklings á íbúðarhúsnæði. Þá kemur fram í a-lið 4. mgr. lagagreinarinnar að skilyrði helmingsafsláttar af stimpilgjaldi samkvæmt 3. mgr. sé að kaupandi hafi ekki verið áður þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði. Samkvæmt b-lið sömu málsgreinar er jafnframt skilyrði að kaupandi íbúðarhúsnæðis verði þinglýstur eigandi að a.m.k. helmingi þeirrar eignar sem keypt er. Nánari skilyrði fyrir afslætti stimpilgjalds er að finna í 5., 6. og 7. mgr. 5. gr. laganna. Í 8. mgr. 5. gr. var kveðið á um að „[m]eð íbúðarhúsnæði í 3.-7. mgr. er eingöngu átt við íbúðarhúsnæði til eigin nota“. Þetta ákvæði var fellt úr lögum með 39. gr. laga nr. 125/2015, um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2016.

Í athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 125/2015, kemur fram að lagt sé til að afsláttur á stimpilgjaldi vegna fyrstu kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði takmarkist ekki við eigin not þeirra á hinu keypta húsnæði. Þetta skilyrði laganna hafi reynst erfitt í framkvæmd, enda geti verið örðugt að sýna fram á að íbúðarhúsnæði sé eingöngu keypt til eigin nota. Þá geti þetta einnig leitt til fremur ósanngjarnrar og óheppilegrar niðurstöðu, t.d. í þeim tilvikum þegar eigandinn flytji tímabundið erlendis vegna náms eða starfa eða leigi húsnæðið út tímabundið til að fjármagna kaupin á því. Hafa verði í huga að einstaklingur eigi einungis rétt á umræddum afslætti á stimpilgjaldi í eitt skipti vegna kaupa á íbúðarhúsnæði og séu því ekki taldar ástæður til að setja frekari skorður fyrir afslættinum.

Í lögum nr. 138/2013 er ekki að finna skilgreiningu á hugtakinu íbúðarhúsnæði eða nein ákvæði sem á annan hátt skera úr um beitingu þess skilyrðis laganna, að kaupandi slíks húsnæðis hafi ekki áður verið þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði, við slíkar aðstæður sem greinir í málinu, þ.e. þegar um er að ræða húsnæði í byggingu sem ætlað er til íbúðar. Ljóst er þó að eftir fyrrgreinda breytingu á 5. gr. laganna með 39. gr. laga nr. 125/2015 hefur ekki lengur þýðingu hvort húsnæðið sé ætlað til eigin nota hlutaðeigandi einstaklings eða ekki. Verður að telja að þessi breyting mæli frekast gegn túlkun kæranda á umræddu skilyrði, þ.e. að einkum skipti máli hvort unnt sé að taka viðkomandi húsnæði til íbúðar eða ekki við mat á því hvort um sé að ræða íbúðarhúsnæði í skilningi laga nr. 138/2013, enda horfir greind breyting til hlutlægari viðmiðana í þessu sambandi. Þá er til þess að líta að í a-lið 7. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013 er gert ráð fyrir því að við ákvörðun sýslumanns um helmingsafslátt af stimpilgjaldi liggi fyrir upplýsingar úr fasteignaskrá um að kaupandi hafi ekki áður verið þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði. Í fasteignaskrá skal skrá allar fasteignir í landinu og er skráin grundvöllur þinglýsingabókar fasteigna, mats fasteigna og húsaskrár Þjóðskrár Íslands, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, með áorðnum breytingum. Óumdeilt er í málinu að fasteignin að K var ætluð til nota sem íbúðarhúsnæði og var skráð sem slík í fasteignaskrá þegar kærandi lét hana í makaskiptum fyrir fasteignina að M í nóvember 2019. Að þessu athuguðu verður að fallast á með sýslumanni að um íbúðarhúsnæði sé að ræða í skilningi 4. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013. Fær sú niðurstaða auk þess stuðning í skilgreiningu hugtaksins íbúðarhúsnæði í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 555/2017, um samræmt verklag við ráðstöfun iðgjalda til séreignarsparnaðar til stuðnings kaupa á fyrstu íbúð, sem sett er á grundvelli 2. mgr. 6. gr. laga nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, þar sem fram kemur að með íbúðarhúsnæði sé átt við fasteign sem hafi sérstakt fasteignanúmer sem slík í fasteignaskrá og uppfylli skilyrði fyrir lögheimilisskráningu, sbr. ennfremur athugasemdir við 1. gr. frumvarps þess, sem varð að lögum nr. 111/2016. Er tekið fram í reglugerðarákvæðinu að sé um að ræða nýbyggingu skuli hún vera komin með fastanúmer í fasteignaskrá. Leikur enginn vafi á því að skýra verður fyrirvara ákvæðisins um að eign uppfylli skilyrði lögheimilisskráningar svo að eign sé ætluð til íbúðar en ekki til annars, svo sem atvinnurekstrar, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 80/2018, um lögheimili og aðsetur, og ákvæði þeirra laga að öðru leyti. Rök þykja standa til samræmdrar túlkunar að þessu leyti þar sem lagaskilyrði fyrir helmingsafslætti af stimpilgjaldi vegna fyrstu kaupa íbúðarhúsnæðis, sbr. fyrrgreind ákvæði 3. og 4. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013, eiga sér hliðstæðu í 2. mgr. 2. gr. fyrrnefndra laga nr. 111/2016 vegna skattfrjálsrar úttektar séreignarsparnaðar.

Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, verður að fallast á með sýslumanni að skilyrði fyrir helmingsafslætti af stimpilgjaldi vegna fyrstu kaupa íbúðarhúsnæðis séu ekki uppfyllt í tilviki kæranda vegna kaupa hans á íbúðinni að M, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013. Verður því að hafna kröfu kæranda. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna málskostnaðarkröfu kæranda, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Atkvæði minnihluta, Önnu Dóru Helgadóttur:

Kæruefni í máli þessu er ákvörðun stimpilgjalds af kaupsamningi um kaup kæranda á íbúðarhúsnæði að M á árinu 2019. Samkvæmt gögnum málsins var kaupsamningurinn lagður inn til þinglýsingar hjá sýslumanni og greitt stimpilgjald að fjárhæð 398.000 kr. og reiknaðist það af fasteignamati hinnar keyptu eignar sem nam 49.750.000 kr. Eins og fram er komið synjaði sýslumaður kæranda um helmingsafslátt á stimpilgjaldi þar sem ekki væri um að ræða fyrstu íbúðarkaup kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald. Vísaði sýslumaður til þess að kærandi hefði áður verið eigandi íbúðarhúsnæðis að K. Af hálfu kæranda er ákvörðun sýslumanns mótmælt á þeim forsendum að K geti ekki talist íbúðarhúsnæði í skilningi 4. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013, enda hafi aðeins verið um að ræða steypta botnplötu á íbúðarhúsalóð, þ.e. fasteign á byggingarstigi 2 samkvæmt viðmiðunum Þjóðskrár Íslands. Ekki hafi því verið um húsnæði að ræða.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, skal m.a. greiða stimpilgjald af skjölum er varða eignaryfirfærslu fasteigna hér á landi. Um gjaldstofn stimpilgjalds í þessum tilvikum fer samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 5. gr. laganna skal greiða 0,8% stimpilgjald af gjaldskyldum skjölum ef rétthafi er einstaklingur. Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar greiðist hálft stimpilgjald af gjaldskyldu skjali þegar um er að ræða fyrstu kaup einstaklings á íbúðarhúsnæði. Þá kemur fram í a-lið 4. mgr. lagagreinarinnar að skilyrði helmingsafsláttar af stimpilgjaldi samkvæmt 3. mgr. sé að kaupandi hafi ekki verið áður þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði. Samkvæmt b-lið sömu málsgreinar er jafnframt skilyrði að kaupandi íbúðarhúsnæðis verði þinglýstur eigandi að a.m.k. helmingi þeirrar eignar sem keypt er. Nánari skilyrði fyrir afslætti stimpilgjalds er að finna í 5., 6. og 7. mgr. 5. gr. laganna. Í 8. mgr. 5. gr. var kveðið á um að „[m]eð íbúðarhúsnæði í 3.-7. mgr. er eingöngu átt við íbúðarhúsnæði til eigin nota“. Þetta ákvæði var fellt úr lögum með 39. gr. laga nr. 125/2015, um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2016. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 125/2015 kemur fram að lagt sé til að afsláttur á stimpilgjaldi vegna fyrstu kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði takmarkist ekki við eigin not þeirra á hinu keypta húsnæði enda hafi þetta skilyrði reynst erfitt í framkvæmd og geti leitt til ósanngjarnrar og óheppilegrar niðurstöðu. Ennfremur er bent á að hafa verði í huga að einstaklingur eigi einungis rétt á umræddum afslætti á stimpilgjaldi í eitt skipti vegna kaupa á íbúðarhúsnæði og séu því ekki taldar ástæður til að setja frekari skorður fyrir afslættinum.

Fyrir liggur í málinu að kærandi gerði á árinu 2014 samning við sveitarfélag um leigu á íbúðarhúsalóð að K og var þeim samningi þinglýst á lóðina. Þá má ráða af upplýsingum í málinu að kærandi hafi ráðist í framkvæmdir á lóðinni og fasteignin verið komin á byggingarstig 2 við kaup kæranda á íbúðarhúsnæði að M, sbr. kaupsamning um K og M, dags. ... nóvember 2019. Lýtur ágreiningur í máli þessu að því hvort með framangreindu teljist kærandi áður hafa verið þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði í skilningi 4. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013.

Ekki er að finna í lögum nr. 138/2013 skilgreiningu á hugtakinu íbúðarhúsnæði. Ljóst verður þó að teljast að fasteign sem aðeins er á byggingarstigi 2 geti ekki talist íbúðarhúsnæði í skilningi laganna, enda þótt hún sé á skipulagðri íbúðarhúsalóð, þar sem í því felst að aðeins eru komnar undirstöður og að framkvæmdir eru hafnar, samkvæmt því sem fram kemur í skilgreiningu á matsstigi Þjóðskrár Íslands, sem byggir á íslenskum staðli um byggingastig húsa ÍST 51. Þá liggur fyrir að fasteignin að K uppfyllti ekki skilyrði lögheimilisskráningar, sbr. 2. gr. laga nr. 80/2018, um lögheimili og aðsetur, en samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins skal lögheimili skráð í tiltekinni íbúð eða eftir atvikum húsi, við tiltekna götu eða í dreifbýli, sem er skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og hefur staðfang. Kemur fram á heimasíðu Þjóðskrár (www.skra.is) að einungis sé heimilt að skrá lögheimili í íbúðarhúsnæði og þurfi húsnæðið að vera komið á byggingarstig 4. Með hliðsjón af framangreindu verður að líta svo á að kærandi hafi við kaup á M ekki verið áður þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði og hafi honum því borið réttur til helmingsafsláttar á stimpilgjaldi við þinglýsingu kaupsamningsins. Tel ég því að taka beri kröfu kæranda til greina.

Vegna niðurstöðu meirihluta er ekki tilefni til umfjöllunar af minni hálfu um málskostnaðarkröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja