Úrskurður yfirskattanefndar
- Aðflutningsgjöld
- Tollflokkun
- Torfærutæki
Úrskurður nr. 175/2020
Lög nr. 88/2005, 20. gr. Lög nr. 29/1993, 4. gr. (brl. nr. 156/2010, 2. gr.) Almennar reglur um túlkun tollskrár.
Deilt var um tollflokkun ökutækis af gerðinni Ziesel Street. Kærandi leit svo á að ökutækið félli undir vörulið 8701 í tollskrá sem dráttarvél, en tollgæslustjóri taldi ökutækið falla undir vörulið 8703 í tollskrá sem ökutæki til mannflutninga. Féllst tollstjóri ekki á með kæranda að ökutækið væri aðallega gert til að draga eða ýta í skilningi vöruliðar 8701. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að um væri að ræða lítið og tiltölulega létt rafknúið ökutæki á skriðbeltum sem gerðu því kleift að komast um torfærur af ýmsu tagi. Með vísan til þess, hönnunareiginleika ökutækisins og útbúnaðar þess að öðru leyti var ekki fallist á með kæranda að ökutækið gæti talist aðallega gert til að draga eða ýta, sbr. athugasemd 2 við 87. kafla tollskrár. Var kröfum kæranda hafnað.
Ár 2020, miðvikudaginn 16. desember, er tekið fyrir mál nr. 70/2020; kæra A ehf., dags. 29. apríl 2020, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Kæra í máli þessu, dags. 29. apríl 2020, varðar kæruúrskurð tollgæslustjóra, dags. 4. mars 2020, um ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings kæranda á ökutæki af gerðinni Ziesel street á árinu 2019. Samkvæmt úrskurði tollgæslustjóra var ökutækið talið falla undir tollskrárnúmer 8703.1010 í tollskrá sem ökutæki aðallega gert til mannflutninga, nánar tiltekið sem rafknúið ökutæki sérstaklega gert til aksturs í snjó. Af hálfu kæranda er hins vegar litið svo á að ökutækið falli undir vörulið 8701 í tollskrá sem dráttarvél. Er þess krafist af hans hálfu að ákvörðun tollgæslustjóra verði hnekkt og að ökutækið verði talið falla undir tollskrárnúmer 8701.1010 í tollskrá. Þá er þess krafist í kærunni að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.
II.
Málavextir eru þeir að á árinu 2019 flutti kærandi til landsins ökutæki af gerðinni Ziesel Street. Í hinum kærða úrskurði tollgæslustjóra, dags. 4. mars 2020, kemur fram að við afgreiðslu á aðflutningsskjali vegna innflutnings umrædds ökutækis hafi embættið gert þá athugasemd að ökutækið skyldi tollflokka í tollskrárnúmer 8703.1010. Með tölvupósti kæranda 3. desember 2019 var þeirri afstöðu tollgæslustjóra mótmælt. Kom fram að tækið, sem flutt væri inn frá Austurríki, væri tegundarskráð þar í landi sem dráttarvél á beltum og ætti þar af leiðandi að falla undir tollskrárnúmer 8701.3000 sem beltadráttarvél. Um væri að ræða dráttarvél með fjölbreytta notkunarmöguleika og verulega dráttargetu. Var vísað til meðfylgjandi ljósmyndar af sambærilegu ökutæki. Af hálfu tollgæslustjóra var brugðist við með bréfi til kæranda, dags. 4. desember 2019, þar sem fram kom að tollgæslustjóri liti svo á að ökutækið félli undir vörulið 8703 í tollskrá sem ökutæki til mannflutninga og bæri 30% vörugjald á grundvelli c-liðar 3. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Leiðbeindi tollgæslustjóri kæranda um kærurétt samkvæmt 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 vegna ákvörðunarinnar.
Í kjölfar frekari samskipta vegna málsins, sbr. tölvupóst kæranda 23. desember 2019 ásamt gögnum og tölvupóst tollgæslustjóra 27. sama mánaðar, fór kærandi fram á það með kæru til tollgæslustjóra, dags. 21. janúar 2020, að embættið endurskoðaði ákvörðun sína varðandi tollflokkun hins innflutta ökutækis. Var bent á í kærunni að samkvæmt skráningu Samgöngustofu væri ökutækið skráð sem dráttarvél og vísað til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 185/2018 þar sem nefndin hefði talið ökutæki með útlit og hönnunareinkenni fjórhjóls falla undir vörulið 8701 í tollskrá sem dráttarvél. Varðandi dráttargetu var skírskotað til meðfylgjandi yfirlýsingar framleiðanda ökutækisins, Mattro GmbH, dags. 18. desember 2019, þar sem fram kæmi að ökutækið gæti dregið allt að 800 kg hlass á flötu yfirborði á 15 km hraða.
Af hálfu tollgæslustjóra var kæran tekin til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 4. mars 2020, þar sem kröfum kæranda var hafnað. Í úrskurðinum vísaði tollgæslustjóri til þess að tollyfirvöld væru við tollflokkun bundin af tollalögum og tollskrá og skýringum að baki slíkum fyrirmælum, þ. á m. skýringarbókum Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO). Gæti skráning Samgöngustofu á ökutækjum því ekki haft neina úrslitaþýðingu varðandi hvaða tollskrárnúmer ökutæki hlyti við tollflokkun. Þá var vísað til 1. gr. í almennum reglum um túlkun tollskrár, sbr. viðauka við tollalög nr. 88/2005. Tollgæslustjóri reifaði skilgreiningu hugtaksins dráttarvél í athugasemd 2 við 87. kafla tollskrár og gerði grein fyrir eiginleikum sem ökutæki þyrfi að hafa til þess að geta talist dráttarvél, m.a. með vísan til evrópsku tollskrárinnar. Yrði að hafna því að leggja þær viðbótarupplýsingar, sem kærandi hefði aflað og félagið teldi bera með sér að ökutækið gæti dregið tvöfalda þurraþyngd sína, til grundvallar úrlausn málsins, enda kæmi ekkert fram í gögnum málsins um hönnunar- eða notkunareiginleika ökutækisins sem benti til þess að það gæti talist dráttarvél samkvæmt vörulið 8701 í tollskrá. Væru atvik málsins að þessu leyti ólík atvikum í máli því sem til meðferðar væri í úrskurði yfirskattanefndar nr. 185/2018. Að mati tollgæslustjóra og með hliðsjón af hönnun ökutækisins og markaðssetningar þess á heimasíðu framleiðanda væri ökutækinu fyrst og fremst ætlað að flytja einn ökumann yfir snjó eða gróft undirlag, ekki ósvipað vélsleða eða fjórhjóli. Yrði því að telja ökutækið falla undir tollskrárnúmer 8703.1010 og bera 30% vörugjald á grundvelli c-liðar 3. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993.
III.
Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 29. apríl 2020, eru málavextir raktir. Fram kemur að kærandi telji tollflokkun tollgæslustjóra ranga og að rétt sé að fella ökutækið undir tollskrárnúmer 8701.3000 í tollskrá. Vísar kærandi til þess að hjá Samgöngustofu sé ökutækið skráð sem „dráttarvél III (C3) á beltum“. Sá flokkur taki til dráttarvéla sem ekki séu hannaðar til hraðari aksturs en 40 km/klst. og með eigin þyngd 600 kg eða minna, sbr. skilgreiningu í 1. gr. reglugerðar nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja, með áorðnum breytingum. Kærandi telji ökutækið falla undir skilgreiningu hugtaksins dráttarvél í 87. kafla tollskrár. Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 185/2018 hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að ökutæki með útlits- og hönnunareinkenni fjórhjóls teldist vera dráttarvél sem félli undir tollskrárnúmer 8701.3000. Innbyrðis ósamræmis gæti í rökstuðningi tollyfirvalda hvað snerti eiginleika sem einkenni dráttarvélar, en í hinum kærða úrskurði sé sérstaklega tekið fram að umrætt ökutæki sé ekki hannað til að draga eða ýta öðru ökutæki. Skilgreining hugtaksins dráttarvél, sem tollgæslustjóri hafi vísað til, beri hins vegar með sér að hlutverk dráttarvéla sé ekki bundið við að ýta eða draga annað ökutæki heldur einnig „tækjum eða hlassi, einnig með aukabúnaði til að flytja verkfæri, sáðfræ, áburð eða aðrar vörur“, eins og þar segi. Ekki sé því hægt að líta til þröngrar skilgreiningar tollgæslustjóra á hugtakinu heldur verði að líta til hinnar almennu skilgreiningar í tollskrá. Í tilefni af ákvörðun tollyfirvalda í málinu hafi kærandi aflað upplýsinga frá framleiðanda ökutækisins, Mattro GmbH, um dráttargetu þess. Þær upplýsingar beri með sér að ökutækið geti dregið þyngra hlass en sem svarar til tvöfaldrar eigin þyngdar eða allt að 800 kg á flötu yfirborði á 15 km hraða á klst. Kærandi líti svo á að félagið hafi axlað sönnunarbyrði varðandi dráttargetu ökutækisins og því sé tollflokkun tollgæslustjóra röng, sbr. og úrskurð yfirskattanefndar nr. 185/2018. Í þeim úrskurði sé m.a. tekið fram að í tollskrá Evrópusambandsins sé ekki gert ráð fyrir því að upplýsingar, eins og þær sem tollgæslustjóri hafi aflað í öndverðu um dráttargetu, taki af skarið um raunverulega dráttargetu heldur geti innflytjandi ökutækis lagt fram upplýsingar frá framleiðanda um raunverulega dráttargetu. Rangthermt sé í úrskurði tollgæslustjóra að greindur úrskurður yfirskattanefndar hafi ekki fordæmisgildi fyrir mál kæranda.
Þá vísar kærandi til þess að enga umfjöllun sé að finna í hinum kærða úrskurði um það hvernig búnaði ökutækis, t.d. sætis-, stýris- og bremsubúnaði, þurfi að vera háttað svo ökutæki teljist aðallega gert til þess að draga annað ökutæki eða hlass. Að mati kæranda sé tilvísun tollgæslustjóra haldlaus, enda liggi ekki fyrir upplýsingar um hvernig búnaði þurfi almennt að vera háttað svo ökutæki geti talist aðallega gert til dráttar, né hvernig slíkum búnaði sé háttað í hinu innflutta ökutæki. Þá líti kærandi svo á að umfjöllun í úrskurðinum, þess efnis að ökutæki þurfi að hafa tengibúnað af einhverju tagi til að geta talist aðallega gert til þess að draga annað ökutæki eða hlass, renni stoðum undir kröfu kæranda, enda sé ökutækið búið fullkomnum tengibúnaði. Gera verði alvarlegar athugasemdir við að í hinum kærða úrskurði sé vísað til markaðsefnis sem ekki sé hluti af gögnum málsins og kærandi hafi ekki átt þess kost að kynna sér eða andmæla á neinu stigi málsins. Slíkt verklag fái ekki samrýmst skyldum stjórnvalda, sbr. 13. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
IV.
Með bréfi, dags. 19. júní 2020, hefur tollgæslustjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Í umsögn tollgæslustjóra eru sjónarmið hans vegna röksemda í kæru kæranda reifuð. Er m.a. ítrekað í umsögninni að skráning Samgöngustofu á ökutæki annars vegar og tollflokkun þess hins vegar sé ekki sami hluturinn og lúti ekki sömu aðferðafræði. Um skráningu ökutækja fari eftir reglugerð nr. 751/2003 sem sett sé með stoð í umferðarlögum nr. 50/1987. Tollyfirvöld séu hins vegar bundinn af tollskrá við tollflokkun vöru, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 20. gr. tollalaga nr. 88/2005. Því hafi skráning ökutækis hjá Samgöngustofu ekki úrslitaþýðingu um hvernig ökutækið, sem um sé deilt, skuli tollflokkað samkvæmt tollskrá. Þá kemur fram að ekki hafi verið ástæða til að vefengja upplýsingar frá framleiðanda ökutækisins um að það geti dregið meira en tvöfalda eigin þyngd sína. Óumdeilt sé í úrskurðaframkvæmd að dráttargeta sé viðmið þegar til álita komi að meta hvort ökutæki geti talist vera dráttarvél í skilningi tollskrár. Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 186/2018 komi fram að þótt dráttargeta ökutækis skipti miklu máli við mat á því, hvort ökutæki teljist aðallega gert til þess að draga eða ýta í skilningi tollskrár, þá geti dráttargeta ein og sér ekki skákað ökutæki undir vörulið 8701 án tillits til eiginleika viðkomandi ökutækis og útbúnaðar að öðru leyti. Verði í því sambandi einnig að líta til hönnunar- og notkunareiginleika þess ökutækis sem um ræði. Að mati tollgæslustjóra beri hið umþrætta ökutæki ekki með sér að geta talist vera dráttarvél, sé litið til hönnunar þess og eiginleika og með tilliti til upplýsinga um markaðssetningu þess á heimasíðu framleiðanda. Ökutækið beri með sér að vera fyrst og fremst hannað til að flytja einn ökumann yfir snjó eða gróft undirlag. Þá sé niðurstaða tollgæslustjóra um tollflokkun í samræmi við bindandi áliti á vettvangi Evrópusambandsins nr. AT2014/000056 þar sem sama ökutæki sé tollflokkað í vörulið nr. 8703 sem ökutæki til fólksflutninga.
Vegna athugasemda í kæru kæranda varðandi tilvísun tollgæslustjóra til upplýsinga framleiðanda ökutækisins er bent á í umsögn tollgæslustjóra að í ákvörðun hans 4. desember 2017 (sic) sé vísað til markaðssetningar á heimasíðu framleiðanda. Því hafi kærandi átt þess kost að kynna sér og koma að athugsemdum varðandi þær upplýsingar. Með hliðsjón af eðli þeirra upplýsinga megi auk þess ætla að þær séu réttar, enda sé um að ræða upplýsingar frá framleiðanda ökutækisins. Því sé hafnað að brotið hafi verið gegn andmælarétti kæranda við meðferð málsins.
Með bréfi, dags. 14. júlí 2020, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum vegna umsagnar tollgæslustjóra. Er bent á að misskilnings gæti í umsögninni um úrskurð yfirskattanefndar nr. 186/2018 að því leyti að sá úrskurður hafi varðað tollflokkun fjórhjóla en ekki svokallaðra buggy-bíla, svo sem tollgæslustjóri haldi fram. Sá greinarmunur skipti máli, en af úrskurðaframkvæmd yfirskattanefndar leiði að buggy-bílar falli undir vörulið 8703, sbr. úrskurði nefndarinnar nr. 185/2018, 188/2018 og 147/2019. Þá verði að gera athugasemdir við að tollyfirvöld vísi til sérvalinna gagna um markaðsefni ökutækisins sem henti málatilbúnaði þeirra, en taki að engu leyti tillit til þeirra upplýsinga sem kærandi hafi lagt fram, m.a. um burðargetu og tengibúnað ökutækisins og raunverulega dráttargetu þess. Þær upplýsingar sýni að ökutækið nýtist til vinnu á sambærilegan hátt og hefðbundnar dráttarvélar. Ástæða sé til að árétta að tollflokkun byggi á hlutlægum grundvelli og ekki skipti máli við slíka flokkun hvort nýta megi ökutæki í fleiri en einum tilgangi, svo sem í afþreyingarskyni. Þá verði ekki séð að markaðssetning ökutækis hafi neina þýðingu við tollflokkun þess, sbr. dóm Evrópudómstólsins í máli nr. C-91/15. Eins og forsendur þess dóms beri með sér breyti það ekki tollflokkun dráttarvéla þótt unnt sé að nota slíkar vélar til afþreyingar.
V.
Eins og fram er komið varðar kæra í máli þessu kæruúrskurð tollgæslustjóra, dags. 4. mars 2020, um ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings kæranda á ökutæki af gerðinni Ziesel Street á árinu 2019. Samkvæmt úrskurði tollgæslustjóra var ökutækið talið falla undir vörulið 8703 í tollskrá sem ökutæki aðallega gert til mannflutninga, nánar tiltekið undir tollskrárnúmer 8703.1010 („Ökutæki sérstaklega gerð til aksturs í snjó; golfbifreiðar og áþekk ökutæki: Á beltum: Rafknúin“). Í kæru til yfirskattanefndar er hins vegar litið svo á að ökutækið falli undir vörulið 8701 í tollskrá sem dráttarvél. Þykir ljóst að álagning vörugjalds sé ástæða ágreinings í málinu, en ökutæki sem falla undir vörulið 8701 í tollskrá (dráttarvélar) eru undanþegin vörugjaldi, sbr. h-lið 1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með áorðnum breytingum.
Um álagningu vörugjalds á skráningarskyld ökutæki fer samkvæmt fyrrgreindum lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga þessara skal við flokkun til gjaldskyldu samkvæmt lögunum fylgt flokkunarreglum tollalaga. Um ákvæði þetta og samspil laga nr. 29/1993 við skýringu tollskrár með tilliti til álagningar vörugjalds hefur verið fjallað í úrskurðaframkvæmd yfirskattanefndar, sbr. einkum úrskurð nefndarinnar nr. 7/2018 þar sem deilt var um ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings sendibifreiðar. Eins og bent er á í úrskurði þessum eru gjaldflokkar í lögum nr. 29/1993 ekki miðaðir við tiltekin tollskrárnúmer heldur eru þeir skilgreindir með sjálfstæðum hætti. Var talið verða að ganga út frá því að féllu skilgreiningar gjaldflokka í lögum nr. 29/1993 ekki að sundurliðun og skýringum tollskrár bæri að fara eftir hinum fyrrnefndu ákvæðum við ákvörðun gjaldstigs vörugjalds. Það leiðir af framansögðu að leysa ber úr ágreiningi í máli þessu á grundvelli flokkunarreglna tollalaga, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1993, en þó að því gættu sem fyrr greinir um sérstaka þýðingu ákvæða síðarnefndra laga um gjaldskyldu sérstakra flokka ökutækja. Í samræmi við þetta verður fyrst vikið að tollflokkun ökutækja sem í málinu greinir.
Í almennum reglum um túlkun tollskrárinnar, sem lögfest var sem viðauki við tollalög nr. 88/2005, kemur fram að við flokkun samkvæmt tollskrá skuli fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum einungis vera til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skuli tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða og athugasemdum við tilheyrandi flokka eða kafla. Í 87. kafla tollskrár er fjallað um ökutæki og hluta og fylgihluti til þeirra. Undir vörulið 8701 falla dráttarvélar (þó ekki dráttarvélar í nr. 8709). Undir vörulið 8703 falla bifreiðar og önnur vélknúin ökutæki aðallega gerð til mannflutninga (þó ekki ökutæki í nr. 8702), þar með taldir skutbílar og kappakstursbílar. Eins og fram er komið leit tollgæslustjóri svo á að hið innflutta ökutæki kæranda félli undir greindan vörulið 8703 í tollskrá, nánar tiltekið undir tollskrárnúmer 8703.1010 sem rafknúið ökutæki sérstaklega gert til aksturs í snjó.
Í athugasemd 2 við 87. kafla tollskrár kemur fram að sem dráttarvélar í þeim kafla teljist ökutæki sem aðallega eru gerð til þess að draga eða ýta öðru ökutæki, tækjum eða hlassi, einnig með aukabúnaði til að flytja verkfæri, sáðfræ, áburð eða aðrar vörur auk aðaltilgangs þeirra. Vélar og verkfæri hönnuð til tengingar við dráttarvélar í nr. 8701 sem útskiptanleg tæki flokkist í viðeigandi vöruliði jafnvel þótt þeim sé framvísað með dráttarvélinni, og einnig fest á hana.
Samkvæmt framansögðu er ljóst að það sem skilur á milli ökutækja í vörulið 8701 og 8703 er að fyrrnefndi vöruliðurinn tekur til ökutækja sem aðallega eru gerð til þess að draga eða ýta öðru ökutæki, tækjum eða hlassi á meðan síðarnefndi vöruliðurinn tekur til bifreiða og annarra vélknúinna ökutækja sem eru aðallega gerð til fólksflutninga. Til að ákvarða hvort tiltekið ökutæki geti talist dráttarvél þarf því að leggja mat á hvort það sé aðallega gert til að draga eða ekki. Geta til að draga er ein og sér ekki nægileg til þess að ökutæki falli undir þessa skilgreiningu, enda eru venjulegar fólksbifreiðar oft með búnaði til þess að draga.
Ökutæki sem málið snýst um er af gerðinni Ziesel Street. Í málinu hefur ekki komið fram greinargóð lýsing á ökutækinu, eiginleikum þess og útbúnaði, hvorki af hálfu tollgæslustjóra né kæranda. Tölvupósti kæranda til tollgæslustjóra 3. desember 2019 fylgdi hins vegar ljósmynd af sams konar ökutæki og umsögn tollgæslustjóra í málinu fylgdu útprentanir af vef erlends framleiðanda ökutækja af gerðinni Ziesel Street, Mattro GmbH, með myndum af ökutækjunum og ýmsum upplýsingum um búnað þeirra og eiginleika. Í bréfi kæranda til yfirskattanefndar, dags. 14. júlí 2020, eru gerðar athugasemdir við framlagningu markaðsefnis frá framleiðanda og bent á að tollflokkun ökutækja sé byggð á hlutlægum grundvelli. Ekki geti ráðið úrslitum um tollflokkun þótt nýta megi tæki í fleiri en einum tilgangi, svo sem til afþreyingar. Að öðru leyti er í bréfi kæranda ekki vikið að efni þessara gagna sem eins og fram er komið stafa frá framleiðanda ökutækisins. Verður því að leggja til grundvallar úrlausn málsins að upplýsingar sem þar koma fram, m.a. um stærð, búnað og aðra eiginleika ökutækja af gerðinni Ziesel Street eigi við um hið innflutta ökutæki, enda kemur ekkert annað fram í tölvupósti kæranda. Um er að ræða lítið, rafknúið ökutæki, um 1,5 metra langt og um 1,2 metra breitt, á stálgrind á tveimur gúmmíbeltum sem stjórnað er af sitjandi ökumanni með stýrispinna. Ökutækið er búið veltigrind til að verja ökumann sem situr í körfusæti með fjögurra punkta öryggisbelti sem fest er í grind tækisins. Af hálfu kæranda er komið fram að ökutækið sé með tengibúnað að framanverðu sem geti nýst til að ýta hlassi, sbr. ljósmynd sem fylgdi tölvupósti kæranda 3. desember 2019 sem sýnir ökutæki með áfesta snjótönn að framan. Í ökutækjaskrá Samgöngustofu er ökutækið skráð sem dráttarvél III (T3), en sá flokkur tekur til dráttarvéla sem eigi eru hannaðar til hraðari aksturs en 40 km/klst. og með eigin þyngd 600 kg eða minna, sbr. skilgreiningu í 1. gr. reglugerðar nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja, með áorðnum breytingum. Samkvæmt skráningu Samgöngustofu er eigin þyngd ökutækisins 375 kg og heildarþyngd 600 kg. Skráð þyngd óhemlaðs eftirvagns er 300 kg. Í bréfi framleiðanda, Mattro GmbH, dags. 18. desember 2019, kemur fram að raunveruleg dráttargeta á sléttu yfirborði við lágum hraða sé þó mun meiri, svo sem þar er rakið. Í málinu hefur ekkert komið fram um drægni ökutækisins í akstri.
Samkvæmt framansögðu er um að ræða lítið og tiltölulega létt rafknúið ökutæki á skriðbeltum sem gera því kleift að komast um torfærur af ýmsu tagi. Að því athuguðu og með vísan til þess sem að hér að framan er rakið um hönnunareiginleika ökutækisins og útbúnað þess að öðru leyti verður ekki tekið undir með kæranda að ökutækið geti talist aðallega gert til að draga eða ýta, sbr. athugasemd 2 við 87. kafla tollskrár. Sú staðreynd, að unnt er að koma snjótönn eða hefiltönn fyrir að framanverðu á tækinu, getur engu breytt í því sambandi, enda er slíkum búnaði ekki ætlað að draga eða ýta í eiginlegum skilningi. Þá skal áréttað, vegna þeirrar áherslu sem kærandi hefur lagt á dráttargetu ökutækisins, að þótt dráttargeta ökutækis hljóti að skipta miklu máli við mat þess í einstökum tilvikum, hvort ökutæki teljist aðallega gert til þess að draga eða ýta í skilningi tollskrár, getur dráttargeta ein og sér ekki skákað ökutæki undir vörulið 8701 án tillits til eiginleika þess og útbúnaðar að öðru leyti, enda eru venjulegar fólksbifreiðar oft með búnaði til þess að draga og geta haft yfir að ráða miklum togkrafti. Að því er þetta atriði snertir verður jafnframt að hafa í huga að um er að ræða lítið ökutæki og nokkru minna en þau ökutæki af gerð fjórhjóla sem til umfjöllunar voru í úrskurði yfirskattanefndar nr. 185/2018, sem vísað er til í kæru. Verður því ekki talið að þau sjónarmið um tollflokkun fjórhjóla með mikinn togkraft, sem rakin eru í úrskurði þessum og litið hefur verið til í tollframkvæmd, eigi við með sama hætti í tilviki hins innflutta ökutækis af gerðinni Ziesel Street.
Að framangreindu virtu og með vísan til 1. tölul. í almennum reglum um túlkun tollskrár er fallist á með tollgæslustjóra að hið innflutta ökutæki falli undir tollskrárnúmer 8703.1010 í tollskrá („Ökutæki sérstaklega gerð til aksturs í snjó; golfbifreiðar og áþekk ökutæki: Á beltum: Rafknúin“). Er kröfum kæranda er lúta að því að ökutækið verði talið falla undir vörulið 8701 í tollskrá sem ökutæki aðallega gert til þess að draga eða ýta öðru ökutæki, tækjum eða hlassi, og sé undanþegið vörugjaldi á grundvelli h-liðar 1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993 því hafnað.
Af hálfu kæranda er gerð krafa um að félaginu verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki til staðar lagaskilyrði til að úrskurða kæranda málskostnað. Er kröfu þess efnis því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.