Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattsekt
  • Skattrannsókn
  • Endurupptaka máls

Úrskurður nr. 182/2020

Lög nr. 50/1988, 40. gr. 1. mgr. (brl. nr. 42/1995, 3. gr.)   Lög nr. 19/1940, 74. gr. 1. mgr. 8. tölul.   Lög nr. 37/1993, 24. gr.  

Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 162/2019 var A og B sem fyrirsvarsmönnum X ehf. gerð sekt vegna vanrækslu á skilum virðisaukaskatts félagsins á árunum 2014 og 2015. A og B óskuðu eftir endurupptöku málsins, m.a. þar sem þau töldu að við ákvörðun sektar bæri að taka tillit til fjármuna sem runnið hefðu til ríkissjóðs við uppgjör nauðungarsölu fasteignar í eigu A á árinu 2019. Fyrir lá að eftir að málsmeðferð fyrir yfirskattanefnd lauk eða í ágúst 2020 hafði tilgreindri fjárhæð vegna þessa verið ráðstafað inn á höfuðstól virðisaukaskatts X ehf. Yfirskattanefnd taldi rétt að líta til þess að ríkissjóði hefði verið tryggð ákveðin endurheimt fjármuna með aðfarargerð á hendur A áður en málið var sent yfirskattanefnd. Kom fram að A og B hefðu að þessu leyti verið bundin í báða skó þegar kom að ráðstöfun eigna þeirra og mögulegum greiðslum í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur þeim. Var fallist á endurupptöku málsins að því er varðaði ákvörðun sektar og sekt gjaldenda lækkuð.

Ár 2020, miðvikudaginn 16. desember, er tekið fyrir mál nr. 158/2020; beiðni A og B, dags. 9. október 2020, um endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar nr. 162/2019. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 9. október 2020, sbr. rökstuðning í bréfi, dags. 2. nóvember 2020, hafa gjaldendur farið þess á leit við yfirskattanefnd að nefndin endurupptaki úrskurð sinn nr. 162/2019, sem kveðinn var upp 9. október 2019, vegna kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins um ákvörðun sektar á hendur gjaldendum vegna meintra brota á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Með nefndum úrskurði var gjaldendum gert að greiða sekt að fjárhæð 13.100.000 kr. til ríkissjóðs er skiptist þannig að hvorum gjaldanda fyrir sig var gerð sekt að fjárhæð 6.550.000 kr. samkvæmt greindum lögum fyrir að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskatti er innheimtur var í rekstri einkahlutafélags gjaldenda, X ehf., uppgjörstímabilin maí-júní, júlí-ágúst og september-október 2014 og janúar-febrúar, mars-apríl, maí-júní, júlí-ágúst og nóvember-desember 2015, og vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum á lögmæltum tíma öll framangreind uppgjörstímabil.

Af hálfu gjaldenda er þess krafist að yfirskattanefnd taki mál gjaldenda til nýrrar meðferðar og hafni sektarkröfu á hendur þeim en til vara að fésekt verði stórlega lækkuð með hliðsjón af uppfærðri stöðu og eðli málsins.

II.

Tildrög málsins eru þau að skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf í maí 2018 rannsókn á skattskilum X ehf. rekstrarárin 2014 og 2015. Vegna rannsóknarinnar voru teknar skýrslur af gjaldendum dagana 25. júní og 9. júlí 2018. Með bréfum, dags. 13. ágúst 2018, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldendum skýrslu um rannsóknina, sem dagsett var sama dag, og gaf þeim kost á að tjá sig um efni hennar áður en ákvörðun yrði tekin um framhald málsins. Engar athugasemdir voru gerðar af hálfu gjaldenda. Í kjölfar þessa tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 4. október 2018, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 9. apríl 2019, gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins þá kröfu að gjaldendum yrði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, vegna vangreidds virðisaukaskatts félagsins að fjárhæð samtals 9.019.728 kr. tilgreind uppgjörstímabil árin 2014 og 2015.

Með bréfum yfirskattanefndar, dags. 16. apríl 2019, var gjaldendum veitt færi á að skila vörn í tilefni af kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins. Með bréfi, dags. 16. september 2016, lögðu gjaldendur fram vörn í málinu. Þar vísuðu gjaldendur til þess að þau hefðu ekki átt neina möguleika á að fá fyrirgreiðslu eða bregðast við með öðrum hætti en að bíða eftir því að fjármunir, sem bundnir hefðu verið með fjárnámi í eign þeirra, gengju til ríkissjóðs. Hefðu skuldir félagsins að stóru leyti verið tryggðar með tryggingu/fjárnámi í atvinnuhúsnæði gjaldenda að M. Fjárnámið hefði verið umfram hreina eign gjaldenda og því hvorki verið hægt að selja né greiða. Verðmæti eignarinnar hefði aukist og því verulegir fjármunir sem runnið hefðu í ríkissjóð, en eignin hefði verið seld nauðungarsölu í júlí 2019. Var tekið fram að greiddar hefðu verið samtals 404.320 kr. inn á tímabilin janúar-febrúar og mars-apríl 2015 dagana 26. júní og 1. júlí 2019. Hefði endanleg sala farið í gegnum Ríkiskaup en gjaldendur ekki fengið upplýsingar um endanlegt söluverð og hversu miklu hefði verið ráðstafað inn á skuldir félagsins. Töldu gjaldendur að upphæðin hefði átt að duga til að greiða alla skuld félagsins í virðisaukaskatti auk dráttarvaxta. Þá vísuðu gjaldendur til þess að greiðsla að fjárhæð þrjár milljónir króna, sem innt hefði verið af hendi 4. september 2017 og átti að fara inn á virðisaukaskatt ársins 2015 vegna fjárnámsins, hefði ekki verið greidd inn á það mál af sýslumanni eins og samið hefði verið um.

Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 162/2019, sem kveðinn var upp 9. október 2019, var gjaldendum gert að greiða sekt að fjárhæð 13.100.000 kr. til ríkissjóðs er skiptist þannig að hvorum gjaldanda um sig var gert að greiða sekt að fjárhæð 6.550.000 kr. Byggði sektarákvörðun á hendur gjaldendum á því að á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins væri fullsannað að gjaldendur hefðu sem fyrirsvarsmenn X ehf. vanrækt með saknæmum hætti að standa skil á innheimtum virðisaukaskatti félagsins að fjárhæð 9.019.728 kr. tiltekin uppgjörstímabil árin 2014 og 2015, og vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum félagsins á lögmæltum tíma sömu uppgjörstímabil. Voru brot gjaldenda talin varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Í forsendum úrskurðar yfirskattanefndar voru m.a. raktar fyrirliggjandi upplýsingar um greiðslur X ehf. til innheimtumanns ríkissjóðs vegna staðgreiðslu, virðisaukaskatts og opinberra gjalda frá því að skuldir vegna virðisaukaskatts, sem málið tók til, byrjuðu að myndast 6. ágúst 2014. Fram kom að samkvæmt málsgögnum hefðu alls verið greiddar 2.460.932 kr. á tímabilinu 6. ágúst 2014 til og með 2. apríl 2019 vegna höfuðstóls virðisaukaskatts félagsins, en að engu leyti vegna uppgjörstímabila sem málið varðaði. Þá var í úrskurðinum gerð grein fyrir greiðslum X ehf. á fyrrgreindu tímabili, sem innheimtumaður ríkissjóðs hefði ráðstafað til greiðslu dráttarvaxta, álags og kostnaðar vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts, svo og voru raktar greiðslur til innheimtumanns ríkissjóðs vegna opinberra gjalda X ehf., þ.m.t. tryggingagjalds. Kom fram að samtals væri hér um að ræða greiðslur að fjárhæð 2.208.212 kr. sem líta mætti til við ákvörðun sektarfjárhæðar, svo sem nánar var rakið.

Vegna athugasemda í vörn gjaldenda til yfirskattanefndar um að greiddar hefðu verið 404.320 kr. inn á virðisaukaskattsskuld X ehf. var tekið fram í úrskurðinum að ekkert lægi fyrir í málinu um greiðslur þessar, en skiptum á þrotabúi X ehf. hefði lokið snemma á árinu 2019 og hefði félagið í kjölfar þess verið afskráð. Þá hefðu þessar meintu greiðslur átt sér stað eftir að málið hefði verið sent yfirskattanefnd til meðferðar og hefðu þær því ekki áhrif á niðurstöðu málsins.

III.

Í rökstuðningi vegna endurupptökubeiðni gjaldanda, dags. 2. nóvember 2020, er því haldið fram að við ákvörðun fésektar á hendur gjaldendum hafi ekki verið tekið tillit til fjármuna er tryggðir hafi verið ríkissjóði með fjárnámi í og nauðungarsölu fasteignar gjaldenda að M. Er farið fram á í beiðninni að tekið verði tillit til breyttra forsendna vegna innkominna fjármuna á vanskilareikninga félagsins.

Í beiðninni er nánar rakið að fasteignin að M hafi verið seld nauðungarsölu um vorið 2019. Upphæð sölunnar í uppboðinu hafi verið hærri en forgangskröfur og krafa á fyrsta veðrétti. Við það hafi verið greitt inn á tryggðar skuldir samkvæmt veðrétti eins og kærendur telji rétt að ráðstafa fjármunum, þ.e. virðisaukaskattskröfur að fjárhæð 404.320 kr. samkvæmt öðrum veðrétti vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar og mars-apríl 2015.

Þá hafi Skatturinn nú, eftir fjölda ítrekana, loks lokið uppgjöri á nauðungarsölu fasteignarinnar og hafi samtals 3.610.792 kr. verið greiddar inn á virðisaukaskattsskuld X ehf., sem sé þó minna en rétt hefði verið miðað við markaðsverðmæti eignarinnar. Krefjast gjaldendur þess að tekið verði tillit til þessarar fjárhæðar að fullu við ákvörðun vanskila virðisaukaskatts. Hafi gjaldendur gert athugasemdir við meðferð greiðslu í ágúst 2020 hjá Skattinum þar sem ekki hafi verið staðið skil á greiðslunum samkvæmt öðrum veðrétti eins og ætti við um fyrri greiðslur í sama máli og eins og gjaldendur hafi óskað eftir. Þess í stað hafi verið farið með greiðslurnar samkvæmt reglum nr. 797/2016 og greiðslan færð á elstu eftirstöðvar. Telji gjaldendur þetta fullkomlega óeðlilega meðferð mála og í hrópandi ósamræmi við fyrri gjörðir og forgang krafna.

Þá telji kærendur jafnframt að ekki hafi verið rétt farið með þær þrjár milljónir króna sem gjaldandi, A, hafi greitt í september 2017 inn á fjárnám í M. Hafi greiðslan átt að fara inn á höfuðstól virðisaukaskattsskuldar þeirrar sem úrskurðurinn tekur til vegna forgangs veðréttar sem greiðslan hafi staðið til. Því beri að hækka frádráttarstofn til viðbótar um sem nemi þeim hluta greiðslunnar sem hafi átt að færast á fjárnámskröfuna en ekki verið tekið tillit til, eða um 1.292.763 kr. Telji gjaldendur það alrangt sem fram komi í skýrslu skattrannsóknarstjóra að ekki hafi verið gefin skýr fyrirmæli til sýslumanns um að fjármunum skyldi ráðstafað inn á fjárnám á fasteigninni, enda hafi fjármunirnir verið greiddir til að afstýra nauðungarsölu á eigninni og hafi þeir því eðlilega átt að fara til frádráttar skuld á öðrum veðrétti.

Ennfremur er því haldið fram í beiðninni að fasteignin hafi verið seld af hinu opinbera á verði sem hafi verið langt undir markaðsvirði og að kaupandi fasteignarinnar hafi selt hana stuttu síðar á um 20 milljónir króna. Beri jafnframt að taka tillit til þessa.

Með vísan til þessa telji gjaldendur að uppfyllt sé það skilyrði virðisaukaskattslaga að gerð hafi verið skil á verulegum hluta þess virðisaukaskatts sem málið varðar og að málsbætur séu miklar. Fara gjaldendur fram á að fésektir á hendur þeim verði felldar niður en til vara að fésektir verði endurskoðaðar og stórlega lækkaðar í ljósi uppfærðrar stöðu og eðlis málsins.

Með endurupptökubeiðni gjaldenda fylgja greiðslukvittanir vegna X ehf., frumvarp að úthlutunargerð á söluverði fasteignarinnar að M og svarbréf ríkisskattstjóra, dags. 18. september 2020, vegna erinda gjaldenda frá 19. maí og 20. ágúst 2020 vegna nauðungarsölu á fasteigninni að M.

IV.

Mál þetta varðar beiðni samkvæmt bréfi gjaldenda, dags. 9. október 2020, sbr. rökstuðning í bréfi, dags. 2. nóvember 2020, um endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar nr. 162/2019, sem kveðinn var upp 9. október 2019, vegna kröfu skattrannsóknarstjóra um ákvörðun sektar á hendur gjaldendum vegna meintra brota á skattalögum. Með úrskurði þessum var gjaldendum gert að greiða sekt að fjárhæð 13.100.000 kr. til ríkissjóðs, er skiptist að jöfnu milli gjaldenda. Byggði sektarákvörðun á því að gjaldendur hefðu vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri X ehf. tiltekin uppgjörstímabil árin 2014 og 2015 og vanrækt skil á virðisaukaskattsskýrslum félagsins greind uppgjörstímabil á lögmæltum tíma. Voru brot gjaldanda talin varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Svo sem rakið er í kafla III hér að framan er í endurupptökubeiðni gjaldenda byggt á því að við ákvörðun fésektar á hendur þeim hafi ekki verið tekið tillit til fjármuna er runnið hafi til ríkissjóðs við uppgjör nauðungarsölu fasteignar gjaldanda, A, að M. Þá hafi ekki verið farið rétt með greiðslu sem innt hafi verið af hendi á árinu 2017. Ennfremur beri að taka tillit til þess að fasteign sú sem seld hafi verið nauðungarsölu hafi verið seld á verði sem hafi verið langt undir markaðsvirði.

Í II. kafla hér að framan er gerð nánari grein fyrir máli gjaldanda sem lauk með úrskurði yfirskattanefndar nr. 162/2019. Eins og þar kemur fram leit yfirskattanefnd til greiðslna X ehf. til innheimtumanns ríkissjóðs sem inntar voru af hendi frá því að skattskuldir félagsins, sem kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins laut að, fóru að myndast og þar til mál gjaldenda var lagt fyrir yfirskattanefnd, en í þessu sambandi var við ákvörðun sektarfjárhæðar tekið tillit til innborgana félagsins sem innheimtumaður ríkissjóðs hafði ráðstafað til greiðslu álags og dráttarvaxta vegna virðisaukaskatts svo og var með sama hætti tekið tillit til greiðslna félagsins vegna opinberra gjalda þess, þ.m.t. tryggingagjalds. Tekið skal fram að í úrskurðaframkvæmd hefur jafnframt verið tekið tillit til þess við sektarákvörðun hafi umtalsverðar fjárhæðir verið inntar af hendi vegna vangreiddra skatta eftir að mál til ákvörðunar skattsektar hefur verið sent yfirskattanefnd, enda þótt þær greiðslur hafi ekki haft sömu þýðingu og greiðslur sem inntar eru af hendi fyrir greint tímamark. Af eðli máls leiðir að í þessu sambandi verður ekki litið til greiðslna eftir að málsmeðferð fyrir yfirskattanefnd er lokið.

Hvað snertir greiðslu að fjárhæð 3.000.000 kr., sem innt var af hendi til innheimtumanns ríkissjóðs í september 2017 og gjaldendur telja að ekki hafi verið farið rétt með af hálfu innheimtumanns, skal tekið fram að ekkert hefur komið fram um það að greiðslunni hafi verið ráðstafað í andstöðu við greiðslufyrirmæli, en sem fyrr greinir var greiðslunni ráðstafað inn á elsta tímabil virðisaukaskatts í samræmi við reglur 797/2016, um greiðsluforgang og skuldajöfnun skatta og gjalda, þ.e. inn á uppgjörstímabilið september-október 2010. Þykir ekki ástæða til taka upp málið hvað þennan þátt varðar.

Í endurupptökubeiðni gjaldenda er þess krafist að litið verði til fjármuna er hafi runnið í ríkissjóð á árinu 2020 við uppgjör á nauðungarsölu fasteignar gjaldanda, A, að M, en í þessu sambandi eru jafnframt gerðar athugasemdir við að fasteignin hafi verið seld of lágu verði. Svo sem fram hefur komið lauk skiptum á þrotabúi X ehf. snemma á árinu 2019 og var félagið afskráð í kjölfar þess. Var málið lagt fyrir yfirskattanefnd með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 9. apríl 2019. Samkvæmt því sem fram er komið var gert fjárnám í fasteign gjaldanda, A, að M, og hún seld nauðungarsölu um sumarið 2019, þar sem ríkissjóður varð eigandi að fasteigninni. Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 162/2019 var því hafnað að taka tillit til þess að gert hefði verið fjárnám í eigum gjaldanda, A, enda lægi fyrir að engu hefði verið ráðstafað inn á höfuðstól virðisaukaskatts X ehf. vegna þeirra uppgjörstímabila sem málið varðaði áður en málið var sent yfirskattanefnd.

Í svarbréfi Skattsins, dags. 18. september 2020, við erindi gjaldenda, sem fylgir endurupptökubeiðni gjaldenda til yfirskattanefndar, kemur fram að við endursölu fasteignarinnar að M hafi fengist 15.750.000 kr. og hafi jákvæðum mismun af sölunni að fjárhæð 3.206.472 kr. verið ráðstafað í ágúst 2020 upp í elstu skuld X ehf. í virðisaukaskatti. Samkvæmt þessu var umræddri fjárhæð ráðstafað inn á höfuðstól virðisaukaskatts X ehf. eftir að málsmeðferð fyrir yfirskattanefnd lauk. Hvað sem því líður þykir rétt að líta til þess að ríkissjóði var tryggð ákveðin endurheimt fjármuna með þeirri aðfarargerð á hendur gjaldanda, A, sem greinir í málinu, áður en málið var sent yfirskattanefnd. Voru gjaldendur að þessu leyti bundin í báða skó þegar kom að ráðstöfun eigna þeirra og mögulegum greiðslum í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur þeim. Að þessu virtu þykir rétt að endurupptaka mál gjaldenda með tilliti til sektarfjárhæðar. Tekið skal fram að ekki liggur annað fyrir en að nauðungarsala á fasteigninni að M hafi farið fram í samræmi við lög. Verður því ekki talið að athugasemdir í endurupptökubeiðni gjaldenda, þess efnis að fasteignin hafi verið seld langt undir markaðsvirði, geti haft þýðingu fyrir beiðni gjaldenda um endurupptöku málsins.

Í endurupptökubeiðni gjaldenda er ennfremur vísað til þess að í kjölfar nauðungarsölu á fasteigninni að M hafi 404.320 kr. verið greiddar inn á skuld X ehf. í virðisaukaskatti. Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 162/2019 var sambærilegri viðbáru hafnað með því að ekkert lægi fyrir um greiðslur þessar í málinu og vísað til þess að hinar meintu greiðslur hefðu átt sér stað eftir að málið hefði verið sent yfirskattanefnd. Með endurupptökubeiðni gjaldenda fylgja greiðslukvittanir vegna greiðslna inn á virðisaukaskatt X ehf. Er þar annars vegar um að ræða greiðslu frá júní 2019 að fjárhæð 138.433 kr. inn á höfuðstól og 35.106 kr. inn á vexti uppgjörstímabilsins janúar-febrúar 2015 og hins vegar greiðslu frá júlí 2019 að fjárhæð 159.300 kr. inn á höfuðstól uppgjörstímabilsins janúar-febrúar 2015 og greiðslu að fjárhæð 71.481 kr. inn á dráttarvexti uppgjörstímabilsins mars-apríl 2015. Gögn þessi lágu ekki fyrir yfirskattanefnd við uppkvaðningu úrskurðar nr. 162/2019. Með endurupptökubeiðni gjaldenda hefur því verið gerð gleggri grein fyrir atvikum varðandi þennan þátt málsins en áður var gert.

Fram komnar upplýsingar gefa ekki tilefni til þess að taka mál gjaldenda til nýrrar meðferðar með tilliti til refsiábyrgðar vegna þeirra brota sem framin voru í rekstri X ehf. á árunum 2014 og 2015. Á hinn bóginn verður talið rétt, eins og málið liggur fyrir, að taka tillit til fyrrgreindra greiðslna inn á virðisaukaskatt félagsins að fjárhæð annars vegar 3.206.472 kr. og hins vegar 404.320 kr. við ákvörðun sektarfjárhæðar, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Því er mál gjaldenda endurupptekið að því er varðar ákvörðun sektarfjárhæðar.

Með vísan til þess sem rakið er að framan um umræddar greiðslur og að virtum málsatvikum að öðru leyti þykir sekt gjaldenda hæfilega ákveðin 5.000.000 kr. til ríkissjóðs sem skiptist þannig milli þeirra að gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 2.500.000 kr. og gjaldandi, B, greiði sekt að fjárhæð 2.500.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar nr. 162/2019. Sekt gjaldanda, A, lækkar úr 6.550.000 kr. í 2.500.000 kr. Sekt gjaldanda, B, lækkar úr 6.550.000 kr. í 2.500.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja