Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðflutningsgjöld
  • Tækifærisgjöf

Úrskurður nr. 190/2020

Lög nr. 88/2005, 6. gr. 1. mgr. 8. tölul.   Reglugerð nr. 630/2008, 31. gr., 32. gr.  

Fallist var á með kæranda að póstsending til hennar frá Spáni, sem innihélt matvæli af ýmsu tagi, uppfyllti skilyrði tollfrelsis sem tækifærisgjöf (afmælisgjöf).

Ár 2020, miðvikudaginn 23. desember, er tekið fyrir mál nr. 115/2020; kæra A, dags. 14. ágúst 2020, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 14. ágúst 2020, varðar úrskurð tollgæslustjóra, dags. 14. júlí 2020, um ákvörðun aðflutningsgjalda af póstsendingu til kæranda. Nánar tiltekið er deilt um hvort sendingin, sem innhélt matvæli af ýmsu tagi, svo sem reykt kjöt, osta og ólívur, uppfylli skilyrði tollfrelsis sem gjöf samkvæmt a-lið 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi. Af hálfu kæranda er þess krafist að ákvörðun tollgæslustjóra verði hnekkt.

II.

Málavextir eru þeir að sending barst til kæranda sem kom til landsins með pósti frá Spáni þann ... júní 2020. Í sendingunni voru ýmis matvæli, svo sem reykt kjöt, ostar, ólívur og ólívuolía. Tollgæslustjóri lagði aðflutningsgjöld á sendinguna að fjárhæð 4.055 kr. við tollafgreiðslu hennar, sbr. 3. gr. tollalaga nr. 88/2005.

Með kæru til tollgæslustjóra, dags. 30. júní 2020, mótmælti kærandi ákvörðun tollyfirvalda. Greindi kærandi frá því að sendingin væri afmælisgjöf frá móður kæranda á Spáni og hefði því átt að njóta tollfríðindameðferðar samkvæmt a-lið 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga.

Með kæruúrskurði, dags. 14. júlí 2020, hafnaði tollgæslustjóri kröfu kæranda. Í úrskurðinum voru málavextir raktir. Vék tollgæslustjóri að þeirri meginreglu tollalaga sem fram kæmi í 3. gr. laganna, að almenn tollskylda hvíldi á hverjum þeim sem flytti inn vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða yrði ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt tollalögum. Tollfríðindi samkvæmt 1. mgr. 6. gr. tollalaga og 32. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi nr. 630/2008 fælu hins vegar í sér undantekningu frá meginreglunni um almenna tollskyldu. Allar undantekningar frá almennri tollskyldu bæri að túlka þröngt og yrði því að gera ríkar kröfur um að skilyrði fyrir undanþágu væru uppfyllt. Þá vísaði tollgæslustjóri í úrskurði sínum til og reifaði 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga sem varðar tollskyldu gjafa sem sendar eru hingað til lands. Væru þær tollfrjálsar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, þ.e. væri um að ræða gjafir sem aðilar búsettir erlendis sendu hingað til lands eða hefðu með sér frá útlöndum af sérstöku tilefni, þó ekki í atvinnuskyni, enda væri verðmæti gjafarinnar ekki meira en 13.500 kr.

Tollgæslustjóri vísaði þá til þess að hugtakið tækifærisgjöf væri ekki sérstaklega skilgreint í tollalögum eða í reglugerð nr. 630/2008, og væri tollgæslustjóra því falið að leggja mat á hvaða tegundir vara gætu talist til tækifærisgjafa og þannig veitt einstaklingum undanþágu frá greiðslu aðflutningsgjalda með hliðsjón af öðrum skilyrðum gjafafríðinda til handa einstaklingum. Byggði tollgæslustjóri mat sitt á þeirri venju að undanþágur tolla- og skattalaga væru háðar þröngri túlkun og að ríkar kröfur væru gerðar til þess að öll skilyrði fyrir undanþágu greiðslu aðflutningsgjalda væru uppfyllt. Þá væri gert ráð fyrir því að um væri að ræða gjöf frá einum einstaklingi til annars sem gefin væri vegna sérstaks tilefnis í einkalífi viðkomandi, svo sem vegna jóla, afmælis eða fermingar, sbr. 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Mat tollgæslustjóri það sem svo að matvæli líkt og þau sem um ræddi í málinu gætu ekki talist til tækifærisgjafa í skilningi a-liðar 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga og 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008, og hafnaði því kröfu kæranda um fríðindameðferð samkvæmt umræddum ákvæðum.

III.

Greint er frá kröfugerð kæranda í kafla I hér að framan. Í kæru til yfirskattanefndar vísar kærandi til þess að hún hafi verið búsett á Íslandi í nokkur ár. Móðir kæranda hafi sent kæranda afmælisgjöf, sem innihélt hefðbundin matvæli frá heimalandi kæranda, Spáni, þ.e. reykt kjöt, osta, ólívuolíu og ólívur. Tekur kærandi fram að um sé að ræða hefðbundna gjöf í spænskri menningu. Kærandi mótmæli því að þurfa að greiða aðflutningsgjöld að fjárhæð 4.055 kr., enda séu tækifærisgjafir undanþegnar greiðslu slíkra gjalda.

IV.

Með bréfi, dags. 12. október 2020, hefur tollgæslustjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að ákvörðun embættisins verði staðfest. Tollgæslustjóri tekur fram í umsögn sinni að það sé ekki hans hlutverk að skilgreina hvað teljist tækifærisgjöf í almennum skilningi, heldur einungis að leggja mat á það hvers eðlis gjafirnar eru til að tryggja að rétt álagning fari fram við innflutning vörunnar. Tollgæslustjóra beri að leggja til grundvallar málefnalegt mat, gæta hlutleysis og jafnræðissjónarmiða samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Tollgæslustjóri vísar til fyrrgreindra ákvæða 6. gr. tollalaga nr. 80/2005 og 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008, sem vísað var til í úrskurði tollgæslustjóra. Kemur fram að tilgangur þessara ákvæða hafi ekki verið að heimila tollfríðindameðferð á almennum matvælum eða öðrum almennum sendingum sem sendar séu til einstaklinga hér á landi. Tollgæslustjóri verði að líta til heildarmyndar við mat á því hvort tollfríðindi eigi við og grundvallist það m.a. af þeim fjölda sendinga sem komi til landsins og innihaldi almennar neysluvörur, svo sem matvæli, tannkrem og drykkjarvörur. Telji tollgæslustjóri það stríða gegn meginreglu um að undanþágur skuli túlka þröngt ef almennar neysluvörur, sem fáist að öðru leyti hér á landi, falli undir undanþágur frá almennri tollskyldu.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 14. október 2020, var kæranda sent ljósrit af umsögn tollyfirvalda og henni gefinn kostur að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Var gefinn 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Mál þetta varðar ákvörðun aðflutningsgjalda af sendingu til kæranda frá Spáni sem kom til landsins þann ... júní 2020. Við meðferð málsins hjá tollyfirvöldum kom fram af hálfu kæranda að um væri að ræða afmælisgjöf frá móður kæranda og að sendingin ætti því að njóta tollfríðindameðferðar samkvæmt 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005. Því hafnaði tollgæslustjóri þar sem hann taldi sendinguna ekki geta talist til tækifærisgjafar í skilningi a-liðar 8. tölul. málsgreinarinnar, enda væri um að ræða undantekningarákvæði sem skýra yrði þröngt.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. tollalaga nr. 88/2005 er hver sá tollskyldur sem flytur vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt ákvæðum laganna, sbr. þó 4. gr. laganna um takmarkaða tollskyldu aðila sem þar eru tilgreindir. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. skal greiða toll af þeim vörum sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins en í 6. gr. laganna er mælt fyrir um vissar vörur sem skuli vera tollfrjálsar. Kemur þar fram í 8. tölul. 1. mgr. að gjafir sem sendar séu hingað til lands skuli vera tollfrjálsar í tilgreindum tilvikum sem talin eru í þremur stafliðum. Tekur a-liður ákvæðisins til gjafa sem aðilar búsettir erlendis senda hingað til lands eða hafa með sér frá útlöndum af sérstöku tilefni, þó ekki í atvinnuskyni, enda sé verðmæti gjafarinnar ekki meira en 13.500 kr. Sé verðmæti gjafar meira en 13.500 kr. skal gjöf þó einungis tollskyld að því marki sem hún er umfram þá fjárhæð að verðmæti. Tekið er fram að brúðkaupsgjafir skuli vera tollfrjálsar þótt þær séu meira en 13.500 kr. að verðmæti, enda sé að mati tollyfirvalda um eðlilega og hæfilega gjöf að ræða.

Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2005 er ráðherra falið að kveða nánar á með reglugerð um skilyrði tollfrelsis samkvæmt lagagreininni. Hefur það verið gert með reglugerð nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi, þar sem í V. kafla er fjallað um skilyrði tollfríðinda vegna gjafa, arfs o.fl. Samkvæmt 1. mgr. 31. gr. reglugerðarinnar gildir sá kafli um tollfríðindi vegna gjafa og annars tiltekins varnings sem fluttur er inn án endurgjalds. Í 2. mgr. 31. gr. er sérstaklega tekið fram að undanþágur samkvæmt V. kafla taki ekki til skráningarskyldra ökutækja, vélknúinna farartækja eða áfengis og tóbaks. Í 32. gr. er fjallað um tollfríðindi vegna tækifærisgjafa. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins eru tækifærisgjafir sem aðilar búsettir erlendis senda til landsins eða hafa meðferðis frá útlöndum vegna tilefna sem tengjast einkalífi, svo sem vegna jóla, afmælis eða fermingar, undanþegnar aðflutningsgjöldum, enda sé verðmæti þeirra að hámarki 10.000 kr. miðað við smásöluverð á innkaupsstað. Sé verðmætið meira skal reikna aðflutningsgjöld af því verðmæti sem er umfram þá fjárhæð. Tekið er fram að brúðargjafir séu undanþegnar gjöldum án tillits til verðmætismarkanna, enda séu þær eðlilegar og hæfilegar að mati tollstjóra og fluttar inn eigi síðar en sex mánuðum frá brúðkaupi. Samkvæmt 2. mgr. 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008 skal meta hverja gjöf sérstaklega með tilliti til framangreindra skilyrða ef í vörusendingu eru gjafir til tveggja eða fleiri aðila eða gjafir frá tveimur eða fleiri aðilum til sama aðila sem sýnt þykir að hafi af hagkvæmnisástæðum verið pakkað saman til flutnings.

Af hálfu kæranda er komið fram í málinu að umrædd sending, sem innihélt matvæli, þ.e. reykt kjöt, osta og ólívur eftir því sem fram kemur í úrskurði tollgæslustjóra, hafi verið afmælisgjöf frá móður hennar sem búsett sé á Spáni. Hafa út af fyrir sig ekki verið bornar brigður á það af hálfu tollgæslustjóra að sendingin stafi frá móður kæranda á Spáni. Þá þykir mega álykta að ekki sé deilt um að verðmæti sendingarinnar sé undir fjárhæðarmörkum samkvæmt a-lið 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005. Samkvæmt ákvæði þessu er skilyrði tollfrelsis að um gjöf af sérstöku tilefni sé að ræða, sbr. 1. mgr. 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008 þar sem afmælisgjafa er m.a. getið í dæmaskyni. Af úrskurðaframkvæmd má ráða að við mat á því, hvort umrætt skilyrði sé uppfyllt, hafi verið litið til þess hvenær sending berst viðtakanda og þannig verið gerð krafa um að sending berist honum í kringum tilefni sem við á, sbr. m.a. úrskurð ríkistollanefndar nr. 2/2014. Hvað þetta snertir liggur fyrir að komudag umræddrar sendingar til landsins bar upp á afmælisdag kæranda. Ákvörðun tollgæslustjóra um höfnun tollfríðindameðferðar var hins vegar byggð á því að slík matvæli sem um ræðir gætu ekki talist til tækifærisgjafar í skilningi a-liðar 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, enda yrði að skýra ákvæði um undanþágur frá tollskyldu þröngt samkvæmt viðteknum lögskýringarsjónarmiðum. Í umsögn tollgæslustjóra er m.a. bent á að gæta þurfi málefnalegra sjónarmiða og jafnæðis í þessu sambandi í ljósi þess að fjöldi sendinga berist til landsins sem innihaldi almennar neysluvörur, svo sem matvæli.

Hvorki í a-lið 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga né í V. kafla reglugerðar nr. 630/2008 er að finna nein ákvæði þess efnis að matvæli geti ekki undir neinum kringumstæðum talist til tækifærisgjafar eða séu að öðru leyti undanskilin tollfríðindum, sbr. hins vegar ákvæði 2. mgr. 31. gr. reglugerðarinnar sem tiltekur sérstaklega áfengi og tóbak. Þá verður ekki séð að tiltæk lögskýringargögn að baki umræddu lagaákvæði veiti slíkri túlkun sérstaka stoð eða að samanburðarskýring við önnur tollfríðindaákvæði tollalaga eða reglugerðar nr. 630/2008 geti leitt til þeirrar niðurstöðu. Þótt taka megi undir það með tollgæslustjóra að almennt beri að skýra lagaákvæði, er fela í sér undanþágu frá almennri tollskyldu samkvæmt 3. gr. tollalaga, þröngt verður allt að einu ekki talið að grundvöllur sé fyrir svo þrengjandi skýringu ákvæðisins sem hinn kærði úrskurður felur í sér án tillits til þess sem ætla má að eigi við um tækifærisgjafir einstaklinga almennt. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um innihald þeirrar sendingar til kæranda sem um ræðir, sbr. hér að framan, verður ekki annað ráðið en að um venjubundna gjöf í tilefni afmælis geti verið að ræða. Að framangreindu athuguðu og að virtum fram komnum skýringum kæranda þykir mega fallast á með kæranda að um sé að ræða tækifærisgjöf í skilningi a-liðar 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, sbr. 1. mgr. 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Er krafa kæranda því tekin til greina.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Krafa kæranda í máli þessu er tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja