Úrskurður yfirskattanefndar
- Lokunarstyrkur
Úrskurður nr. 3/2021
Lög nr. 38/2020, 4. gr. 1. tölul. Auglýsing nr. 243/2020, 5. gr.
Kærandi, sem rak veitingasölu og mötuneyti í húsnæði safns, sótti um lokunarstyrk vegna lokunar safnsins um vorið 2020. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að þótt fallist yrði á með kæranda, að í reynd hefði verið ómögulegt eða illgerlegt að starfrækja kaffiteríuna innan veggja safnsins meðan lokun þess stóð yfir, yrði ekki litið framhjá því að sú aðstaða hafi komið til vegna lokunar safnsins sjálfs og ekki verið afleiðing þess að kæranda hefði verið skylt að láta af starfseminni eftir ákvæðum 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Var kröfu kæranda hafnað.
Ár 2021, miðvikudaginn 20. janúar, er tekið fyrir mál nr. 132/2020; kæra A ehf., dags. 17. september 2020, vegna ákvörðunar um lokunarstyrk. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 17. september 2020, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 7. september 2020, að hafna umsókn kæranda um lokunarstyrk samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Ákvörðun ríkisskattstjóra, sem tekin var í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 21. júlí 2020, og svarbréf kæranda, dags. 25. sama mánaðar, var byggð á því að starfsemi kæranda, sem fólgin væri í rekstri mötuneytis og kaffistofu, félli ekki undir ákvæði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020, þ.e. kæranda hefði ekki verið skylt að láta af starfseminni samkvæmt 1. og 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, sbr. 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997. Kom fram að starfsemi kæranda félli undir 3. og 4. gr. auglýsingar nr. 243/2020, þ.e. um væri að ræða starfsemi sem hefði sætt fjölda- og nálægðartakmörkunum eða takmörkunum á opnunartíma. Hægt hefði því verið að viðhalda starfsemi í einhverri mynd og aðlaga hertum sóttvörnum. Í niðurlagi ákvörðunarinnar kom fram að þar sem kærandi fullnægði ekki skilyrðum 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 yrði ekki tekinn til athugunar hlutfallsútreikningur á launakostnaði.
Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi. Í kærunni er rakið að kærandi reki veitingasölu og mötuneyti í húsnæði safnsins X. Safninu hafi verið lokað vegna heimsfaraldurs kórónuveiru um vorið 2020 og viðskipti því verið engin hjá kæranda, enda hafi engir viðskiptavinir komist inn í húsnæðið. Engu að síður hafi tveir starfsmenn kæranda starfað launalaust ásamt eiganda í aprílmánuði við þrif, frágang og björgun eða förgun verðmæta, en vörur og matvæli fyrir á aðra milljón króna hafi endað í ruslinu. Að jafnaði séu apríl og maí tekjuhæstu mánuðir ársins í rekstri kæranda og því hafi verið um mikið högg að ræða fyrir starfsemi félagsins. Hinni kærðu ákvörðun sé mómælt þar sem taka verði tillit til þess að safninu hafi verið lokað, en starfsemi kæranda sé innan veggja safnsins og því algerlega háð opnunartíma þess. Engir viðskiptavinir hafi komist inn í húsnæðið og kærandi hafi ekki haft nein úrræði til að aðlaga reksturinn breyttum aðstæðum. Ranghermt sé í úrskurði ríkisskattstjóra að starfsemin falli undir 3. og 4. gr. auglýsingar nr. 243/2020 þar sem safninu hafi verið lokað. Einkennilegt sé að halda því fram að kæranda hafi ekki verið skylt að loka þar sem þess hafi ekki verið nokkur kostur að halda rekstrinum áfram án nokkurra viðskiptavina. Sé farið fram á að kærandi fái greiddan lokunarstyrk svo eigandi félagsins sitji ekki uppi með allt tjón vegna lokunarinnar. Nokkur launakostnaður sé útistandandi auk kostnaðar vegna yfirdráttarláns og endurskoðunar.
II.
Með bréfi til heilbrigðisráðuneytisins, dags. 21. september 2020, óskaði yfirskattanefnd eftir umsögn ráðuneytisins um kæruefni málsins, sbr. 8. gr. laga nr. 38/2020. Af því tilefni hefur heilbrigðisráðuneytið lagt fram umsögn í málinu með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 5. nóvember 2020. Í umsögninni kemur m.a. fram að með 1. og 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020 hafi verið lokað á starfsemi sem krefjist snertingar eða mikillar nálægðar. Þar sem umrædd ákvæði auglýsingarinnar hafi falið í sér skerðingu á atvinnufrelsi hafi þau verið ekki verið túlkuð rýmra en leiði af orðalagi þeirra og önnur starfsemi en sú, sem talin sé upp, ekki verið talin falla undir nema að teljast að öllu leyti sambærileg. Að mati ráðuneytisins verði ekki talið að veitingastað, sem staðsettur sé inni á safni sem gert hafi verið að loka á grundvelli 1. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, hafi ekki verið unnt til dæmis að útfæra opnun staðarins í samráði við leigusala eða aðlaga rekstur að breyttum aðstæðum með einhverjum hætti, eins og margir hafi gert á sama tíma. Lokun ýmissar starfsemi og þjónustu hafi leitt til þess að önnur starfsemi hafi þurft að hagræða eða breyta rekstri sínum eða jafnvel loka á gildistíma auglýsingarinnar sem ekki hafi þó leitt til réttar til lokunarstyrks. Hefði ráðuneytinu borist erindi frá kæranda í gildistíð auglýsingarinnar hefði ráðuneytið því ekki talið að loka bæri starfsemi félagsins á grundvelli 1. og 2. mgr. 5. gr. auglýsingarinnar, enda krefðist starfsemin hvorki nálægðar né snertingar og veitingastöðum sem þessum hafi ekki verið gert að loka. Safninu sjálfu hafi borið að loka, en ekki hafi verið útilokað að húsnæði þess væri opið til að unnt væri að komast á kaffiteríu kæranda þrátt fyrir að safnhluti hússins væri lokaður. Það hefði samrýmst auglýsingu nr. 243/2020, enda beri að skýra hana þröngt. Sýna beri því skilning að starfsemi kæranda hafi lagst niður að verulegu leyti þegar safninu var óheimilt að starfa. Aftur á móti verði ekki séð að lög nr. 38/2020 geri ráð fyrir því að slíkar afleiddar lokanir falli undir skilyrði laganna fyrir lokunarstyrk. Með vísan til framanritaðs sé það mat ráðuneytisins að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 um að félaginu væri skylt að láta af starfsemi eða þjónustu samkvæmt 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020.
III.
Með bréfi, dags. 10. nóvember 2020, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að ákvörðun ríkisskattstjóra verði staðfest með vísan til forsendna hennar. Kemur fram að ljóst sé af lögum nr. 38/2020 að starfsemi og þjónusta sem ekki hafi beinlínis verið óheimil og gert að loka samkvæmt 1. og 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020 eigi ekki rétt á lokunarstyrk. Séu þessi sjónarmið einnig reifuð í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 38/2020. Því skapi það kæranda ekki rétt til lokunarstyrks þótt eigandi eða rekstraraðili þess húsnæðis sem kærandi var með starfsemi í hafi viðhaft meiri lokun en varðað hafi eiginlega starfsemi hans, þ.e. starfsemi kæranda hafi skerst eða stöðvast tímabundið, enda hafi starfsemin verið þess eðlis að henni hafi ekki verið gert að loka heldur mátt viðhalda henni í einhverri mynd og laga að hertum sóttvörnum.
IV.
Með bréfi, dags. 25. nóvember 2020, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögnum heilbrigðisráðuneytisins og ríkisskattstjóra. Í bréfinu er áréttað að því húsnæði þar sem kærandi hafi haft starfsemi sína hafi verið alfarið lokað vegna farsóttar og því engin starfsemi getað farið þar fram. Verði því ekki unað við hina kærðu niðurstöðu ríkisskattstjóra. Í bréfinu er jafnframt vísað til meðfylgjandi yfirlýsingar forstöðumanns safnsins X. Þar kemur fram að húsnæði safnsins hafi verið lokað vegna heimsfaraldurs kórónuveiru dagana 16. mars til 4. maí 2020 eða í sjö vikur samfleytt. Einungis lítill hluti starfsfólks safnsins hafi verið í vinnu og engir gestir eða notendur hafi verið í safninu. Veitingastofa hafi verið lokuð og mötuneyti aðeins rekið fyrir það starfsfólk sem komið hafi til vinnu í húsinu. Ekki hafi verið unnt að hafa húsið opið fyrir almenningi þar sem sami inngangur sé fyrir safnið og veitingastofuna.
V.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 38/2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, gilda lög þessi um einstaklinga og lögaðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. febrúar 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. eða 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Er markmið laganna að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja við minni rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar, sbr. 2. gr. laganna. Í II. kafla laga nr. 38/2020 er fjallað um greiðslu svonefndra lokunarstyrkja úr ríkissjóði, en samkvæmt 4. gr. laganna á rekstraraðili sem fellur undir lögin rétt á slíkum styrk að uppfylltum skilyrðum sem talin eru í fimm töluliðum í lagagreininni. Samkvæmt 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 er skilyrði fyrir greiðslu lokunarstyrks að rekstraraðila hafi verið gert skylt að loka samkomustað samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, eða láta af starfsemi eða þjónustu samkvæmt 2. mgr. sömu greinar á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997.
Í 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997 eru ákvæði um opinberar sóttvarnaráðstafanir vegna hættu á farsóttum innanlands. Samkvæmt 2. mgr. lagagreinarinnar ákveður ráðherra að fenginni tillögu sóttvarnalæknis hvort grípa skuli til opinberra sóttvarnaráðstafana, svo sem ónæmisaðgerða, einangrunar smitaðra, sótthreinsunar, afkvíunar byggðarlaga eða landsins alls, lokunar skóla eða samkomubanns. Hinn 6. mars 2020 lýsti ríkislögreglustjóri yfir neyðarstigi almannavarna hér á landi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Hinn 13. sama mánaðar ákvað heilbrigðisráðherra á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga að takmarka samkomur til að hægja á útbreiðslu veirunnar með auglýsingu nr. 217/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Hinn 22. mars ákvað heilbrigðisráðherra síðan að takmarka samkomur enn frekar en áður með auglýsingu nr. 243/2020. Meðal þess sem hertar aðgerðir samkvæmt auglýsingunni fólu í sér var bann við samkomum þar sem fleiri en 20 manns komu saman og lokun samkomustaða og starfsemi vegna sérstakrar smithættu frá 24. mars til og með 12. apríl 2020, sbr. m.a. 2. gr. og 5. gr. hennar. Ákvæði 5. gr. auglýsingarinnar um lokun samkomustaða og starfsemi vegna sérstakrar smithættu eru svohljóðandi:
„Sundlaugum, líkamsræktarstöðvum, skemmtistöðum, krám, spilasölum, spilakössum og söfnum skal lokað á gildistíma auglýsingar þessarar. Þá skulu aðrir veitingastaðir þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar ekki hafa opið lengur en til kl. 23:00 alla daga vikunnar.
Starfsemi og þjónusta sem krefst eða hætta er á snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar er óheimil á gildistíma auglýsingar þessarar, svo sem allt íþróttastarf, starfsemi hárgreiðslustofa, snyrtistofa, nuddstofa og önnur sambærileg starfsemi. Þetta á einnig við um íþróttastarf þar sem notkun á sameiginlegum búnaði getur haft smithættu í för með sér, t.d. skíðalyftur.“
Í athugasemdum við 4. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 38/2020, sbr. þskj. 1254 á 150. löggjafarþingi 2019-2020, er vikið að framangreindu ákvæði 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020 og tekið fram að það sé almennt orðað og beri ekki með sér tæmandi talningu á þeirri starfsemi sem falli undir skýlausa kröfu um lokun eða algera skerðingu á möguleikum aðila til að halda úti starfsemi eða veita þjónustu. Við mat á því hvað teljist sambærileg starfsemi samkvæmt 2. mgr. 5. gr. verði að horfa til þess hvort eðli starfseminnar krefjist eða feli í sér hættu á snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar. Þar undir falli starfsemi ýmissa heilbrigðisstétta, svo sem tannlækna, hvers kyns líkams- og snyrtimeðferðir, til dæmis húðflúrunarstofur, hand- og fótaaðgerðir, sjúkraþjálfun og sjúkranudd. Meðferðir á dýrum, svo sem hundasnyrting, falli þar einnig undir. Þá er þess getið í athugasemdum að heilbrigðisráðuneytið hafi haft umsjón með fyrirspurnum um túlkun á inntaki og gildissviði auglýsingarinnar. Með hliðsjón af því sé í 8. gr. frumvarpsins lagt til að Skatturinn og yfirskattanefnd geti leitað umsagnar ráðherra sem fari með málefni sóttvarna um vafaatriði sem lúti að skilyrði 1. tölul. 4. gr., sbr. nú 2. mgr. 7. gr. og 8. gr. laga nr. 38/2020.
Kærandi í máli þessu rekur veitingasölu og mötuneyti í húsnæði safnsins X. Óumdeilt er í málinu að kæranda var ekki skylt að loka starfseminni á gildistíma auglýsingar nr. 243/2020 frekar en öðrum aðilum með sambærilegan rekstur, sbr. fyrrgreind ákvæði 5. gr. auglýsingarinnar. Af hálfu kæranda hefur hins vegar verið bent á að þar sem starfsemin fór fram í húsakynnum safnsins, sem var lokað á grundvelli 1. mgr. 5. gr. auglýsingarinnar, hafi kæranda í reynd verið ókleift að starfrækja veitingasölu í húsnæðinu. Í bréfi kæranda til yfirskattanefndar, dags. 25. nóvember 2020, er vísað til meðfylgjandi yfirlýsingar forstöðumanns safnsins, dags. 24. sama mánaðar, í þessu sambandi þar sem fram kemur að veitingastofu hafi verið lokað og mötuneyti einungis verið starfrækt fyrir þá fáu starfsmenn safnsins sem verið hafi við vinnu í húsinu. Ekki hafi verið hægt að hafa opið fyrir almenning þar sem sameiginlegur inngangur sé fyrir safnið og veitingastofuna.
Eftir lögum nr. 38/2020 er afdráttarlaust skilyrði fyrir greiðslu lokunarstyrks að aðila hafi verið gert að loka samkomustað eða láta af starfsemi eða þjónustu samkvæmt 1. eða 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, sbr. 1. tölul. 4. gr. laganna. Í lögunum eru ekki gerðar neinar undantekningar frá þessu skilyrði. Þótt fallist yrði á með kæranda, að í reynd hafi verið ómögulegt eða illgerlegt að starfrækja kaffiteríuna innan veggja safnsins X meðan lokun safnsins stóð yfir, verður ekki litið framhjá því að sú aðstaða kom til vegna lokunar safnsins sjálfs og var ekki afleiðing þess að kæranda hafi verið skylt að láta af starfseminni eftir fyrrgreindum ákvæðum 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020. Verður því ekki talið að skilyrði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 séu uppfyllt í tilviki kæranda. Samkvæmt því og þar sem annarri lagaheimild er ekki til að dreifa í þessu sambandi verður að hafna kröfu kæranda í málinu.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.