Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 496/1991
Gjaldár 1990
Lög nr. 75/1981 — 81. gr. 2. mgr.
Eignarskattur — Eignarskattsstofn — Hjón — Sköttun hjóna — Eftirlifandi maki — Sköttun eftirlifandi maka — Óskipt bú — Búsetuleyfi — Leyfi til setu í óskiptu búi
Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 28. nóvember 1990, fer umboðsmaður kæranda fram á, að við álagningu eignarskatts gjaldárið 1990 verði tekið tillit til ákvæða 2. mgr. 81. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 9. gr. laga nr. 51/1989, varðandi ákvörðun eignarskattsstofns eftirlifandi maka, er situr í óskiptu búi. Með kærunni fylgir ljósrit af leyfi til setu í óskiptu búi, dags. 24. október 1990, til handa kæranda eftir eiginmann hennar, X, sem lést 1988.
Með bréfi, dags. 25. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri fallist á kröfu kæranda með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum.
Krafa kæranda í máli þessu er tekin til greina.