Úrskurður yfirskattanefndar

  • Lokunarstyrkur

Úrskurður nr. 5/2021

Lög nr. 38/2020, 4. gr. 1. tölul.   Auglýsing nr. 243/2020, 5. gr.  

Fallist var á með kæranda, sem hafði með höndum jeppaferðir með leiðsögn fyrir minni hópa, að skilyrði fyrir greiðslu lokunarstyrks væru uppfyllt í tilviki kæranda, enda var talið að starfsemin krefðist slíkrar nálægðar vegna takmarkaðs rýmis í bifreiðum kæranda að starfsemin yrði lögð að jöfnu við aðra starfsemi sem fæli í sér sérstaka smithættu, sbr. auglýsingu nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

Ár 2021, miðvikudaginn 20. janúar, er tekið fyrir mál nr. 159/2020; kæra A ehf., dags. 11. október 2020, vegna ákvörðunar um lokunarstyrk. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 11. október 2020, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 29. september 2020, að hafna umsókn kæranda um lokunarstyrk samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Ákvörðun ríkisskattstjóra, sem tekin var í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 3. september 2020, og svarbréf kæranda, dags. 11. sama mánaðar, var byggð á því að starfsemi kæranda, sem fólgin væri í jeppaferðum með leiðsögn fyrir litla hópa, félli ekki undir ákvæði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020, þ.e. kæranda hefði ekki verið skylt að láta af starfseminni samkvæmt 1. og 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, sbr. 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997. Kom fram að starfsemi kæranda félli undir 3. og 4. gr. auglýsingar nr. 243/2020, þ.e. um væri að ræða starfsemi sem hefði sætt fjölda- og nálægðartakmörkunum. Hægt hefði því verið að viðhalda starfsemi í einhverri mynd og aðlaga hertum sóttvörnum.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi. Í kærunni er rakið að í jeppaferðum á vegum kæranda sé engin leið að halda tveggja metra fjarlægð milli einstaklinga, sbr. 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020. Sé því um að ræða starfsemi eða þjónustu sem krefjist mikillar nálægðar í skilningi þessa ákvæðis auglýsingarinnar og kæranda því verið óheimilt að halda starfseminni áfram á gildistíma auglýsingarinnar. Talning á starfsemi í ákvæðinu sé aðeins í dæmaskyni og því geti ekki ráðið úrslitum að jeppaferðir séu ekki taldar upp sérstaklega. Ekki sé um minni smithættu að ræða þegar allt að fjórir einstaklingar sitji saman í jeppa heldur en þegar setið sé á rakarastofu, í skíðalyftu eða æfingar stundaðar í líkamsræktarstöð. Hafa beri í huga að markmið sóttvarna hafi verið að draga úr útbreiðslu faraldurs kórónuveirunnar. Kæranda hafi ekki verið kleift að laga starfsemina að nálægðartakmörkunum, ekki frekar en rakara hafi verið unnt að halda stofu sinni opinni með því að setja greiðu á kústskaft og greiða viðskiptavinum úr tilskilinni fjarlægð. Túlkun ríkisskattstjóra sé því of þröng og stríði bæði gegn meginmarkmiði laga nr. 38/2020 og ítrekuðum skilaboðum á upplýsingafundum almannavarna um samvinnu allra við að hefta útbreiðslu faraldursins. Af hálfu kæranda hafi því verið tekin sú ábyrga afstaða að láta af starfsemi til að hægja á útbreiðslu Covid-19 sjúkdómsins, sbr. 1. gr. auglýsingar nr. 243/2020. Er tekið fram að kærandi hafi orðið fyrir miklu tekjufalli vegna faraldursins, en fyrirsvarsmenn félagsins hafi litið svo á að þeim væri skylt að loka starfsemi félagsins á gildistíma auglýsingarinnar.

II.

Með bréfi til heilbrigðisráðuneytisins, dags. 12. október 2020, óskaði yfirskattanefnd eftir umsögn ráðuneytisins um kæruefni málsins, sbr. 8. gr. laga nr. 38/2020. Af því tilefni hefur heilbrigðisráðuneytið lagt fram umsögn í málinu með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 25. nóvember 2020. Í umsögninni kemur m.a. fram að með 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020 hafi verið lokað á starfsemi sem krefjist snertingar eða mikillar nálægðar. Þar sem umrædd ákvæði auglýsingarinnar hafi falið í sér skerðingu á atvinnufrelsi hafi þau verið ekki verið túlkuð rýmra en leiði af orðalagi þeirra og önnur starfsemi en sú, sem talin sé upp, ekki verið talin falla undir nema að teljast að öllu leyti sambærileg. Að mati ráðuneytisins verði vart talið að starfsemi kæranda sé í eðli sínu þannig að hún krefjist snertingar eða feli í sér hættu á snertingu milli fólks þannig að hún geti talist öldungis sambærileg við þá starfsemi sem tilgreind sé í dæmaskyni í 2. mgr. 5. gr. auglýsingarinnar. Á vefsíðu kæranda séu auglýstar ferðir á sérútbúnum jeppum og af myndum á síðunni verði ekki betur séð en unnt hefði verið að halda áfram ferðum á þeim bílum þrátt fyrir að ekki hafi verið hægt að nýta minni bifreiðar. Þá hefði verið hægt að fækka viðskiptavinum í hverri ferð ásamt því að gæta að takmörkunum og nálægð. Hefði ráðuneytinu borist erindi frá kæranda í gildistíð auglýsingarinnar hefði ráðuneytið því ekki talið að loka bæri starfsemi félagsins á grundvelli 1. eða 2. mgr. 5. gr. auglýsingarinnar, en bent á að gæta bæri að fjöldatakmörkunum, nálægð og sótthreinsun og að unnt væri að setja upp skilrúm líkt og gert hefði verið í leigubifreiðum á þessum tíma. Með vísan til framanritaðs sé það mat ráðuneytisins að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 um að félaginu væri skylt að láta af starfsemi eða þjónustu samkvæmt 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020.

III.

Með bréfi, dags. 24. nóvember 2020, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu. Í umsögn ríkisskattstjóra kemur fram að í ljósi rökstuðnings kæranda þyki mega fallast á umsókn félagsins um lokunarstyrk samkvæmt lögum nr. 38/2020. Með vísan til þess og með hliðsjón af þeim lagarökum sem búi að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sé þess krafist að kærunni verði vísað til ríkisskattstjóra til uppkvaðningar nýrrar ákvörðunar.

IV.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 4. desember 2020, voru kæranda send ljósrit af umsögnum heilbrigðisráðuneytisins og ríkisskattstjóra í málinu og kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 38/2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, gilda lög þessi um einstaklinga og lögaðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. febrúar 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. eða 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Er markmið laganna að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja við minni rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar, sbr. 2. gr. laganna. Í II. kafla laga nr. 38/2020 er fjallað um greiðslu svonefndra lokunarstyrkja úr ríkissjóði, en samkvæmt 4. gr. laganna á rekstraraðili sem fellur undir lögin rétt á slíkum styrk að uppfylltum skilyrðum sem talin eru í fimm töluliðum í lagagreininni. Samkvæmt 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 er skilyrði fyrir greiðslu lokunarstyrks að rekstraraðila hafi verið gert skylt að loka samkomustað samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, eða láta af starfsemi eða þjónustu samkvæmt 2. mgr. sömu greinar á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997.

Í 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997 eru ákvæði um opinberar sóttvarnaráðstafanir vegna hættu á farsóttum innanlands. Samkvæmt 2. mgr. lagagreinarinnar ákveður ráðherra að fenginni tillögu sóttvarnalæknis hvort grípa skuli til opinberra sóttvarnaráðstafana, svo sem ónæmisaðgerða, einangrunar smitaðra, sótthreinsunar, afkvíunar byggðarlaga eða landsins alls, lokunar skóla eða samkomubanns. Hinn 6. mars 2020 lýsti ríkislögreglustjóri yfir neyðarstigi almannavarna hér á landi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Hinn 13. sama mánaðar ákvað heilbrigðisráðherra á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga að takmarka samkomur til að hægja á útbreiðslu veirunnar með auglýsingu nr. 217/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Hinn 22. mars ákvað heilbrigðisráðherra síðan að takmarka samkomur enn frekar en áður með auglýsingu nr. 243/2020. Meðal þess sem hertar aðgerðir samkvæmt auglýsingunni fólu í sér var bann við samkomum þar sem fleiri en 20 manns komu saman og lokun samkomustaða og starfsemi vegna sérstakrar smithættu frá 24. mars til og með 12. apríl 2020, sbr. m.a. 2. gr. og 5. gr. hennar. Ákvæði 5. gr. auglýsingarinnar um lokun samkomustaða og starfsemi vegna sérstakrar smithættu eru svohljóðandi:

„Sundlaugum, líkamsræktarstöðvum, skemmtistöðum, krám, spilasölum, spilakössum og söfnum skal lokað á gildistíma auglýsingar þessarar. Þá skulu aðrir veitingastaðir þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar ekki hafa opið lengur en til kl. 23:00 alla daga vikunnar.

Starfsemi og þjónusta sem krefst eða hætta er á snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar er óheimil á gildistíma auglýsingar þessarar, svo sem allt íþróttastarf, starfsemi hárgreiðslustofa, snyrtistofa, nuddstofa og önnur sambærileg starfsemi. Þetta á einnig við um íþróttastarf þar sem notkun á sameiginlegum búnaði getur haft smithættu í för með sér, t.d. skíðalyftur.“

Í athugasemdum við 4. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 38/2020, sbr. þskj. 1254 á 150. löggjafarþingi 2019-2020, er vikið að framangreindu ákvæði 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020 og tekið fram að það sé almennt orðað og beri ekki með sér tæmandi talningu á þeirri starfsemi sem falli undir skýlausa kröfu um lokun eða algera skerðingu á möguleikum aðila til að halda úti starfsemi eða veita þjónustu. Við mat á því hvað teljist sambærileg starfsemi samkvæmt 2. mgr. 5. gr. verði að horfa til þess hvort eðli starfseminnar krefjist eða feli í sér hættu á snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar. Þar undir falli starfsemi ýmissa heilbrigðisstétta, svo sem tannlækna, hvers kyns líkams- og snyrtimeðferðir, til dæmis húðflúrunarstofur, hand- og fótaaðgerðir, sjúkraþjálfun og sjúkranudd. Meðferðir á dýrum, svo sem hundasnyrting, falli þar einnig undir. Þá er þess getið í athugasemdum að heilbrigðisráðuneytið hafi haft umsjón með fyrirspurnum um túlkun á inntaki og gildissviði auglýsingarinnar. Með hliðsjón af því sé í 8. gr. frumvarpsins lagt til að Skatturinn og yfirskattanefnd geti leitað umsagnar ráðherra sem fari með málefni sóttvarna um vafaatriði sem lúti að skilyrði 1. tölul. 4. gr., sbr. nú 2. mgr. 7. gr. og 8. gr. laga nr. 38/2020.

Eins og fram kemur í umsögn heilbrigðisráðuneytisins í máli þessu verða laga- og reglugerðarákvæði, sem fela í sér íþyngjandi skerðingar á atvinnufrelsi, jafnan ekki skýrð rýmkandi lögskýringu. Verður að telja að þetta eigi almennt við um túlkun fyrrgreindra ákvæða auglýsingar nr. 243/2020 um lokun samkomustaða og starfsemi vegna smithættu. Á hinn bóginn veitir ákvæði 2. mgr. 5. gr. nefndrar auglýsingar nokkurt svigrúm við túlkun að því leyti að ekki er um tæmandi talningu á óheimilli starfsemi að ræða í ákvæðinu þar sem önnur starfsemi, sem telja má sambærilega þeirri starfsemi sem þar er sérstaklega talin með tilliti til smithættu, er einnig óheimil á gildistíma auglýsingarinnar. Þá er sömuleiðis ljóst af orðalagi ákvæðisins að nægilegt er að starfsemi fylgi hætta á snertingu eða mikilli nálægð einstaklinga til að skylt sé að láta af henni. Við skýringu 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020 í einstökum tilvikum þykir einnig rétt, m.a. í ljósi fyrrgreindra athugasemda í lögskýringargögnum, að hafa hliðsjón af því hvernig háttað sé möguleikum rekstraraðila til að laga rekstur sinn tímabundið að fjölda- og nálægðartakmörkunum samkvæmt 3. og 4. gr. auglýsingarinnar.

Eins og fram er komið er starfsemi kæranda á sviði ferðaþjónustu og nánar tiltekið fólgin í jeppaferðum með leiðsögn fyrir einstaklinga, fjölskyldur og minni hópa, eins og starfseminni er lýst í gögnum málsins og á heimasíðum kæranda sem vísað er til í bréfi félagsins, dags. 11. september 2020. Er krafa kæranda byggð á því að þar sem þess hafi ekki verið kostur að gæta nálægðartakmarkana í ferðum á vegum félagsins, þ.e. í bifreiðum þess, hafi kæranda verið skylt að láta af starfsemi félagsins á gildistíma auglýsingar nr. 243/2020. Að virtum skýringum kæranda þykir mega fallast á að umrædd þjónusta félagsins krefjist slíkrar nálægðar vegna takmarkaðs rýmis í bifreiðum þess að starfsemin geti talist sambærileg þeirri starfsemi sem tiltekin er í dæmaskyni í 2. mgr. 5. gr. auglýsingarinnar, sbr. og umsögn ríkisskattstjóra í málinu þar sem fallist er á sjónarmið kæranda. Er því fallist á að skilyrði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 fyrir greiðslu lokunarstyrks séu uppfyllt í tilviki kæranda.

Af niðurstöðu ríkisskattstjóra í málinu leiddi að embættið hefur enga afstöðu tekið til umsóknar kæranda að öðru leyti, þar með talið með tilliti til fjárhæðar lokunarstyrks. Að þessu gættu og með vísan til sjónarmiða er búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, þykir rétt að senda ríkisskattstjóra kæruna til meðferðar og töku nýrrar ákvörðunar, sbr. 7. gr. laga nr. 38/2020.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda í máli þessu. Kæran er send ríkisskattstjóra til meðferðar og afgreiðslu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja